Ég komst að því eftir að pabbi dó að hann er líklega ekki blóðfaðir minn og að ég á föður og systur á lífi. Sú sem er líklega systir mín hafði samband við mig og við tókum my heritage próf sem bendir til þess að við séum náskyldar. Blóðfaðir minn býr erlendis og er dauðvona. Hann staðfestir að hafa verið með móður minni. Nægir my heritage próf til að fá faðernið leiðrétt og hvernig á ég þá að snúa mér í því? Hvað gerist ef karlinn deyr áður en faðernið verður staðfest? Getur þá einhver mótmælt því að hann sé faðir minn og er hætta á að þurfi að grafa líkið upp?
☆☆☆
My heritage próf nægir ekki til að breyta skráningu í þjóðskrá. Ef rangt faðerni hefur verið skráð við fæðingu þá er eina leiðin til að fá rétt faðerni viðurkennt af ríkinu að höfða faðernismál. Það þurfa ekki endilega að vera nein leiðindi, þegar bæði faðir og barn eru sammála þá er þetta gert þannig að barnið stefnir föðurnum til viðurkenningar á faðerni og hann mótmælir ekki kröfunni. Þið þurfið svo að fara í dna próf og af það sýnir fram á tengslin þá verður faðernið viðurkennt með dómi.
Nú taka dómsmál alltaf nokkuð langan tíma en ef sennilegur líffaðir þinn deyr áður en næst að taka lífsýni þá er samt hægt að fá faðernið staðfest með því að fá lífsýni úr systur þinni, þannig að það á ekki að þurfa að raska grafarró til þess. Ef hann deyr áður en dómsmál er höfðað þarftu að stefna sennilegri systur þinni. Ef þú býrð á Íslandi skiptir ekki máli þótt hann búi erlendis, það er samt hægt sé að reka dómsmál af þessu tagi hér á landi. Aðrir geta ekki mótmælt því fyrir dómi að faðerni verði staðfest.
Staðfesting ríkisvaldsins á réttu faðerni getur haft áhrif á réttarstöðu þína í erfðamálum. Ef þú hefur tekið arf eftir skráðan föður en síðar kemur í ljós að hann var ekki faðir þinn, þá er mögulegt að einhver annar erfingi reyni að fá dánarbússkiptin tekin upp. Eins gætu komið upp vandamál ef líffaðirinn á eignir og þú vilt taka arf eftir hann. Þótt sennileg systir þín vilji þekkja þig þá er ekki þar með sagt að hún (og/eða aðrir erfingjar) vilji skipta með þér arfi. Ef það skiptir þig máli að fá faðernið staðfest opinberlega af öðrum ástæðum en þeirri að þú viljir taka arf eftir lífföður þinn, þá getur þú hafnað arfi.
Ef það skiptir þig ekki sérstöku máli að opinberir aðilar viðurkenni faðerni þitt heldur aðallega að þú fáir það staðfest, þá er hægt að gera dna rannsóknir án þess að fara fyrir dóm. Það getur verið dýrt en ef þú ferð fyrir dóm þá þarftu ekki að greiða neitt því skv. 11. gr. barnalaga greiðist kostnaður þinn úr ríkissjóði.
Photo 85581022 © Shawn Hempel | Dreamstime.com