Brotkastþátturinn Til hlítar hóf göngu sína þann 10. febrúar. Gestur fyrsta þáttar var Lára Magnúsardóttir. Hún er doktor í sagnfræði og sérsvið hennar er kirkjuréttarsaga. Einkum hefur hún einbeitt sér að bannfæringu og refsingum á miðöldum.

Þótt sérsvið Láru sé saga kirkjuréttar getur sá sem rannsakar refsingar í kirkjurétti miðalda ekki komist hjá því að skoða veraldlega kerfið líka. Lára hefur lengi velt því fyrir sér hvað gerðist eftir að sakamaður hafði verið dæmdur til dauða. Hvernig fór aftakan fram? Hvar fór hún fram? Hver sá um framkvæmdina? Hvað varð um líkið?

Lítið er hægt að ráða um þetta af rituðum heimildum og telur Lára það standa í sambandi við það að þegar maður hafið unnið sér til óhelgi þá var hann sviptur öllum réttindum. Líklega hafi ekki þótt sérstök þörf á reglum um það hvernig fara skyldi með réttlausan mann. En þótt ritaðar heimildir séu fátæklegar telur Lára sig samt hafa orðið nokkurs vísari með því að rýna í myndskreytingar í gömlum handritum. Á meðan Lára beið af sér samkomutakmarkanir vegna kórónufaraldursins, gerði hún sér það til dundurs að endurvinna myndir úr handritum. Það varð til þess að hún fór að taka eftir ýmsum smáatriðum og setja myndirnar í samhengi við aðra þekkingu sem hún hafði aflað sér. Í þættinum segir Lára frá aftökum á miðöldum, m.a. út frá því sem hún hefur lesið úr handritamyndum.

Á Íslandi hófust aftökur ekki fyrr en með konungsvaldinu á 13. öld. Fram að því höfðu svokallaðir óbótamenn verði dæmdir til útlegðar, og sjálfsagt oft verið drepnir, en þá voru það ekki dómendur sem dæmdu þá til dauða og ekki stjórnvöld sem tóku þá af lífi, heldur einstaklingar eða hópar sem tóku sig saman um það. Eftir að konungsvald var tekið upp var stjórnkerfið tvískipt.

Konungur réði í veraldlegum efnum en kirkjan hinum andlegu. Í skrifum Láru Magnúsardóttur um þetta efni kemur fram að í sumum tilvikum hafi verið ákveðið samstarf milli kirkju og konungsvalds en meginreglan hafi verið sú að konungur dæmdi í málum sem vörðuðu brot gegn öðrum mönnum, svosem þegar eignaspjöll og ofbeldisverk voru framin. Brot án fórnarlambs, eins og t.d. óskírlífi og vanræksla á sakramenti og öðrum trúarlegum skyldum heyrðu aftur á móti undir biskup.

Í þættinum lýsir Lára framkvæmd aftöku. Hún segir ekkert benda til þess að aftökur á Íslandi hafi verið opinber skemmtun. Þá telur hún ólíklegt að í aftöku hafi falist ritúal, heldur hafi menn frekar litið á það sem verk sem þyrfti að vinna að losa sig við glæpamenn. Hún fjallar einnig um stöðu böðulsins, afstökustaði og þau verkfæri sem notuð voru við aftöku. Gálginn var t.d. ekkert í líkingu við þá gálga sem við sjáum í bandarískum og evrópskum kvikmyndum.

Höfuðmyndin er úr handriti frá 14. öld, AM 350 fol. Hægra megin er endurgerð Láru Magnúsardóttur.