Ég er einhleyp og á eina dóttur. Hún er mjög veik og ólíklegt er að hún nái háum aldri. Ef hún lifir mig en deyr á undan föður sínum, mun hann erfa hana, þ.e.a.s. allar mínar eignir. Ég myndi frekar vilja henda þeim í ruslið. Ég veit um dæmi þar sem var gerð erfðaskrá til að koma í veg fyrir að tengdabarn fengi arf. Get ég á sama hátt komið í veg fyrir barnsfaðir minn erfi dóttur okkar? Ég tek fram að ég vil ekki gera hana arflausa.

☆☆☆

Nei, þú getur ekki komið í veg fyrir að barnsfaðir þinn erfi dóttur sína nema með hennar atbeina. Dæmið sem þú nefnir um erfðaskrá er væntanlega byggt á 77. gr. hjúskaparlaga sem heimilar að gera arf að séreign með ákvæði í erfðaskrá. Það merkir ekki að tengdabarnið erfi ekki maka sinn heldur að tengdabarnið getur ekki ráðstafað því sem maki þess erfir á meðan þau eru bæði á lifi og að farið er með þá eign sem séreign við búskipti.

Þú gætir heldur ekki gert dóttur þína arflausa þótt þú vildir það, nema þá með krókaleiðum eins og að losa þig við allar eignir þínar áður en þú deyrð. Þér er frjálst að ráðstafa þriðjungi eigna þinna með erfðaskrá en 2/3 hlutar ganga til maka og barna, í þessu tilviki ganga að lágmarki 2/3 hlutar til dóttur þinnar og þú getur engu ráðið um það hver erfir hana.

Ef dóttir þín er sammála þér getur hún komið því í kring að arfur hennar eftir þig fari eitthvert annað en til föður síns. Vonandi fær hún betri hugmynd en að henda arfinum í ruslið. Dóttir þín getur sjálf gert erfðaskrá og ef hún á engin börn eða maka getur hún ráðstafað öllum sínum eigum. Faðir hennar er svokallaður lögerfingi, sem merkir að hann erfir hana ef engin erfðaskrá er gerð. Það er þannig hægt að gera foreldra sína arflausa en ekki börn sín eða maka.

Mynd: © Nanditha Rao