Einar „Boom“ Marteinsson krefst skaðabóta vegna ólögmæts gæsluvarðhalds. Það myndi ég líka gera í hans sporum. Maðurinn sat í fangelsi í fimm mánuði, þar af tvo í einangrun enda þótt ekkert hefði komið fram sem bendlaði hann við líkamsárás sem í fjölmiðlum var kölluð „vítisenglamálið“ (þótt þar hefði enginn vítisengill komið nærri.)

Við lestur dómsins vakna margar spurningar sem bæði lögreglan og dómarar hefðu átt að spyrja en var stungið undir stól. Rannsakendum virðist hafa verið í mun að koma sök á Einar, og þótt eflaust álíti einhverjir að það væri æskileg misnotkun á réttarkerfinu, er óvíst að hinir sömu verði löggunni alltaf sammála um það hver skuli flokkast sem úrhrak.


Krafa Einars er byggð á sjúkdómsgreiningu

Sumum finnst það fullmikil frekja að fara fram á sjötíu og fjórar milljónir í bætur. Höfum samt hugfast að krafan er að hluta byggð á því að Einar beri mikinn skaða af þessari  ólögmætu frelsisviptingu með tilheyrandi ofbeldi og niðurlægingu. Hann er greindur með áfallastreituröskun (PTSD), alvarlegan geðsjúkdóm, sem einkennist af miklum, andlegum þjáningum, er í sumum tilvikum ólæknanlegur og getur leitt til varanlegrar örorku. Sjötíu og fjórar milljónir eru ekkert ósanngjörn krafa fyrir ónýta geðheilsu. Hvort PTSD greining er sönnun þess að meint geðveiki sé alfarið afleiðing mannréttindabrotsins er svo aftur umdeilanlegt.

Ég hef gagnrýnt þá stefnu að nota vottorð um áfallastreituröskun sem sönnunargagn í sakamálum. PTSD greining var ekki hönnuð í þeim tilgangi að sanna afbrot eða meta vitnisburði, heldur til þess að lýsa skaða af alvarlegum áföllum. PTSD greining sannar í mesta lagi sjálfa sig og rannsóknir sýna auk þess að mat greinenda er langt frá því að vera öruggt. Að vísu eru til próf sem eiga að greina á milli raunverulegra einkenna og ýktra en það er (sem betur fer) ekki hlutverk þeirra sem annast fórnarlömb ofbeldis að draga trúverðugleika skjólstæðinga sinna í efa. Það liggur því í hlutarins eðli að mat meðferðaraðila er hlutdrægt og því vafasamt sönnunargagn.


Notkun PTSD greiningar í dómsmálum

Í dómskerfinu hefur PTSD greining fyrst og fremst verið notuð í kynferðsbrotamálum. Brotaþoli greinist með áfallastreituröskun og sækjandi leggur greininguna fram sem sönnunargagn um að glæpur hafi verið framinn. Gagnrýni á þessi vinnubrögð er venjulega afgreidd sem hatursfull árás á brotaþola, en ekki sem áhyggjur af því að þau bjóði heim hættunni á dómsmorði. Á sama hátt hlýtur það að skoðast sem árás á Vítisengla þegar ég efast um að það mat læknis, að Einar Marteinsson sé haldinn áfallastreituröskun, eigi erindi fyrir dóm.

Ég held þó fast við þá skoðun að PTSD greining ætti ekki að fá mikið vægi í dómsmálum, ekki heldur þessu. Ég efast ekkert um að Einar hafi þjáðst vegna þessa máls en það er í ekki sönnun þess að yfirvaldið hafi farið offari gegn honum. Sennilega gætu hin dómfelldu í meintu „vítisenglamáli“ auðveldlega fengið vottorð upp á geðröskun ef þau bæru sig eftir því.

Viðvörun Brynjars Níelssonar

Árið 2010 varaði Brynjar Níelsson við því að notkun PTSD greiningar, sem sönnunargagns um kynferðisbrot, byði heim hættunni á því að samskonar greining yrði notuð sem sönnun þess að sakborningur væri borinn röngum sökum.  Þar með yrðu réttarhöld einn allsherjar sirkus sem á endanum færi að snúast um starfsheiður geðlækna en ekki glæpinn. Þetta hefur enn ekki gerst en nú er komið upp mál þar sem PTSD greining er ekki notuð í þeim tilgangi að sanna kynferðisbrot, heldur til að fá viðurkenningu á glæp yfirvalds gagnvart almennum borgara. Borgara sem fáum finnst sympatískur. Það er því síður en svo fráleit hugmynd að nota megi sjúkdómsgreiningar í víðari tilgangi, t.d. til þess að fá seka menn sýknaða.


Reynsla annarra þjóða

Þegar spádómur Brynjars rætist skulum vona að það hafi ekki verri afleiðingar en þær að réttarhöld snúist upp í skrípaleik. Í Bandaríkjunum og Kanada hefur misnotkun PTSD greiningar nefnilega leitt af sér harmleiki, fremur en sirkus. Kannski má líta fram hjá því að hermenn, sem hafa tekið þátt í ofbeldi, kúgun og manndrápum, hafa notað PTSD greiningu til að herja út bætur. Þeir sem telja framburð meintra brotaþola í kynferðisbrotamálum heilagan munu áreiðanlega loka augunum fyrir hættunni á að menn séu sakfelldir á grundvelli slíkrar greiningar. En kannski fer dálítið um hina sömu þegar þeir átta sig á því að PTSD greiningar eru einnig notaðar til þess að fá stórhættulega glæpamenn sýknaða eða dóma yfir þeim mildaða. Áfallastreituröskun er geðsjúkdómur. Morðinginn/nauðgarinn var því ekki ábyrgur gjörða sinna; það getur læknirinn hans sannað með „greiningu“. Einnig eru dæmi um að PTSD greining í amerískum sakamálum sé annaðhvort vítavert fúsk eða meðvituð misnotkun á sjúkdómsgreiningu.

Við getum kannski lokað augunum fyrir því sem gerist í henni stóru, ljótu Ameríku en lítum okkur nær. Í þessari grein reifar læknir misnotkun sjúkdómsgreininga í sænska dómskerfinu. Meðal þess sem hann gagnrýnir harðlega er meðferð PTSD greininga sem hann telur beina afleiðingu af uppgangi feminiskra gervivísinda. Þetta er rosalega andfeminisk grein, ég mæli með henni (ath að hún er í 3 hlutum).


Þarf virkilega geðveiki til að ná fram rétti gagnvart yfirvaldinu?

Ég vona að Einar Marteinsson fái háar skaðabætur. Ekki af því að ég sé sérlegur Vítisenglavinur, heldur vegna þess að það er fullkomlega óþolandi að menn séu fangelsaðir á grundvelli orðróms, orðspors, vináttu- eða ættartengsla, fyrri afbrota, mótorhjólaeignar eða geðþóttamats lögreglu á því hversu líklegir þeir séu til afbrota.

Vegna þess að mannréttindi voru ekki fundin upp fyrir kórdrengi, heldur alla, líka Grettisgötugengið og Vítisengla.
Vegna þess að Einar á ekki að þurfa neina geðveikisgreiningu til þess að fá rétt sinn viðurkenndan.
Vegna þess að ef ég lendi í hans sporum vil ég fá leiðréttingu minna mála án þess að gerast veik á geði.

Samt myndi ég áreiðanlega hugsa „whatever works“ í sporum Einars og tefla fram öllum sjúkdómum í bókinni. Það hefur nefnilega reynst almennum borgurum fjári erfitt að ná fram rétti sínum gagnvart yfirvaldinu. Ég tala nú ekki um þá sem helst eiga það á hættu að verða fyrir mannréttindabrotum. Og það eru sko ekki neinir kórdrengir, sóttir inn í fermingarveislu.