Hamrað er á því í fjölmiðlum að hópurinn sem safnaðist saman á Snorrabrautinni í gær hafi ekki haft leyfi fyrir göngunni. Síðan hvenær þarf fólk sérstakt leyfi til að ganga um götur borgarinnar? Á hvaða forsendu var þessu fólki bannað að ganga niður Laugaveginn?

Mér finnst út af fyrir sig flippuð hugmynd að biðja yfirvöld um leyfi til að fá að mótmæla þeim en í ríki þar sem þarf sérstakt leyfi til þess er alveg sérstök ástæða til að mótmæla. Sem betur fer er Ísland ekki ennþá slíkt ríki. Eða hvað?

Önnur mgr. 74. greinar stjórnarskrár landins hljóðar svo:

Rétt eiga menn á að safnast saman vopnlausir. Lögreglunni er heimilt að vera við almennar samkomur. Banna má mannfundi undir berum himni ef uggvænt þykir að af þeim leiði óspektir.

Var þetta fólk vopnað? Hvað var það í fari þessa hóps sem benti til að óspektir væru í uppsiglingu? Voru einhver ofbeldisverk framin eða eitthvað sem benti til þess að þau hefðu slíkt í huga? Voru einhver skemmdarverk framin? Eða kallast dans og trúðalæti óspektir ef þátttakendur hafa skoðanir sem eru stjórnvöldum ekki að skapi?