Ég er með ADHD greiningu frá geðllækni í Danmörku. Ég hef ekki búið þar en fór þangað í greiningu af því að það er ekki hægt að komast að hjá geðlækni á Íslandi. Vottorð frá erlendum sérfræðingi er samt ekki nóg til að ég fái þá lyfjameðferð sem ég þarf, til þess þarf ég líka greiningu frá ADHD teymi Landspítalans. Ég hef verið á biðlista hjá þeim í meira en ár en það lítur út fyrir að ég þurfi að bíða í mörg ár í viðbót. Eiga notendur heilbrigðisþjónustu engan rétt á því að fá þjónustu áður en þeir komast á ellilífeyri?

☆☆☆

Lög um réttindi sjúklinga ná til allra notenda heilbrigðisþjónustu, einnig þeirra sem ekki teljast veikir í daglegum skilningi þess orðs Samkvæmt lögunum á sjúklingur rétt á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma er völ á að veita. Þjónustan á jafnframt að miðast við ástand sjúklings og horfur á hverjum tíma. Ég tel af því leiði að þjónustan skuli veitt áður en ástand sjúklingsins skerðir lífsgæði hans enn frekar eða skemmir út frá sér með tilheyrandi afleiðingum. Ég hef eingöngu leikmannsþekkingu á ADHD en ef það er rétt að ómeðhöndlað ADHD geti leitt til þess að fólk ráði ekki við vinnu sína og verkefni daglegs lífs, þá er margra ára bið að mínu viti óboðleg og í ósamræmi við lög um réttindi sjúklinga.

Ég veit ekki til þess að hafi reynt á rétt sjúklinga vegna langra biðlista fyrir dómi en það væri vissulega áhugavert að sjá hvað kæmi út úr því. Ef þú vilt láta reyna á réttindi þín samkvæmt lögum er tvennt sem mér dettur í hug að komi til greina.

Tilmæli í verklagsreglum hafa ekki lagagildi

Í verklagsreglum landlæknis er mælt með því að þverfaglegt teymi annist greiningu á ADHD. Það er þó ekki skilyrði og ég veit ekki til þess að nein lög standi því fyrir þrifum að lyfjaskírteini sé gefið út á grundvelli greiningar sérfræðings með gilt starfsleyfi. Þú getur óskað eftir greiningu hjá íslenskum geðlækni sem er fær um að greina ADHD og myndi þá sækja um lyfjaskírteini fyrir þig í framhaldinu. Eins og þú nefnir er gallinn þó sá að það er ekkert hlaupið að því að fá tíma hjá íslenskum geðlækni með litlum fyrirvara. Þú getur mögulega fengið greiningu hjá sérhæfðum sálfræðingi en samkvæmt verklagsreglum Sjúkratrygginga Íslands verður beiðnin að koma frá geðlækni enda hafa sálfræðingar ekki rétt til að skrifa upp á lyf.

Smellið hér til að skoða Facebooksíðu Hlítar

Greiningar erlendra sérfræðinga og EES samningurinn

Þú getur líka óskað eftir því að geðlæknirinn sem greindi þig í DK hafi samband við Sjúkratryggingar Íslands og óski eftir lyfjaskírteini fyrir þig. Þótt hann sé ekki starfandi á Íslandi ætti það ekki að skipta máli þar sem milliríkjasamningur um Evrópska efnahagssvæðið hefur lagagildi á Íslandi. Samkvæmt samningnum mega sérfræðingar bjóða þjónustu sína hvar sem er innan EES og á grundvelli hans hafa einnig verið gerðir milliríkjasamningar um sjúkratryggingar, m.a. milli Íslands og Danmerkur. Í EES samningnum er ekki tekið fram að þjónusta sem veitt er í öðru aðildarríki samningsins eigi að hafa sömu þýðingu og ef hún væri veitt í heimalandi þess sem þiggur hana. Ég tel það þó eðlilega túlkun enda getur það ekki breytt neinu um eðli greiningar og mat sérfræðings á lyfjaþörf hvort sérfræðingurinn er staddur í Reykjavík eða Kaupmannahöfn.

Ef er útilokað að fá tíma hjá íslenskum sérfræðingi í bráð mælir það sérstaklega með því að tekið verði tilliti til greiningar sérfræðings sem starfar erlendis. Ég myndi því biðja danska lækninn að skila inn umsókn. Einnig myndir ég leggja fram til SÍ staðfestingu á því að íslenskur geðlæknir geti ekki tekið á móti þér fyrr en einhverntíma í fjarlægri framtíð, ásamt staðfestingu á því að þú sért á hinum langa biðlista ADHD teymisins. Miðað við reynslu mína af íslenskri stjórnsýslu yrði ég samt ekki hissa þótt Sjúkratryggingar Íslands myndu hafna beiðni um lyfjaskírteini og það gæti tekið óratíma að fá rétt þinn viðurkenndan.

Kvörtun til umboðsmanns Alþingis

Í þínum sporum myndi ég panta tíma hjá íslenskum geðlækni en einnig óska eftir því að danski sérfræðingurinn legði fram ósk um lyfjaskírteini fyrir þig ef þú sért fram á margra mánaða bið. Verði beiðninni synjað og þá enn langt í að þú komist að hjá íslenskum lækni og/eða ADHD teyminu, geturðu óskað álits umboðsmanns Alþingis á því hvort það samræmist lögum að synja sjúklingum um nauðsynleg lyf á þeim forsendum sem Sjúkratryggingar Íslands leggja til grundvallar. Ég tel þó ekki vænlegt til árangurs að leita til umboðsmanns nema sannreyna fyrst hvort umsókn geðlæknis um lyfjaskírteini dugar.

Mynd: © Adrian825 | Dreamstime.com