Í leigusamningi er ákvæði um að ef ég greiði ekki á réttum degi þá jafngildi það riftun leigusamnings, er þetta löglegt? Leigusalinn vill líka fá 3ja mánaða fyrirframgreiðslu en samt bara gera leigusamning til 9 mánaða. Getur hann krafist þess?
☆☆☆
1 Fyrirframgreiðsla
Það er heimilt að krefjast þess að mánaðarleiga sé greidd fyrirfram og það er venja fremur en undantekning. Að öðru leyti má ekki krefjast fyrirframgreiðslu, það er því ekki löglegt að krefjast 3ja mánaða greiðslu, ekki heldur fyrir lengri tíma. Hann má hinsvegar krefjast tryggingarfjár vegna hugsanlegra skemmda eða vanefnda en hann verður þá að geyma það fé á sérreikningi með hæstu vöxtum sem eru í boði og má ekki ráðstafa þeim peningum nema staðfesting á bótaskyldu liggi fyrir.
Smellið hér til að skoða Facebooksíðu Hlítar
2 Áskilnaður um að greiðsludráttur jafngildi uppsögn
Hvað varðar það samningsatriði að dráttur á greiðslu jafngildi uppsögn þá er meginreglan sú að þegar um venjulegt íbúðarhúsnæði er að ræða má ekki semja um að leigjandi taki á sig meiri skyldur eða minni rétt en húsaleigulög kveða á um. Hér er leigusalinn í raun að fara fram á samning um að hann þurfi ekki að tilkynna riftun leigusamnings sjálfur heldur leggja alla ábyrgðina á leigjadann. Þótt leigjandi skrifi undir samning þess efnis, ættu dómstólar að virða að vettugi ákvæði um að hann falli frá skyldu leigusala til að tilkynna riftun sérstaklega. Ath. að þetta á við um venjulegt íbúðarhúsnæði en ekki atvinnuhúsnæði eða t.d. skammtímahúsnæði á borð við áfangaheimili.
Mynd: Congerdesign, Pixabay