Þeir sem þurfa að leita sér lögfræðiþjónustu gera sér oft litla grein fyrir því hvað það getur tekið lögfræðinginn marga klukkutíma að skoða gögnin og átta sig á atburðarásinni og því hvað raunverulega liggur fyrir af sönnunargögnum í málinu. Ef kemur til málaferla bætist svo við ýmis aukakostnaður. Umbjóðandinn getur þó haft áhrif á það hversu mikla vinnu málið útheimtir. Hér eru nokkur atriði sem vert er að hafa í huga áður en leitað er til lögmanns.:

  1. Vertu undir það búinn að rekja atburðarás í stuttu máli.
    • Greindu aðalatriði frá aukaatriðum, segðu skipulega frá og forðastu að festa þig í aukaatriðum. Þannig sparast tími og minni hætta er á að lögmaðurinn þurfi að spyrja út í það sama hvað eftir annað.
    • Ef þú átt auðvelt með að skrifa getur verið gott að skrifa stutta málavaxtalýsingu. Ekki langloku með allskyns útúrdúrum heldur frekar punktalista.
  2. Vertu með það á hreinu um hvað ágreiningurinn snýst í þessu tiltekna máli.
    • Ekki eyða tímanum í að segja lögmanninum frá öllum afglöpum vinnuveitandans ef málið snýst um eitt slys á vinnustað vegna ófullnægjandi frágangs á handriði. Lögmaðurinn hefur kannski áhuga því hvernig yfirmaðurinn kom fram við annan starfsmann sem bað um frí vegna andláts í fjölskyldunni en þær upplýsingar nýtast honum sennilega illa.
  3. Reyndu gera þér grein fyrir því hverskonar niðurstöður þú vilt sjá.
    • Vitanlega á lögmaðurinn að kynna þér möguleika í stöðunni og kannski eru til möguleikar sem þú veist ekki af. Það getur samt skipt máli hvort þú telur grundvöll fyrir því að reyna sættir og hvar þín sársaukamörk liggja.
  4. Vertu með nöfn, kennitölur, heimilsföng, tíma og vettvang atburða á hreinu ef það er mögulegt
    • Ef lögmaðurinn þarf að leggjast í rannsóknir til að leita uppi lækni sem heitir annaðhvort Jóhannes eða Jóhann eða kannski Jónas, finna út hvenær viðgerðin á þakinu fór fram eða leita að Facebookhópnum þar sem ærumeiðandi ummæli voru birt, þá getur reikningurinn hækkað töluvert.
  5. Hafðu gott skipulag á gögnum sem þú afhendir.
    • Ekki rétta lögmanninum þrjár möppur af gögnum í belg og biðu og láta hann um að raða þeim.
  6. Tímasetingar skipta mjög miklu máli
    • Það getur t.d. skipt öllu máli hvort skuldin sem þú vilt láta innheimta var fyrst gjaldkræf fyrir þrem árum eða fimm árum. Ef hætta er á að krafan hafi fallið niður fyrir fyrningu eða tómlæti er best að lögmaðurinn fái þær upplýsingar strax. Ef þú setur tímasetningar helstu atburða niður á blað getur það sparað lögmanninum töluverðan tíma.
  7. Lögmenn vinna fyrst og fremst með staðreyndir, gögn og vitnisburði. Skoðun lögmannsins og samúð með þínum málstað hefur takmarkaða þýðingu.
    • Það skiptir engu máli þótt lögmaðurinn trúi hverju einasta orði sem þú segir ef þú leggur ekki fram neitt sem rennir stoðum undir frásögn þína.
    • Ef eru til vitni taktu þá saman nöfn og kontaktupplýsingar.
    • Ef eru til sönnunargögn, t.d. reikningar, tölvupóstar eða skjáskot af samskiptum sem varpa ljósi á málið, taktu gögnin þá saman og raðaðu í tímaröð. Veldu úr það sem skiptir máli.
  8. Hugsaðu rækilega út í það áður en þú ræðir við lögmanninn og sendir honum gögn hvort þær upplýsingar varpi ljósi á máiið.
    • Varða upplýsingarnar þetta mál eða eru þær aðeins laustengdar því?
    • Snúast upplýsingarnar um fólk sem ber einhverja ábyrgð eða getur borið vitni eða gefið nánari upplýsingar?
  9. Lögmaður kemur ekki í stað sálfræðings.
    • Lögfræðingurinn þinn þarf að vita hvaða áhrif málið hefur á þig og þína en hann er ekki meðferðaraðili. Gefðu upplýsingar um ástand þitt en ekki láta lögmann rukka þig fyrir viðtal sem þú hefðir frekar átt að eiga við lækni, sálfræðing eða félagsráðgjafa.
  10. Lögfræðingurinn er þér vinveittur en hann er ekki ástvinur þinn eða félagi.
    • Ef þú hringir í lögmanninn í tíma og ótíma til að segja honum einhver smáatriði mun hann ekki henda frá sér öllu öðru til að vinna í málinu þínu. Hann rukkar fyrir símtalið og svo geta liðið dagar eða vikur þar til hann snýr sér að því aftur. Þegar hann tekur saman minnispunkta úr 15 3ja mínútna símtölum er hann búinn að gleyma samhenginu eða rugla því saman við svipuð mál. Hann endar með því að þurfa að spyrja þig betur út í þetta allt.
    • Punktaðu frekar hjá þér minnisatriði og afgreiddu marga punkta í einu símtali eða tölvupósti.
  11. Ekki ljúga að lögmanninum eða halda frá honum upplýsingum.
    • Hlutverk lögmanns er ekki að dæma þig heldur að gæta hagsmuna þinna. Þú getur ekki metið hvort upplýsingar sem sýna þig í neikvæðu ljósi hafa þýðingu, þú verður að treysta lögmanninum til þess, hann er bundinn þagnarskyldu.
    • Ef koma fram upplýsingar sem skipta máli eftir að lögmaður er búinn að leggja vinnu í málið getur verið að mikil vinna sé farin til spillis og þú situr uppi með kostnaðinn.
    • Ef þér finnst þú ekki geta komið hreint fram við lögmanninn þinn þá ertu hjá röngum lögmanni. Þú mátt leita annað.

Dæmi um upplýsingagjöf sem heldur kostnaði í lágmarki:

  1. Við keyptum íbúðina vorið 2017. Í nóvember tókum við eftir leka á baðinu. Við létum seljandann vita af því í janúar 2018 að það hefði lekið í hvert sinn sem rigndi, hér eru tövupóstsamskiptin.
  2. Seljandinn segist ekki bera ábyrgð á tjóninu heldur sé það verktaki sem gerði við þakið nokkrum árum áður.
  3. Við viljum faglegt álit á því hvort þetta telst bótaskyldur galli og hver ber ábyrgð á honum. Við viljum fá tjónið bætt.
  4. Hér er kaupsamningur þar sem fram koma upplýsingar um seljandann.
  5. Þakviðgerðin fór fram sumarið 2015. Á þessu blaði eru allar upplýsingar um verktakann sem gerði við þakið.
  6. Hér eru myndir af lekanum.
  7. Við fengum ekki réttar upplýsingar. Hér er söluyfirlit þar sem hvorki er minnst á leka né þakviðgerð.
  8. Við óttumst að það sé mygla í húsinu. Sonur okkar er með astma svo það væri honum hættulegt. Eigum við að fá læknisvottorð?
  9. Tölvupóstur: Ég tók saman eftirfarandi upplýsingar um það sem gerst hefur síðustu vikuna. Ef þú þarft frekari skýringar láttu mig þá vita hvenær er best að hringja eða koma.
  10. Það er hálfvandræðalegt en rétt að þú vitir að við sendum seljandanum einu sinni frekar fýluleg textaskilaboð. Hér er skjáskot.

Dæmi um upplýsingagjöf sem getur aukið kostnað:

  1. Við keypum – ja ætli það hafi ekki verið ca 2017, held ég. Sko áður bjuggum við í Árbænum og þar … [löng saga, málinu óviðkomandi]. Svo flytjum við þarna inn um sumarið og fórum svo til Spánar … [löng og skemmtileg saga úr sumarfríinu]. Svo bara einhverntíma þarna eftir það þá tek ég eftir leka. Við töluðum við seljandann en hann var bara með dólg. Ég man nú ekki alveg hvenær það var sem ég hringdi.
  2. Þau eru að reyna að kenna einhverjum verktaka um. Ég sé nú ekki að það komi málinu neitt við þótt hafi verið gert við þakið. Svo var gert við tröppunar í fyrra … [löng saga af viðgerðum sem útilokað er að seljandi beri ábyrgð á].
  3. Við viljum bara réttlæti. Þetta snýst nú kannski minnst um peninga, Diddi bróðir getur kannski gert við þetta. Maður vill náttúrulega reyna að sættast en þau hafa ekki einu sinni beðist afsökunar. Ég veit ekki hvort er eitthvert vit í að reyna að sættast við svona fólk. Er ekki hægt að kæra þau til lögreglu? Ég vil bara að þau borgi upp í topp.
  4. Æ hann heitir Stefán, minnir mig. Hún er útlendingur, ég held tailensk. Nei, ég veit nú ekkert hvar þau búa. Ég þarf að finna kaupsamninginn, hann er líklega uppi á háalofti hjá pabba. Við þekkjum hinsvegar systur hans persónulega, hún heitir …[löng og áhugaverð frásögn af kynnum við fólk sem ekki á aðild að máli].
  5. Það var einhver viðgerð segja þau, fyrir nokkrum árum. Nei, ég vet ekkert hvaða verktaki það var eða hvað hann á að hafa gert.
  6. Lekinn er aðallega á baðinu. Þetta er rosalegt. Viltu ekki bara koma og skoða hann? Jújú, við getum alveg tekið myndir.
  7. Þessi maður er náttúrulega alveg snar. Hann kaupir þessa konu frá Tailandi, barnunga. Og fasteignasalinn sko, það vita nú allir að hann dró hann sér fé þegar hann var að vinna á Raufarhöfn sumarið 2003. Mágkona mín bjó þar og hún segir að það sé ekki að marka orð sem hann segir. T.d. í fyrra þá fór hann … [löng slúðursaga, málinu óviðkomandi]. Heyrðu ég er búinn að senda þér alla tölvupósta frá mágkonu minni, 26 bls. svo þú getur bara séð hvernig þessi fasteignasali er.
  8. Maður er bara farinn á taugum af því að standa í samskiptum við þetta fólk. Þau eru að senda okkur allskonar fáránleg sáttatilboð og ég triggerast í hvert sinn sem ég opna tölvupóstinn. Ég gekk í gegnum svo mikla erfiðleika þegar systir hans …. [löng og átakanleg frásögn af óviðkomandi atburðum og andlegum áföllum sem ekki tengist málinu].
  9. Sorrý að ég skuli hringja svona á laugardagskvöldi. Ég mundi bara allt í einu eftir því að þarna 2018, þá sendu þau sms þar sem þau neita öllu … Nú ertu með gesti? Heyrðu bjallaðu bara í mig þegar þú vaknar á morgun.
  10. Það er haugalygi hjá lögmanninum þeirra að við höfum verið með hótanir. Þér er óhætt að treysta því að við höfum aldrei sýnt annað en fullkomna kurteisi.

Hafðu svo líka í huga að þú átt rétt á upplýsingum frá lögmanninum um það hvernig hann nýtir tímann sem þú greiðir fyrir. Þú átt rétt á að fá vinnuskýrslur lögmanns afhentar og ef þú sérð eitthvað sem kemur á óvart er sjálfsagt og eðlilegt að óska skýringa á því.

Mynd: © Elnur | Dreamstime.com