Ég og barnsmóðir mín eigum tvö börn saman. Við skildum fyrir tveim árum og erum með sameiginlega forsjá. Ég var með börnin aðra hverja helgi og allt eðlilegt þangað til hún kynntist nýjum manni. Þegar þau fóru að búa saman tilkynnti hún mér að nú væri komin ný fjölskylda og að börnin kæmu ekki framar til mín. Það hefur hún staðið við og nú hef ég ekki séð þau í fimm mánuði. Ég hef ekki efni á lögfræðingi en vil ekki fara með þetta í gegnum sýslumann því ég þekki engan sem hefur góða reynslu af því. Hvað get ég gert? Það þýðir ekkert að tala við hana.

☆☆☆

Ef barnsmóðir þín vill hvorki senda börnin til þín né tala við þig þá vill hún væntanlega ekki heldur fara í sáttameðferð hjá einkaaðila. Þegar staðan er þannig kemstu ekki hjá því að leita til sýslumanns. Það er einfaldlega lögbundið að til þess að hægt sé að krefjast umgengni fyrir dómi þarf að framvísa vottorði um að sáttameðferð hjá sýslumanni hafi farið fram.

Það fyrsta sem þarf að gera er að sækja um sýslumannsúrskurð. Það geturðu gert sjálfur. Það kostar ekkert og engin þörf á að fá lögfræðing til þess. Hér er eyðublað sem þú getur fyllt út á netinu. Þú setur skilnaðarsamninginn svo með sem viðhengi og sendir inn til sýslumanns með rafrænum skilríkjum eða prentar út, undirritar og kemur til hans.

Þegar þú ert búinn að þessu skaltu hafa samband við lögmann og fá ráðgjöf um næstu skref. Ég mæli eindregið með faglegri sáttameðferð þar sem markmiðið er ekki að hafa betur heldur að öllum líði betur. Hlít – lögmannsþjónusta hefur á að skipa óháðum sáttamiðlara sem þú getur leitað til. Ef sættir takast ekki þarftu að fara í dómsmál. Það er dýrt en ef þú ert með lágar tekjur áttu möguleika á gjafsókn.