Systur minni var nauðgað. Lögreglan rannsakaði málið eiginlega ekkert og spurði ekki einu sinni um sms sem skiptu augjóslega máli. Þeir felldu svo málið niður og ekkert hægt að gera. Þetta er alltaf að gerast, systir mín er ekkert ein. Við erum nokkrar að hugsa um að birta sönnunargögnin á netinu svo sjáist hvernig þeir vinna. Líka að einhverju leyti til að vara aðrar konur við þessum mönnum og afsanna það að konur séu að ljúga upp á saklausa menn. Er eitthvað í lögum sem bannar það eða getur komið okkur í vandræði?

☆☆☆

Æruverndarsjónarmið

Stutta svarið er já það gæti mögulega komið ykkur í vandræði. Það er ekki heimilt að birta rannsóknargögn lögreglu með persónugreinanlegum upplýsingum enda njóta sakborningar, eins og aðrir, réttar til verndar æru og einkalífs. Reyndar eiga einstaklingar ekki að hafa rannsóknargögn lögreglu undir höndum, ekki einu sinni brotaþolar. Það getur líka verið vafasamt að birta gögn sem maður hefur sjálfur undir höndum eins og t.d. einkasamtöl þar sem koma fram viðkvæmar upplýsingar, hvort sem þau hafa verið lögð fram sem gögn í sakamálarannsókn eða ekki. Og já, það gæti komið ykkur í vandræði því sakborningar gætu stefnt ykkur fyrir brot gegn friðhelgi einkalífs og krafist miskabóta. Bætur í slíkum málum eru aldrei háar en málskostnaður gæti orðið hár.

Persónuverndarlög taka fyrst og fremst til markvissrar söfnunar og vinnslu persónuupplýsinga en þar segir í 3. mgr. 12. gr.

Einkaaðilar mega ekki vinna með upplýsingar um refsiverða háttsemi nema hinn skráði hafi veitt til þess afdráttarlaust samþykki sitt eða vinnslan sé nauðsynleg í þágu lögmætra hagsmuna sem auðsjáanlega vega þyngra en grundvallarréttindi og frelsi hins skráða.

Athugið líka að tilgangurinn með því að veita brotaþola aðgang að rannsóknargögnum er sá að gera þolendum afbrota mögulegt að halda fram bótakröfu í málinu en ekki sá að gefa brotaþola færi á að sjá sjálfur um refsinguna þegar ríkisvaldið stendur sig ekki í stykkinu. Brotaþoli á ekki aðild að sakamálinu heldur aðeins bótakröfu og fær því venjulega ekki öll gögn afhent. Brotaþolar fá þó stundum að kynna sér gögn sem þykir ekki rétt að afhenda. Það er kannski vert að hafa í huga að ef brotaþolar fara í stórum stíl að birta gögn á óábyrgan hátt er hugsanlegt að fram komi krafa um að reglur um afhendingu gagna til brotaþola verði hertar. Sú leið sem brotaþolum stefndur til boða þegar lögreglan hættir rannsókn án fullnægjandi ástæðu er að leita til nefndar um eftirlit með lögreglu.

Það að rannsókn hafi verið felld niður er ekki yfirlýsing um að brotaþoli sé að ljúga upp sögu en niðurfelling rannsóknar eykur auðvitað líkurnar á því að brotaþoli verði fyrir slíkum ásökunum. Það getur verið réttlætanlegt að brotaþoli birti einhverjar upplýsingar úr rannsóknargögnum í því skyni að vernda sitt eigið mannorð, t.d. til að leiðrétta rangfærslur sem hafa komið fram opinberlega en þá þarf að vanda til verka.

Rétturinn til verndar gegn glæpum

Stærsta réttlætingin fyrir ríkisvaldi er það hlutverk ríkisins að vernda borgara sína, bæði gegn utanaðkomandi ógn og gegn öðrum borgurum. Við njótum mannhelgi sem felur það í sér að við eigum rétt á því að ríkið grípi til aðgerða ef einhver brýtur gegn rétti okkar til lífs, frelsis, öryggis og sæmdar. Skylda lögreglu til að rannsaka sakamál af vandvirkni þjónar þessum mikilvæga rétti. Oft telja brotaþolar sönnunargögn benda til þess að mál hafi verið fellt niður hjá lögreglu eða ákæruvaldi, þrátt fyrir upplýsingar sem mæla með saksókn. Ef það gerist ítrekað og kerfisbundið, þá er ríkið að brjóta gegn rétti borgaranna til verndar gegn glæpum og það er mjög alvarlegt.

Ef markmiðið með að birta sönnunargögn er að sýna fram á kerfisbundna galla á meðferð sakamála og/eða hlutdrægni lögreglu eða ákæruvalds, þá væri mögulega hægt að réttlæta birtingar á gögnum þar sem engar persónugreinanlegar upplýsingar koma fram. Það er ekki hægt að mæla með þeirri aðferð enda mikil hætta á að eitthvað fari úrskeiðis.

Nú hefur hópur íslenskra kvenna kært íslenska ríkið til Mannréttindadómstóls Evrópu vegna niðurfellinga kynferðisbrotamála. Þetta er seinleg leið en hún er mun líklegri til að skila árangri en að birta gögn í einstaka máli. Lögreglan þarf ekki að taka neitt mark á dómstóli götunnar en ef þau skilaboð koma frá Mannréttindadómstólnum að ríkið hafi brugðist skyldu sinni til að taka kynferðisbrot alvarlega, þá verður það skömm sem kallar á gagngera endurskoðun á verklagi í þessum málaflokki.