Það er athyglisvert að nokkrum dögum eftir að dómur fellur þess efnis að manni skuli vera refsilaust að lumbra á konu sinni, vaða inn í leggöng hennar gegn vilja hennar og taka hana kverkataki ef hann grunar hana um framhjáhald, skuli einmitt þessháttar mál leiða til manndráps.

Nú fáum við bráðum að sjá hvort mönnum er bara heimilt að berja konu til tryggðar eða hvort þeir mega ganga alla leið og losa sig við tæfuna í eitt skipti fyrir öll. Kannski þeir megi það ef þeir verða ógurlega reiðir því eins og segir í dómi héraðsdóms yfir Kjartani Ólafssyni:

í þessu tilviki leggur ákærður hendur á kæranda í mikilli bræði og hníga gögnin frekar að því, að kæramdi kunni að hafa valdið því.

Í dómsorðinu kemur fram að við þá ákvörðun að fresta ákvörðun refsingar sé litið til þess hversu sein konan var til að kæra og að málið blandist forræðisdeilu. Það leið ein vika þar til hún lagði fram kæru, ein vika.

Ég legg til að Guðmundur L. Jóhannesson héraðsdómari taki að sér að útskýra fyrir börnum Sæunnar Pálsdóttur hvers vegna mamma þeirra er dáin og hver það var sem sagði pabba þeirra og öðrum ofbeldismönnum að kona sem hegðar sér illa geti sjálfri sér um kennt ef karlinn herðir að hálsi hennar.

—–

Uppfært:  Dómur Guðmundar L. Jóhannessonar yfir Kjartani er hér, fyrir neðan dóm hæstaréttar. Við áfrýjun dæmdi hæstiréttur Kjartan til þriggja mánaða fangelsisvistar og var dómurinn skilorðsbundinn til þriggja ára.