Má lögmaður birta gögn úr lögreglurannsókn? Má hann það ef hann er ekki í hlutverki lögmanns?

Facebookfærslur Sigurðar G. Guðjónssonar lögmanns um KSÍ-málið eru með áhugaverðari lögfræðilegum álitaefnum sem verið hafa í brennidepli á árinu. Ummæli hans, og það tiltæki að birta gögn úr lögreglunrannsókn, voru kærð til úrskurðarnefndar lögmanna. Um miðjan desember vísaði úrskurðarnefndin málinu frá sér. Meginforsenda þeirrar niðurstöðu er sú að ummæli Sigurðar hafi ekki fallið í tengslum við starf hans sem lögmanns. Úrskurðarnefndin hafi því ekki valdheimildir til að taka afstöðu til þeirra.

Málið minnir að sumu leyti á mál Snorra í Betel. Í báðum tilvikum er um að ræða tjáningu á opinberum vettvangi. Í báðum tilvikum um mál sem tengjast ekki starfi þess lætur ummælin falla. Margir telja þó að með ummælum sem séu til þess fallin að særa og móðga hafi þeir sem bera ábyrgð á þeim sýnt af sér háttsemi sem samræmist ekki störfum þeirra og því eigi að refsa þeim, með áminningu eða starfsmissi.

Mál þessi eru þó í mikilvægum atriðum ólík. Snorri var að tjá skoðanir sínar á ástalífi samkynhneigðra almennt og rökstuddi þær með vísun í trúarrit. Sigurður tjáði skoðun sína á frásögn einstaklings af persónulegri reynslu og rökstuddi skoðun sína með birtingu gagna úr sakamálarannsókn.

Það er ekki ólöglegt að vitna í trúarrrit. Ekki nema það sé gert í því skyni að hvetja til ofsókna eða mismununar eða við aðstæður þar sem hætta er á að slík tjáning ýti undir ofbeldi eða aðra ógn við öryggi annarra. Það getur hinsvegar verið ólöglegt að birta rannsóknargögn lögreglu sem innihalda viðkvæmar persónuupplýsingar.

Hitt er svo annað mál að það getur verið réttlætanlegt að birta gögn í því skyni að leiðrétta ærumeiðandi ummæli og rök SIgurðar fyrir tiltækinu voru m.a. þau að birting gagnanna sýni aðra mynd en þá sem hafði verið til umræðu í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum.

Mál Sigurðar G. Guðjónssonar er enn á borði lögreglu og Persónuverndar og verður áhugavert að sjá hvað kemur út úr því.

Mynd: Hús Lögmannafélags Íslands, skjáskot af google maps