Samstarfskona mín er erfið í samskiptum, passiv-aggressiv og afskiptasöm. Ég hef haldið henni í ákveðinni fjarlægð þess vegna. Nú er hún komin með skýringu á því. Ég á semsagt að vera að forðast hana af því ég nauðgaði henni í fyrra lífi! Þetta sagði hún þegar ég hitti hana á skemmtistað nýlega. Nú bíð ég bara eftir því að hún segi þetta á vinnustaðnum eða setji þetta á netið en hún er í nokkrum andlegum hópum. Ég lendi kannski ekki í #metoo ofsóknum út á þetta en ég vil bara losna við þessa manneskju út úr mínu lífi. Þarf ég að segja upp vinnunni til þess eða get ég látið reka hana eða farið í meiðyrðamál eða bara eitthvað?

☆☆☆

Ég skil vel að þú skulir ekki vilja sitja undir svona bulli en ég held nú reyndar að sagan sé líklegri til að gera konuna að athlægi en að kalla frekari leiðindi yfir þig. Varðandi viðbrögð þá er ekki augljóst að lög nái yfir hegðunarvandamál af þessum toga.

1 Dómstólaleiðin

Setjum sem svo að hún bjóði internetinu upp á þessa sögu. Til þess að vinna meiðyrðamál er ekki nóg að ásökun komi fram, sú ásökun þarf líka að vera þess eðlis, og sett fram á þann hátt, að ummælin teljist til þess fallin að vera virðingu þinni til hnekkis. Líkurnar á því að stór hluti fólks taki sögu um atburði fyrra lífs alvarlega eru að mínu viti það veikar að fáir dómarar myndu fella hana undir ærumeiðingaákvæði hegningarlaga.

Tjáningarfrelsið er sterkt, fólk má segja frá reynslu sinni, þ.e.a.s. raunverulegri reynslu en ekki upploginni. Almennt má fólk líka segja frá draumum, andlegri reynslu o.s.frv. að því gefnu að það fari ekki á milli mála hvort frásögnin á sér stoð í þeim veruleika sem flest okkar lifa í eða aðeins í ímyndunarafli sögumanns. Þetta getur þó verið á gráu svæði; ef þú skrifar bók þar sem nafngreindur maður er gerður að glæpamanni er ekki víst að það nægi að kalla hana skáldsögu, hún getur samt verið virðingu hans til hnekkis. Lögmæti framsetningarinnar veltur semsagt á því hvaða áhrif sagan er líkleg til að hafa á viðtakendur.

2 Viðbrögð á vinnustað

Ef samstarfskonan ber upp ásakanir í þessa veru á vinnustaðnum eða við samstarfsfólk, geturðu krafist þess að atvinnurekandinn hefji rannsókn á grundvelli reglugerðar um einelti og áreitni á vinnustað. Enginn á að þurfa að búa við það að verða fyrir áreitni af þessu tagi í vinnunni.

Þú getur reyndar alveg krafist þess þótt hún hafi enn ekki talað um þetta á vinnustaðnum, því hún tengir söguna beinlínis við samskipti ykkar í vinnunni. Dæmi eru um að vinnuveitendur hafi talið sér skylt að bregðast við áreitni sem á sér stað utan vinnustaðar og jafnvel gagnvart fólki sem ekki tengist vinnustaðnum. Í þeim tilvikum sem ég veit um á það reyndar við um kynferðislega hegðun en hver segir að agavald vinnuveitanda utan vinnustaðar taki aðeins til áreitni af kynferðislegum toga?

Það er auðvitað ekki víst að vinnuveitandinn fallist á að röfl á skemmtistað falli undir reglugerðina og með fullri virðingu fyrir þeim sem lenda í bullustertum þá tel ég að reglugerðin gefi atvinnurekendum ekki leyfi til að skipta sér af atvikum undan vinnustaðar. Með því að klaga þetta myndir þú samt gefa samstarfskonunni til kynna að þú ætlir ekki að taka þessu þegjandi, svo það gæti vel verið þess virði.

3 Þarf ekki endilega lög til að svara fyrir sig

Áður en þú segir upp vinnunni eða ferð í heilagt stríð með lög og reglugerðir að vopni, ættirðu kannski að íhuga möguleikann á því að gera bara grín að henni. Þú gætir líka vitnað í eigin fyrralífsreynslu og gefið þá skýringu á fálæti þínu að þú sért enn að jafna þig af áfallastreituröskuninni sem þú fékkst eftir að hún, sem eiginkona þín í fyrra lífi, kúkaði í rúmið.

Mynd: © Flynt | Dreamstime.com