Þann 30. maí sl. úrskurðaði Hæstiréttur málvísindamanninn Eirík Rögnvaldsson vanhæfan til þess að taka sæti sem meðdómsmaður í máli sem höfðað var til ógildingar á þeim úrskurði mannanafnanefndar að tiltekið nafn samræmdist ekki íslenskum lögum. Forsenda dómsins er sú að þar sem Eiríkur hafi tjáð sig um atriði sem ágreiningur í málinu lýtur að, megi draga óhlutdrægni hans í efa.

Og hver eru svo þessi ummæli? Lýsti Eiríkur skoðun sinni á því hvort þetta tiltekna nafn samræmdist lögum?  Nei, það gerði hann nú ekki. Meint vanhæfi hans í málinu stafar af því að í grein sem birtist á Hugrás sumarið 2016, fjallaði Eiríkur um drög Innanríkisráðherra að frumvarpi um lagabreytingar sem lúta m.a. að nafngjöf og skráningu nafna. (Nánar tiltekið fyrirhugaðar breytingar á lögum um þjóðskrá og almannaskráningu, nr. 54/1962.)  Í frumvarpsdrögunum kemur fram að ætlunin sé m.a. sú að aðlaga lög um nafngiftir að túlkun Mannréttindadómstóls Evrópu á friðhelgi einkalífs en dómstóllinn hefur fellt réttinn til nafns undir friðhelgisákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu.

Um grein Eiríks

Í greininni gerir Eiríkur athugasemdir við þessi frumvarpsdrög, telur margt til bóta en að annað þarfnast nánari skoðunar. Hann bendir m.a. á  eftirfarandi atriði;

  • að túlkun mannanafnanefndar á því hvaða nöfn geti tekið eignarfallsendingu sé umdeilanleg,
  • að þau viðmið sem nefndin hefur stuðst við skorti lagastoð,
  • ákveðins ósamræmis gæti í þeim kröfum sem gerðar eru til stafsetningar nafna,
  • sú krafa að stúlku sé gefið kvenmannsnafn en dreng karlmannsnafn stangist á við mannréttindasjónarmið þar sem ekki sé einhlítt að kynvitund fólks samræmist líffræðilegu kyni þess,
  • takmarkanir á rétti til þess að bera erlend nöfn og ættarnöfn samræmist ekki jafnræðissjónarmiðum
  • að krafan um að hver maður beri bæði eiginnafn og kenninafn sé órökstudd, þannig verði ekki séð að neitt sé því til fyrirstöðu að maður sé skráður undir t.d. listamannsnafni í þjóðská.

Fleiri atriði eru nefnd í greininni en það sem Hæstiréttur telur valda vanhæfi Eiríks í málinu er tvennt; að hann haldi því fram að þau viðmið sem mannanafnanefnd vinnur eftir skorti lagastoð og þau ummæli að núgildandi lög feli í sér mismunun og þar með mannréttindabrot.

Eru þá allir sem benda á meinbugi á lagafrumvörpum vanhæfir?

Það er athyglisverð niðurstaða hjá Hæstarétti að þessi ummæli geri Eirík vanhæfan til þess að hafa áhrif á niðurstöðu málins. Það er ekki persónuleg skoðun Eiríks Rögnvaldssonar að  núgildandi lög feli í sér mismunun, það er einfaldlega staðreynd sem er hverjum manni augljós. Það þarf heldur ekki langa yfirlegu til þess að sjá að sum þeirra viðmiða sem mannanafnanefnd vinnur eftir eru hvergi nefnd í lögum. Af dómnum má því draga þá ályktun að sá sem bendir á augljósar staðreyndir um löggjöf og úrskurðaframkvæmd sé þar með vanhæfur til setu í dómi í þeim málaflokki. Samkvæmt því er auðvitað fráleitt að sá sem stundað hefur lögmannsstörf sé hæfur dómari ef hann á annað borð hefur einhverntíma tekið afstöðu til þess í starfi sínu hvort lög samræmist stjórnarskrá eða mannréttindasamningum.

Hversu margir þeirra sem nú sitja í Hæstarétti ætli hafi aldrei í fyrri störfum sínum sem fræðimenn og lögmenn fjallað um það hvort sett lög standist stjórnarskrá og hvort þær reglur sem unnið er eftir samræmist lögum? Það er sannarlega áhugavert rannsóknarefni.

Opnumynd: Patrik Ontkovik