Við erum nýflutt í leiguíbúð, höfum bara verið hér í 2 vikur. Við vissum ekki fyrr en eftir að við fluttum inn að hér er fullt af silfurskottum. Þegar ég kvartaði við leigusalann spurði hann hvort við hefðum ekki bara borið þetta með okkur og ráðlagði mér að hringja á meindýraeyði. Þetta eru allt of mörg kvikindi til þess að mögulegt sé að þau séu nýtilkomin. Á ég rétt á niðurfellingu á leigu í einhvern tíma og get ég krafist þess að leigusalinn borgi reikning meindýraeyðis?

☆☆☆

Samkvæmt húsaleigulögum á leiguhúsnæði að vera hreint við afhendingu. Þótt það komi ekki beint fram í lögunum verður að ætla að þetta ákvæði feli það í sér að húsnæði skuli vera laust við meindýr enda kveður reglugerð um hollustuhætti á um að ekki megi leigja út húsnæði þar sem heilsu manna er stefnt í hættu, t.d. vegna meindýra.

Silfurskottur eru ekki hættulegar heilsu manna en teljast til meindýra þar sem þær geta eyðilagt innanstokksmuni. Auk þess finnst mörgum þær ógeðslegar og almennt talið að ástæða sé til að uppræta þær úr íbúðarhúsnæði.

Afsláttur eða úrbætur?

Þar sem tiltölulega auðvelt er að losna við silfurskottur og húsnæði telst ekki óíbúðarhæft þótt silfurskottur hafi tekið sér þar bólfestu tel ég ólíklegt að kærunefnd húsamála eða dómstóll myndi fallast á að leigutaki eigi rétt á afslætti af leigu vegna þess. Aftur á móti kveður 16. gr. húsaleigulaga á um að ef húsnæði sé ekki í því ástandi sem leigusamningur greinir eða leigjandi hlaut að mega gera ráð fyrir, geti leigutaki krafist úrbóta. Leigjandinn þarf þá að gera leigusala skriflega grein fyrir aðfinnslum sínum og segja til um hverra úrbóta er krafist, innan mánaðar frá því að hann fékk húsnæðið afhent. Þú getur því farið fram á að leigusalinn láti eitra fyrir silfurskottu eða standi straum af kostnaði við það. Þú þarft ekkert að hafa þetta rosalega formlegt en sendu tölvupóst eða ábyrgðarpóst til að tryggja þér sönnun.

Hvað ef leigusalinn neitar að borga?

Ef leigusalinn fellst ekki á að borga fyrir meindýraeyðingu geturðu leitað til kærunefndar húsamála. Það tekur tíma svo þú vilt væntanlega láta eitra áður en niðurstaðan kemur. Það er ólíklegt að leigusalanum dugi að halda því fram að þið hafið borið pöddurnar með ykkur. Þú skalt þá tryggja þér sönnun fyrir því að silfurskottur hafi verið í íbúðinni, t.d. með staðfestingu meindýraeyðis. Það sem þú skalt EKKI gera er að kalla til meindýraeyði án samráðs við leigusalann. Ef þú getur honum ekki færi á útbótum geturðu fyrirgert þér rétti þínum.

Hvað varðar hugmynd leigusalans um að skotturnar hafi komið með ykkur, þá er ólíklegt að fólk beri með sér mjög mörg kvikindi og þau ná ekki að fjölga sér að ráði á aðeins tveim vikum. Ef hann gæti sýnt fram á að þið hefðuð borið meindýr í húsið kynni ábyrgð að falla á ykkur því skv. 30. gr. húsaleigulaga er „leigjanda skylt að ganga vel og snyrtilega um hið leigða húsnæði og gæta settra reglna og góðra venja um hreinlæti, hollustuhætti og heilbrigði.“ Sönnunarbyrðin um það hvílir þó á leigusalanum ef marka má úrskurði kærunefndar húsamála. Í þeim málum sem hafa farið fyrir kærunefndina hefur leigusali verið látinn bera hallann af vafamálum um það hvernig meindýr bárust í húsnæðið.

Mynd: 211791041 © Swee Ming Young | Dreamstime.com