Get ég kært einhvern fyrir bankasöluna og hvern ætti þá að kæra, ríkisstjórnina, fjármálaráðhera eða bankasýsluna? Gæti þjóðin farið í hópmálsókn gegn ríkinu eða einhverjum öðrum vegna bankasölunnar? Ef ekki, er þá hægt að gera eitthvað annað til að draga menn til ábyrgðar?

☆☆☆

Er hægt að kæra bankasöluna til lögreglu?

Það er í sjálfu sér ekkert sem bannar þér að leggja fram kæru hjá lögreglu vegna þeirra brota sem þú telur að hafi verið framin með sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka og/eða því hvernig staðið var að sölu hlutafjár í bankanum. Líklegast er þó að kærunni yrði vísað frá enda hafa Ríkisendurskoðun og fjármálaeftirlit Seðlabankans þegar hafið rannsókn á máinu.

Þótt svo væri ekki, væri samt hæpið að lögreglan myndi sinna kærunni. Ekki þýðir að kæra ríkisstjórnina því það telst ekki refsivert að taka óvinsælar ákvarðanir. Fjármálaráðherra er ábyrgur fyrir eftirliti með bankasýslunni svo það þýðir ekkert að kæra bankasýsluna til lögreglu.

Það þýðir heldur ekkert fyrir almennan borgara að kæra ráðherra til lögreglu. Ráðherra er oftast jafnframt þingmaður og það á við um núverandi fjármálaráðherra. Það má ekki höfða sakamál gegn þingmanni nema meirihluti Alþingis samþykki það eða hann sé beinlínis staðinn að glæp. Það á ekki við hér því það að vera staðinn að glæp merkir í lögum að það þurfi að vera hafið yfir vafa að refsilagabrot hafi verið framið af ásetningi, í þessu tilviki leikur vafi á því hvað ráðherra vissi nákvæmlega og liggur ekki fyrir að hann hafi komið beint að málinu, svo þetta er ekki alveg eins og ef maður er gripinn á vettvangi innbrots með þýfi í fanginu.

Hvað með hópmálsókn þjóðarinnar?

Lögreglan rannsakar brot gegn refsilögum, þ.e. hegningarlögum og sérlögum svosem umferðarlögum, fíkniefnalögum o.fl. Þótt ekki sé um refsilagabrot að ræða og engin lögreglurannsókn hafi farið fram getur fólk oft leitað til dómstóla til að útkljá deilumál, t.d. vegna erfðamála, kröfu um slysabætur, ágreinings um túlkun samninga og vanefnda á þeim o.s.frv. Ef samningur reynist ólölegur eða honum hefur verið náð fram með ólöglegum hætti er hægt að fá honum rift fyrir dómi. Annar möguleiki til að sækja rétt þinn, gagnvart þeim sem hefur valdið þér tjóni, er að stefna honum til greiðslu skaðabóta.

„Þjóðin“ getur ekki komið fram sem ein persóna. Ríkið getur sótt mál fyrir hönd þjóðarinnar en ríkið getur ekki stefnt sjálfu sér. Það yrðu að vera tilteknir aðilar; manneskjur eða lögpersónur, sem stæðu að hópmálsókn. Ef þú ætlar að ná fram réttlæti fyrir dómi þarftu að sýna fram á að þú hafir lögvarinna hagsmuna að gæta. Það þýðir að niðurstaða dóms þyrfti að breyta einhverju um hagi þína. Til þess að fá samningum um sölu á bréfum í Íslandsbanka rift þyrftir þú og þeir sem stæðu með þér að hópmálsókn að sýna fram á lögvarða hagsmuni. Það er ekki nóg að vísa til þess að bankasalan hafi verið ósiðleg og líkleg til að skaða hagsmuni þjóðarbúsins heldur yrði að sýna fram á að þeir sem standa að málsókninni hafi orðið fyrir ákveðnu tjóni sem má rekja beint til bankasölunnar. Ólíklegt er að það tækist.

Er þá ekkert hægt að gera?

Hinn almenni borgari getur satt að segja lítið gert annað en að nýta rétt sinn til að mótmæla og nota atkvæði sitt í alþingiskosningum til að koma áliti sínu til skila. Alþingi getur aftur á móti gripið til aðgerða ef ástæða þykir til. Ef rannsókn Ríkisendurskoðunar og Fjármálaeftirlitsins gefur vísbendingar um að ráðherra hafi brotið gegn lögum getur Alþingi skipað sérstaka rannsóknarnefnd til að skoða hans þátt í málinu. Komi í ljós að ráðherra hafi vanrækt starfsskyldur sínar og valdið með því tjóni, misbeitt valdi sínu eða stofnað velferð þjóðarinnar í hættu, getur Alþingi höfðað mál gegn honum. Sérstakur dómstóll, Landsdómur, dæmir mál sem varðar embættisrekstur ráðherra.

Mynd: © Timon Schneider | Dreamstime.com