Amma mín á sumarbústað og hún girti lóðina fljótlega eftir að hún keypti bústaðinn, fyrir meira en 30 árum. Nú er fólkið í næsta bústað búið að taka niður girðinguna niður, án þess að ræða við hana. Hafa þau einhvern rétt á því? Mátti amma ekki girða á sínum tíma?

☆☆☆

Það gilda ákveðnar reglur um það hvar og hvernig má girða. Þú ættir að geta fengið upplýsingar um þetta hjá skipulagssviði sveitarfélagsins. Ef þú færð ekki nógu góð svör geturðu skoðað deiliskipulagið, 23. gr. náttúruverndarlaga nr. 44/1999 og girðingarlög nr. 135/2001, einnig gæti verið vert að skoða reglugerð um girðingar.

Það er afar hæpið að nágranninn megi fjarlægja girðingu án þess einu sinni að tilkynna um þau áform og forsendur þeirra. Umráðamönnum lands ber skylda til að viðhalda girðingum eða fjarlægja þær ef þær eru ónýtar. Það getur því verið að nágranninn hafi rétt til að fjarlægja girðingu t.d. ef hún er ónýt og hættuleg búfénaði eða fólki. Það gæti verið réttlætanlegt að fjarlægja girðingu sem bráð hætta stafar af en venjulega þarf að gefa landeiganda eða lóðarleiguhafa tækifæri til að bæta úr áður en vaðið er í framkvæmdir.

Það er ómögulegt að meta þetta án nánari upplýsinga því ýmislegt getur hér haft þýðingu, t.d. það hvort landið er í sameign eða á skipulögðu frístundahúsasvæði, hvort eru ákvæði um girðingar í lóðarleigusamningi og hvort þetta snýst um landamerkjadeilu, skiptingu hlunninda, ítaksrétt eða vanrækslu á viðhaldi. Hér vaknar einnig spurning um það hvað hafi orðið um girðingarefnið. Var því skilað eða látið hverfa? Líklegast er þó að þarna hafi nágrannar farið offari.

Amma þín ætti að spyrja nágrannann hversvegna hann telur sig hafa rétt til að gera þetta. Ef hún fær ekki fullnægjandi svar myndi ég í hennar sporum leita til lögmanns. Það er alveg mögulegt að hún eigi bótarétt.

Mynd © Vaclav Volrab | Dreamstime.com