Þann 30. október 2019 vann leikarinn Atli Rafn Sigurðarson mál gegn Borgarleikhúsinu og Kristínu Eysteinsdóttur fyrrverandi leikhússtjóra fyrir héraðsdómi Reykjavíkur. Tildrög þess máls eru flestum kunn; stjórn Borgarleikhússins sagði Atla Rafni fyrirvaralaust upp störfum á grundvelli leynilegra ásakana um kynferðislega áreitni. Niðurstaða dómsins var sú að Kristínu Eysteinsdóttur hefði mátt vera ljóst að uppsögnin og það hvernig staðið var að henni myndi skaða mannorð Atla Rafns. Borgarleikhúsið áfrýjaði málinu til Landsréttar og það bíður nú úrlausnar.
Kórónufaraldurinn hefur bitað illa á afkomu fyrirtækja sem halda uppi menningar- og listalífi í landinu. Sem kunnugt er neyddist Borgarleikhúsið til að aflýsa öllum leiksýningum vorsins og fjárhagsstaða fyrirtækisins er ekki sterkari en svo að fyrirsvarsmenn þess telja sig knúna til að „fella starfsfólk af launaskrá“. Því vaknar sú spurning hvort fjárhagsáföll í kjölfar kórónufaraldursins kalli á endurskoðun ákvörðunar um kostnaðarsaman málarekstur, í máli þar sem héraðsdómur dæmdi gagnaðila í vil.
Fyrrverandi maki Atla Rafns í undarlegri stöðu
Síðan málinu var áfrýjað er aukinheldur komin upp sú vandræðalega staða að í febrúar sl. var Brynhildur Guðjónsdóttir ráðin leikhússtjóri Borgarleikhússins. Brynhildur er fyrrverandi eiginkona Atla Rafns og eiga þau saman barn. Ef stjórn Leikfélags Reykjavíkur fellur ekki frá áfrýjun stendur Brynhildur þessvegna frammi fyrir því að fara með fyrirsvar Leikfélags Reykjavíkur í dómsmáli gegn barnsföður sínum.
Þótt rekstur Borgarleikhússins sé að verulegu leyti fjámagnaður með almanna fé er Borgarleikhúsið ekki stjórnvald í skilningi laga. Það má í sjálfu sér telja undarlegt fyrirkomulag að fyrirtæki sem eru háð hinu opinbera um afkomu skuli ekki þurfa að lúta samskonar aga og opinberar stofnanir en af einhverjum dularfullum ástæðum hefur löggjafinn ákveðið að fara þessa leið. Ef hugmyndin er sú að ekki megi skerða frelsi atvinnurekenda til að traðka á starfsmönnum þá hefur alveg gleymst að gera ráð fyrir þvi að slíkt frelsi getur einnig komið vinnuveitendum í óþægilega klípu.
Hér er einmitt uppi slík staða. Ef Borgarleikhúsið lyti stjórnsýslulögum væri Brynhildur augljóslega vanhæf til að koma að ákvörðunum varðandi mál Atla Rafns. Um leið væri hún laus undan þeirri kvöð að þurfa að koma að ákvörðun um það hvort áfýjun til Landsréttar verður haldið til streitu.
Engum dylst að Brynhildur Guðjónsdóttir er í einstaklega óþægilegri stöðu; annarsvegar myndi það kalla á gagnrýni ef fallið yrði frá málsókn gegn fyrrverandi maka leikhússtjórans en á hinn bóginn er ámælisvert að stofna til kostnaðar við skíttapað dómsmál á sama tíma og starfsfólki er synjað um laun í uppsagnarfresti.
Ef til vill væri það skynsamlegasta sem stjórn Leikfélags Reykjavíkur gæti gert í stöðunni að afla sér lögfræðiálits utanaðkomandi lögmanns á því hvort líkur séu á því að niðurstöðu héraðsdóms verði snúið við í Landsrétti.