Nú standa forsetakosningar fyrir dyrum og enn og aftur má reikna með umræðu um túlkun stjórnarskrár og valdheimildir forseta.

Sú bráðabirgðastjórnarskrá sem nú hefur verið í gildi í hátt á áttunda áratug er langt frá því að vera skýr um vald forseta. Í forsetatíð Ólafs Ragnars Grímssonar kom í ljós að stjórnarskrárákvæði, sem sumir fræðimenn töldu að hefðu ekkert gildi, höfðu það í reynd. Þar á ég að sjálfsögðu við rétt forseta til að synja lögum staðfestingar (málskotsréttinn) og vald hans til að synja beiðni forsætisráðherra um þingrof.

Hvað myndi gerast ef forseti neitaði að undirrita eitthvað?

Fullyrðingar fræðimanna um að forseti gæti ekki neitað að undirrita lög stóðust ekki og heldur ekki fullyrðingar þeirra um að vald til að rjúfa þing væri í raun vald forsætisráðherra. Reyndar kemur það engum hugsandi manni á óvart, því hvað hélt fólk eiginlega að myndi gerast ef forsetinn segði einfaldlega nei? Töldu lögspekingar að drottinn hersveitanna myndi stíga niður og þvinga forsetann til að munda penna og skrifa nafnið sitt?

Enn eitt ágreiningsatriði um vald forseta er það hvort hann hefur vald til að synja beiðni sakamanns um uppreist æru. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sem hefur annars notið töluverðra vinsælda, sætti nokkurri gagnrýni sumarið 2017 fyrir þá ákvörðun að veita dæmdum barnaníðingi uppreist æru. Ef frá er talinn úlfaþytur vegna góðlátlegs gríns um að banna ananas á pizzur, og gagnrýni á aðgerðaleysi vegna Orkupakka 3, er staðfesting Guðna á uppreist æru barnaníðinga líklega það eina sem hann hefur gert í embætti sem hefur kallað fram sterk viðbrögð.

Guðni sagði á sínum tíma að ákvörðunin væri ekki sín, heldur dómsmálaráðherra, enda væri forseti samkvæmt stjórnarskrá ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum og aðkoma hans aðeins formsatriði. „Það þætti saga til næsta bæjar, og hefur held ég aldrei gerst, að forseti neitaði að skrifa undir stjórnarathafnir“ sagði Guðni í samtali við Ríkisútvarpið.

Getur forseti lagt fram frumvarp til laga?

Enn eitt umdeilt stjórnarskrárákvæði um vald forseta er 25. greinin sem kveður á um að forseti geti lagt fram lagafrumvörp. Margir halda því fram að hann geti alls ekki gert það – af því að það er ekki hefð fyrir því. Ég sé ekki betur en að stjórnarskráin sé dagljós um þetta atriði en það væri sannarlega gott að fá það bara staðfest, með nýrri stjórnarskrá.

Forseti getur vitanlega lagt fram lagafrumvörp ef honum sýnist. Það eru allavega engar líkur á að öryggisverðir Alþingis myndu henda honum út ef hann mætti í þingsal og kveddi sér hljóðs. Hvort frumvarpið yrði samþykkt er annað mál; forseti getur ekki þvingað nein lög í gegnum þingið, sem betur fer. Á hinn bóginn getur hann staðið í vegi fyrir lagasetningu, það er nú orðið rækilega staðfest. Forseta er líka í sjálfsvald sett hvaða stjórnarathöfnum hann veitir brautargengi með undirritun sinni. Forseti þarf nefnilega ekki að skrifa undir neitt frekar en honum bara sýnist. Í það minnsta á það við á meðan í gildi er stjórnarskrá sem tekur ekki af skarið.

Það að forseti hafi aldrei beitt valdi sínu merkir vitanlega ekki að hann geti það ekki og enginn hefur ennþá getað útskýrt hvaða afleiðingar það myndi að hafa ef forseti neitaði einfaldlega að staðfesta ákvarðanir ráðherra. Það að forseti sé ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum merkir ekki að hann sé strengjabrúða ráðherra. „Ábyrgðarleysi“ í skilningi stjórnarskrár merkir að forseti verður ekki beittur viðurlögum vegna stjórnarathafna, það merkir ekki að forseti eigi að vera viljalaust verkfæri eða að titillinn virki sem einhverskonar samviskublokker sem fer sjálfkrafa í gang um leið og hann snerir penna.

Mynd: Florian Pircher, Pixabay