Ég er með langtímaleigusamning og kann vel við leigusalann, sem býr á efri hæðinni, en nú vill hann selja allt húsið. Hann er með kaupendur í sigtinu sem myndu þá taka við samningnum og flytja á efri hæðina. Ég kannast lítillega við það fólk og líst ekkert á að fá þau sem nágranna, hvað þá að eiga eitthvað undir þeim. Get ég haft eitthvað um þetta að segja? Þarf ég bara að sætta mig við að vera allt í einu með samning við fólk sem ég hef aldrei samið við? Ef svo er, hver er þá réttur minn ef kaupendurnir vilja segja samningnum upp eða hækka verðið?

☆☆☆

Leigjandi getur ekki takmarkað rétt leigusala til að selja eign sína, þannig að ef ekki hvílir kvöð um forkaupsrétt leigjanda á íbúðinni þá hefur þú ekkert um þá sölu að segja. Fasteignareigandi má líka framselja rétt sinn og skyldu gagnvart leigjanda.

Þar sem kaupandinn tekur við öllum rétti og skyldum samkvæmt samningnum á þetta ekki að breyta neinu um þína réttarstöðu. Það er að sjálfsögðu ákveðið hagsmunamál að hafa þægilega nágranna en jafnvel þótt það hafi verið forsenda þín fyrir leigusamningi getur forsendubrestur ekki haft þau áhrif að þú getir hindrað leigusalann í því að selja íbúðina. Eini rétturinn sem þú gætir byggt á því væri réttur til að rifta samningi.

Þú hefur rétt til þess að halda leigusamningnum. Kaupendurnir geta ekki sagt honum upp nema með sömu skilmálum og núverandi eigandi. Þeir geta vitanlega sagt upp leigunni ef þú vanefnir samninginn, rétt eins og gildir um núverandi leigusala. Rétt er að taka fram að þetta á reyndar ekki við ef leigusalinn missir íbúðina vegna nauðungarsölu eða gjaldþrots. Í því tilviki er hægt að segja samningi upp með „sanngjörnum fyrirvara“ sem getur verið teygjanlegur eftir aðstæðum. Nýir eigendur mega heldur ekki breyta skilmálum. Þetta fyrirkomulag á í raun engu að breyta fyrir þig sem hefði ekki hvort sem er breyst ef leigusalinn hefði eingöngu selt efri hæðina eða leigt hana út.

Þú átt einnig rétt á því að leigusali tilkynni þér um söluna eins fljótt og hægt er og í síðasta lagi þegar mánuður er liðinn frá undirritun kaupsamnings.

Mynd: 150975246 / Contract © Poramate Cheewapat | Dreamstime.com