Mig langar að fara með barnabarnið mitt í ferð til útlanda um páskana. Foreldrar hafa sameiginlega forsjá en pabbinn neitar að skrifa undir leyfi. Vandamálið er ekki það að hann hafi neinar áhyggjur af barninu hjá mér enda hefur hann margsinnis beðið mig að passa. Hann lætur svona af því að ég blokkaði hann netinu af því að hann hefur verið að áreita dóttur mína og senda mér ljót skilaboð um hana. Er nóg fyrir mig að hafa leyfi frá móðurinni? Ég er ekki íslenskur ríkisborgari en hef búið á Íslandi í fjögur ár. Þarf ég að fá mér lögmann út af 10 daga fríi?

☆☆☆

Er nóg að fá leyfi hjá öðru foreldri?

Þegar forsjá er sameiginleg getur starfsfólk flugvalla krafist þess að þú sýnir leyfi frá báðum foreldrum ef þú ferðast með barn án forsjárforeldra. Það er ekkert víst að það gerist en þú skalt vera því viðbúin. Þú ættir samt að geta leyst þetta án lögmannsaðstoðar.

Til að fara með barn úr landi án forsjárforeldra þarftu samþykki þeirra. Ekki er nóg að fá samþykki annars þeirra ef forsjá er sameiginleg. Ef dóttir þín fer ekki með í ferðina þarf hún að fylla út og undirrita þetta eyðublað sem þú framvísar svo á flugvellinum. Þú þarf líka að vera með samskonar leyfi frá föður.

Ef faðirinn hefur ekki betri ástæður en þær sem þú lýsir og fæst ekki til samstarfs getur móðirin farið fram á úrskurð sýslumanns um leyfi til að fara með barnið úr landi. Hún þarf að leggja fram forsjárvottorð sem hún getur nálgast hér. Svo þarf hún að fylla út beiðni um úrskurð. Biddu hana að senda með umsókninni gögn sem sýna hver raunveruleg ástæða föðurins er, t.d. getur hún sent skjáskot af skilaboðum.

Skiptir máli hvort sá sem barnið fer með til útlanda er af erlendu bergi?

Það gilda engar aðrar reglur um útlendinga og innflytjendur en um íslenska ríkisborgara en ef vaknar grunur um áform um brottnám barns getur skipt máli hvort þú átt bakland erlendis. Taktu það með í reikninginn, sérstaklega ef faðirinn er líklegur til að reyna beinlínis að hindra þig í að fara með barnið.

Biddu dóttur þína að taka fram í umsókninni að um sé að ræða stutt frí. Ef er búið að kaupa flugmiða ætti hún að senda þá með sem viðhengi til staðfestingar á því að þú ætlir þér að koma aftur. Ef þú hefur gögn sem benda til þess að þú eigir raunverulega heimilisfesti á Íslandi, láttu þau þá fylgja. Þetta getur t.d. verið staðfesting á því að þú sért í vinnu og eigir hér heimili, t.d. leigusamningur eða gögn um að þú eigir fasteign.

Mynd: © Famveldman | Dreamstime.com