Foreldrar mínir skildu fyrir mörgum árum. Pabbi á tvö börn með seinni konu sinni og hún á eitt barn frá fyrra sambandi. Ef hann deyr á undan henni hvernig fer þá um arf eftir hann? Getur seinni konan neitað að láta skipta búinu strax?

☆☆☆

Hér skiptir í fyrsta lagi máli hvort faðir og seinni kona hans eru gift, í öðru lagi hvort hann hefur gert erfðaskrá og í þriðja lagi hvort séreignir eru í búinu. Fólk á ekki erfðarétt eftir sambúðarmaka samkvæmt erfðalögum en það er hægt að tryggja sambúðarmaka arfshluta með erfðaskrá. Séreignir teljast ekki til hjúskapareignar og tilheyra ekki félagsbúinu (sameiginlegu búi hjónanna) nema sérákvæði sé sett um það í erfðaskrá.

Ef faðir þinn er kvæntur og deyr á undan eiginkonu sinni skiptist búið að þannig að hún heldur sínum hluta eins og við skilnað og hinn hlutinn verður dánarbú föður þíns og það kemur til skipta. Eftir langt hjónaband skiptist búið oft að jöfnu í tvo hluta en frá því geta verið undantekningar t.d. ef eignir hafa verið gerðar að séreign með kaupmála.

Konan erfir þriðjung dánarbús föður þíns en 2/3 skiptast jafnt milli þín og hinna barnanna hans. Stjúpbarn föður þíns (barn konunnar frá fyrra sambandi) á ekki erfðarétt eftir hann nema hann hafi ættleitt það eða ánafnað því arf með erfðaskrá. Arfleifanda er heimilt að ráðstafa þriðjungi eigna sinna með erfðaskrá og það er ekkert óalgengt að hjón sem eiga börn frá fyrri samböndum geri erfðaskrár til að tryggja að þau fái öll jafnan arf þótt annað hjóna eigi fleiri börn en hitt.

Ef konan vill sitja í óskiptu búi (sem þýðir að dánarbúinu verður ekki skipt fyrr en að henni látinni) getur þú hafnað því og krafist þess að búinu verði skipt strax. Þetta gildir þó ekki ef faðir þinn hefur gert erfðaskrá þar sem kveðið er á um heimild eiginkonunnar til setu í óskiptu búi. Ef slík heimili er fyrir hendi felllur þó erfðaréttur hennar eftir föður þinn brott og það verður því meira til skiptanna fyrir börn föður þíns þegar þar að kemur.

Ef faðir þinn verður langlífari erfir hann þriðjung dánarbús konunnar, sem gengur þá til þín og hálfsystkina þinna við andlát hans, ef dánarbúi konunnar er skipt strax. Ef hann situr í óskiptu búi fellur erfðaréttur hans brott. Systkini þín erfa þá allan hluta móður sinnar en hluti föður þíns skiptist á milli ykkar þriggja barnanna hans.

Mynd: © Vchalup | Dreamstime.com