Árið 2014 komst Mannréttindadómstóll Evrópu að þeirri niðurstöðu að Frökkum væri stætt á því að banna fólki að hylja andlit sitt á almannafæri og þar með andlitsslæður múslímakvenna. (Dóminn má lesa í enskri þýðingu hér.) Í vikunni féll dómur í svipuðu máli gegn Belgíu. (Þeir sem lesa frönsku geta séð hann hér.) Dómurinn í málinu gegn Frakklandi er umdeildur en í forsendum hans kemur fram að bannið sé réttlætanlegt vegna þess markmiðs franska ríkisins að vernda hugmyndina um samlífi manna (the idea of „living together“). Ég sé ekki betur en að dómurinn skapi fleiri vandamál en hann leysir enda er ekki skýrlega skilgreint hvað þessi hugmynd um samlífi merkir.

Konurnar tvær, sem stefndu belgíska ríkinu, telja að bann við því að bera andlitsslæður brjóti gegn trúfrelsi þeirra og friðhelgi einkalífs. Önnur þeirra sagði í skýrslu sinni til MDE að hún gæti ekki brugðist við banninu nema með því að hætta að láta sjá sig á almannafæri. Belgíska ríkið segir hinsvegar að sú hefð að hylja andlit sitt sé ósamrýmanleg belgískri menningu. Dómnum verður væntanlega áfrýjað til yfirdeildar.

Ég er ólæs á frönsku og ensk þýðing ekki komin á netið þegar þetta er skrifað. Ég hef því ekki lesið sjálfan dóminn, aðeins umfjöllun um hann, og veit ekki hversu þungt þessi menningarrök belgíska ríkisins vega. En ef þau standast þá hlýtur Evrópuríkjum allt eins að vera stætt á því að banna rauða blettinn á enni hindúakvenna enda samræmist hugmyndin um þriðja augað ekki evrópskri menningu. Sömuleiðis mætti banna kyrtla, vefjarhetti og höfuðklúta karlmanna sem tíðkast á fjarlægum menningarsvæðum. Það mætti meira að segja halda því fram að sumt í menningu tiltekinna  Evrópuríkja samræmdist ekki menningu annarra ríkja sem hafa lögfest Mannréttindasáttmálann. Á Íslandi er t.d. sennilega algengara að sjá fólk með andlit hulið á almannafæri en að sjá karlmann í stuttu pilsi eða kyrtli með nakin læri, og því hlýtur Íslendingum að vera stætt á því að banna körlum að klæðast skoskum þjóðbúningi.

Þeir sem vilja banna búrkur og nikab-klúta tefla gjarnan fram þeim rökum að slíkur klæðaburður sé tákn kvennakúgunar eða tákn feðraveldis og vel má vera að forsendur dóms MDE byggi á þeirri hugmynd en ekki aðeins því að að hylja andlit sé slæmt fyrir samlífi manna. En eru þá búningar karlanna ekki alveg eins tákn menningar sem gefur skít í mannréttindi? Er eðlilegt að leyfa indverska vefjarhetti þótt við vitum um þá kvennakúgun sem tíðkast á Indlandi (óháð trúarbrögðum) og arabíska karlmannskyrtla, en banna múlímakonum sem búa við kúgun að nota klæðnað sem gerir þeim þó fært að fara út úr húsi án fylgdar karlmanns?

Ég vildi að ég gæti lagt það til að íslenska ríkið bannaði hermannaklæðnað, á þeirri forsendu að skipulögð manndráp og stríðsglæpir samræmist ekki íslenskri menningu, því það yrði svo áhugavert að sjá hvað Mannréttindadómstóllinn segði við því. En það gengur auðvitað ekki, því með þátttöku sinni í NATO styðja Íslendingar sannarlega hernað og þau voðaverk sem unnin eru á vegum Atlantshafsbandalagsins. Mannréttindabrot samræmast menningu Evrópuríkjanna nefnilega alveg hreint prýðilega. Skipulögð kúgun yfirvalda á litlum sem stórum hópum fólks er heldur ekkert andstæð menningu Evrópu. Nærtækasta dæmið er kúgun flóttafólks en hún er víða svo hroðaleg að það gengur þjóðernishreinsunum næst. Ég efast ekki um að sagnfræðingar framtíðarinnar munu tala um þá meðferð á flóttafólki sem viðgengst í Evrópu sem Helför 21. Aldarinnar.

Það áhugaverðasta við andúð vestrænna siðapostula á klæðaburði múslímakvenna er þó þetta; ef þetta snýst virkilega um menningu þar sem kvennakúgun viðgengst, hversvegna í fjandanum ráðast þessir sjálfskipuðu frelsarar þá ekki á karlana sem bera ábyrgð á þeirri kúgun?

Mynd: Harkanwal Singh, Wikimedia