Í Frakklandi er komin upp sú undarlega staða að fólki er nú gert skylt að bera sóttvarnargrímur á almannafæri, á sama tíma og það varðar viðurlögum að hylja andlit sitt af trúarástæðum. Nú velta margir því fyrir sér hvort þessi mismunun standist lög. Í stuttu máli er svarið já. Hvort lögin eru hafin yfir gagnrýni er svo önnur saga.

Aðdragandi „búrkubannsins“

„Búrkubannið“ í Frakklandi tók gildi í október 2010. Samkvæmt lagabókstafnum er fólki bannað að hylja andlit sitt á almannafæri og múslímar ekki nefndir í því sambandi. Óumdeilt er þó að banninu var beint gegn andlitshulum múslímakvenna; búrku, sem hylur allt andlitið og er með neti yfiraugnsvæðinu og niqab sem hylur allt nema augu.

„Búrkubannið“ var grundvallað á skýrslu þingnefndar sem unnin var í aðdraganda  lagafrumvarpsins.

Þingnefndin taldi nauðsynlegt að leysa konur undan þeirri undirgefni sem andlishulan stæði fyrir og mælti með þrennskonar viðbrögðum gegn þeim sið að hylja andlit kvenna:

  1. að sannfæra fólk um nauðsyn þess að uppræta þessa venju
  2. að vernda konur gegn þrýstingi til að hylja andlit sitt
  3. að reikna með möguleikanum á banni gegn slíkum slæðum

Jafnframt var gerð tillaga að fernskonar aðgerðum til að fylgja þessum markmiðum eftir, m.a. var mælt með löggjöf til verndar konum sem væru beittar þrýstingi.

Enda þótt höfundar skýrslunnar legðu sérstaka áherslu á að ekki væri neinn einhugur um það á þingi eða innan stjórnmálaflokka að koma á almennu banni gegn andlitshulum varð það niðurstaða þingsins.

Afstaða franskra dómstóla

Múslímar voru almennt ósáttir við lögin og töldu þau ganga gegn trúfrelsisákvæðum stjórnarskrár og Mannréttindasáttmála Evrópu. Málið fór fyrir dómstóla í Frakklandi sem töldu bannið samræmast bæði stjórnarskránni og MSE.

Það sem réði úrslitum um niðurstöðu franskra dómstóla var þó ekki þörfin á að vernda konur, heldur það að samkvæmt fyrrnefndri skýrslu eru andlitsslæður upprunnar í ofstækisfullum trúarhreyfingum (ekki eingöngu islömskum). M.a. þessvegna telja margir andlisthulu táknmynd hugmyndafræði sem hafnar þeim gildum sem kennd hafa verið við frönsku byltinguna; frelsi, jafnrétti og bræðralag.

Franskir dómstólar litu til þessara raka og komust að þeirri niðurstöðu að andlitsslæður samræmdust ekki þeim lágmarkskröfum um „líf í samfélagi“ (le “vivre ensemble”) sem almennt væru gerðar í Frakklandi.

Afstaða MDE

Kona sem hafði látið reyna á banni fyrir frönskum dómstólum undi ekki niðurstöðu þeirra og svo fór að það endaði í Strassborg. Konan er ekki nafngreind í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE), heldur er vísað til hennar sem S.A.S. í dómnum.

S.A.S. gerði þá kröfu fyrir MDE að dómstóllinn staðfesti að trúfrelsisákvæði MSE verndaði rétt hennar til að bera niqab með ákveðnum undantekningum. Hún viðurkenndi t.d. að réttur til að hylja andlit sitt af trúarástæðum gæti ekki átt við um aðstæður þar sem eðlilegt þykir að krefjast framvísunar persónuskilríkja með mynd, svosem í afgreiðslum  banka og þegar farið er í gegnum öryggisleit. Við aðstæður þar sem slíkar undantekningar eiga ekki við taldi S.A.S. að hún hefði stjórnarskrárvarinn rétt til að bera niqab og að í ákveðnum tilvikum væri það einnig trúarleg skylda hennar. Hún taldi sér t.d. skylt að bera niqab á almannafæri í föstumánuði Múslíma, Ramadan.

Hús Mannréttindadómstóls Evrópu í Strassborg

Mannréttindadómstóllinn hafnaði þeim rökum franska ríkisins fyrir nauðsyn búrkubannsins a það væri nauðsynlegt vegna almannaöryggis. Hinsvegar féllst dómstóllinn, nokkuð treglega þó, á að grundvallarreglan um „líf í samfélagi“ réttlætti bann við því að hylja andlit sitt, þar sem svipbrigði gegndu mikilvægu hlutverki í félagslegum samskiptum.

Hvernig samræmast lögin skyldu til að bera sóttvarnargrímur?

Lögin sem tóku gildi í október 2010 kveða á um almennt bann við því að nota á almannafæri klæðnað sem ætlaður er til þess að hylja andlit.

Samkvæmt undantekningarákvæði i lögunum eiga þau ekki við ef stjórnvaldsfyrirmæli kveða á um heimild eða skyldu til að hylja andlit af heilsufarsástæðum eða við aðrar sérstakar aðstæður, svosem vegna íþróttaiðkunar eða þegar það þjónar listrænum tilgangi eða eða er þáttur í hátíðarhöldum eða öðrum menningarviðburðum. Bannið nær þannig t.d. ekki til skiðafólks eða ökumanna vélhjóla sem nota hlífðargrímur í öryggisskyni.

Það er því ekkert í lögunum sem stendur í vegi fyrir stjórnvaldstilskipun um sóttvarnargrímur á almannafæri.

Hvort búrkubannið samræmist réttlætiskennd almennings er svo annað mál. Dómsniðurstaða MDE í máli S.A.S. gegn Frakklandi hefur verið harðlega gagnrýnd, m.a. af fræðimönnum sem benda á að hvergi hafi fundist neinar heimilidir fyrir meintri grundvallarreglu um líf í samfélagi. Reglan virðist ekki hafa orðið til fyrr en með frumvarpinu að búrkubannslögunum.

Enn fleiri halda því fram að jafnvel þótt slík regla væri til, geti það ekki staðist að bann við andlitshulum eða öðrum trúarlegum klæðnaði og táknum geti talist nauðsynlegt í lýðræðisríki, en það er eitt þeirra viðmiða sem MDE leggur til grundvallar þegar hann metur réttmæti takmarkanir á trúfrelsi og öðrum mannréttindum. Reyndar voru það einnig rök tveggja dómara MDE sem skiluðu séráliti í málinu.