Björn Ragnar Björnsson skrifar um hugtakið „þjóðareign“

Þegar imprað hefur verið á því gegnum tíðina að þjóðin eigi auðlindir landsins, a.m.k. þær sem ekki eru nú þegar í einkaeigu, hefur ætíð risið upp kór úrtölumanna sem finna hugmyndinni allt til foráttu.  Sumir segja: Þjóðin er ekki lögpersóna og getur því ekki átt nokkurn hlut, þ.a. vilji menn þjóðareign eru þeir að segja ríkiseign. Annað sjónarmið segir gott og vel sendum hlutabréf til allra íslendinga sem er þá staðfesting á eignarhaldi þeirra og þeir geta ráðstafað því að vild í eitt skipti fyrir öll.

Þessar mótbárur eru galnar, þær eru ekki rökfastar.  Þeim er beinlínis ætlað að gera hugmyndina um þjóðareign auðlinda tortryggilega, svo hægt sé að sópa henni út af borðinu.

Í mínum huga er íslenska þjóðin þeir sem búa í landinu á hverjum tíma og bundnir eru landinu (og þjóðinni, já ég veit vísun í hring) auk þeirra sem eiga hér rætur en hafa e.t.v. tímabundna heimilisfesti annars staðar í veröldinni.  Með öðrum orðum þá er þjóðin á morgun ekki endilega nákvæmlega sama fólkið og þjóðin í dag.  Þjóðin að liðnum 50 árum verður alveg örugglega ekki nákvæmlega sama fólkið og í dag.

Skilgreiningu á þjóð og þjóðareign sem tekur mið af ofangreindu tel ég æskilegt að festa í stjórnarskrá. Það þýðir þá að þjóðin í dag hefur ekki sterkara tilkall til auðlinda Íslands en þjóðin á morgun.  Af því leiðir að ef auðlind í eigu þjóðarinnar er endurnýjanleg, líkt og fiskiauðlindin, er þjóðinni í dag ekki heimilt að hirða allan afrakstur auðlindarinnar um ókomin ár eða alla framtíð.

Af skilgreiningu þjóðareignar á þessum nótum leiðir að nýting og fénýting endurnýjanlegrar auðlindar verður að vera gegn sanngjörnu endurgjaldi.  M.ö.o. þeir sem uppi eru í dag geta ekki gefið eða selt á undirverði Pétri og Páli auðlindir sem þjóð framtíðarinnar á með réttu. Sé um langtímaframsal að ræða þarf afraksturinn að nýtast í uppbyggingu sem gagnast framtíðinni ekki síður en nútíðinni, eða kemur til greiðslu í framtíðinni og til ráðstöfunar þá.

Af þjóðareignarskilgreiningu minni leiðir ennfremur að ekki er hægt að framselja varanlega endurnýjanlega auðlind.  Ekki má heldur eyða endurnýjanlegri auðlind, heldur leiðir af skilgreiningu að nýting verður að vera með sjálfbærum hætti sé þess kostur.

Ef um óendurnýjanlega auðlind er að ræða, þarf að bestu manna yfirsýn að ákvarða hvenær slíkar auðlindir eru nýttar og hve hratt.  Í þessu tilfelli þarf að safna í sjóð og nýta í rólegheitum t.d. til innviðauppbyggingar sem nýst getur á löngum tíma.  Ef við ættum olíupeninga gæti verið kominn góður tími til að bora í gegnum eitt og eitt fjall.

Þeir sem sjá ekkert nema tæknilega annmarka á hugsun manna um þjóðareign auðlinda hafa e.t.v. ekkert beitt hugviti í þá átt að leysa úr meintum tæknilegum vanda.

Fyrsta grein laganna um stjórnun fiskveiða hljóðar svo:

Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.

Ég skil „sameign íslensku þjóðarinnar“ á þann veg sem áður er lýst, en ekki á þann veg að ákvæðið sé merkingarlaust eins og lagakrókafræðingar halda fram.  Það er rétt að taka allan vafa af um þetta atriði með því að skilgreina „sameign“ eða „eign“ „íslensku þjóðarinnar“ í nýrri eða breyttri stjórnarskrá.

Mynd:© Mikhailg | Dreamstime.com

Pistillinn birtist áður á moggablogginu þann 24. nóvember 2010. Hann er birtur hér með góðfúslegu leyfi höfundar