Blóðfaðir minn er dauðvona en ég hef aldrei kynnst honum og er ekki viss um að fjölskylda hans viti af mér. Hann er giftur og á tvö börn með þeirri konu og konan hans átti tvö fyrir sem ólust að hluta upp hjá þeim. Ef hann deyr, er þá hægt að koma í veg fyrir að ég fái arf eftir hann og get ég krafist þess að búinu verði skipt strax? Hversu stór hluti af eignum hans kemur í minn hlut?

1 Hefurðu sönnun fyrir faðerninu?

Staða þín í þessu máli er undir því komin hvort þú hefur sönnun fyrir því að hann sé faðir þinn. Ef foreldrar þínir hafa verið í hjónabandi eða skráðri sambúð þegar þú fæddist, eða hann hefur gengist við þér eða faðerni verið ákvarðað með dómi, þá áttu erfðarétt eftir hann. Þeim rétti er ekki hægt að hagga þótt aðrir erfingjar viti ekki af þér en þú verður þá að hafa samband við fjölskylduna og gera tillkall til arfs sem allra fyrst eftir andlát föður þíns. Ef búið er tekið til opinberra skipta þarftu að hafa samband við skiptastjóra. Ef skiptum lýkur án þess að þú gefir þig fram þarftu að rukka hvern og einn erfingja og átt þá ekki á rétt á vöxtum. Það getur orðið erfitt og kostnaðarsamt.

Ef þú hefur ekki sönnun fyrir faðerninu þarftu að afla þér hennar. Ef faðir þinn gengst ekki við þér þarftu að fá faðernið staðfest með dómi til þess að erfðaréttur verði viðurkenndur. Best er að gera það sem fyrst því það er augljóslega meira vandamál að sanna faðerni eftir að búið er að grafa líkið.

Athugaðu að ættleiðing getur flækt málið. Ef annar maður hefur ættleitt þig eða gengist við þér og þú gerir tilkall til að fá rétt faðerni viðurkennt, máttu búast við að aðrir erfingjar þess sem skráður er faðir þinn véfengi erfðarétt þinn eftir hann.

2 Er hægt að krefjast skipta strax?

Þegar arfleifandi er í hjónabandi en á börn með öðrum en maka sínum er meginreglan sú að börn frá öðrum samböndum geta krafist skipta. Það er hægt að koma í veg fyrir það með erfðaskrá þar sem maka er veittur réttur til setu í óskiptu búi. Ef faðir þinn hefur gert erfðaskrá með slíku ákvæði geturðu ekki krafist búskipta fyrr en konan er látin eða ef hún gengur í hjónaband aftur.

3 Eiga stjúpbörnin erfðarétt?

Börn konunnar frá fyrra sambandi eiga ekki erfðarétt eftir föður þinn nema hann hafi ættleitt þau. Faðir þinn á samt rétt á því að ráðstafa þriðjungi eigna sinna með erfðaskrá og auðvitað hugsanlegt að hann hafi þannig gert ráð fyrir stjúpbörnum sínum.

Restin skiptist þannig að maki fær þriðjung eigna og tveir þriðju hlutar skiptast á milli þín og annarra barna föður þíns. Skuldir og útfararkostnaður greiðast af eignum búsins áður en skiptum lýkur.

Mynd: Gerd Atlman, Pixabay