Geta unglingar fengið sér lögfræðing og kært foreldra sína? T.d. ráða börn sjálf yfir peningum sem þau vinna fyrir þótt þau séu að öðru leyti ófjárráða en það getur enginn útskýrt hvað maður á að gera ef foreldrarnir taka samt alla peninga af manni. Eru einhver lög um hvort sé munur á því hvað 6 ára og 16 ára krakkar mega gera við sína eigin peninga? Ef maður er ekki orðinn 18 ára þarf maður þá að borga fyrir lögfræðing?
☆☆☆
Gildir það sama um 6 ára og 16 ára?
Samkvæmt lögum verður fólk lögráða við 18 ára aldur. Fram að því telst unglingur barn í skilningi laga og strangt til tekið gilda sömu lög um 6 ára barn og 16 ára ungling. Það er samt ekki alveg svo einfalt því börn eiga líka rétt á því að tekið sé tillit til óska þeirra og þarfa í samræmi við aldur þeirra og þroska. Það getur þannig talist vanræksla eða ofbeldi gagnvart 16 ára unglingi að koma fram við hann eins og hann sé 6 ára. Það gæti líka talist vanræksla eða ofbeldi að leggja sömu ábyrgð á 6 barn og á ungling. Samkvæmt þessu er líka eðlilegt að unglingur njóti meira frelsis til að ráðstafa peningum sínum en smábarn.
Mega foreldrar taka peninga af unglingum?
Börn eiga að njóta verndar gegn ofbeldi, vanrækslu og vanvirðandi meðferð. Það getur talist vanvirðandi meðferð að taka öll fjárráð af stálpuðu barni eða unglingi. Hinsvegar ber foreldrum líka skylda til að vernda börn sín og veita þeim uppeldi og það getur stundum þurft að vernda unglinga gegn eigin eyðslusemi.
Samkvæmt lögræðislögum ræður ófjárráða fólk sjálft yfir peningum sem það hefur fengið að gjöf og peningum sem það hefur þegar unnið fyrir. Þótt þessi meginregla gildi geta barnaverndarsjónarmið spilað inn í. Ef unglingur hefur mjög háar tekjur eða fær óvenju rausnarlega gjöf getur t.d. verið eðlilegt að foreldrar verndi hagsmuni hans með því að grípa fram fyrir hendurnar á honum ef hann fer mjög illa með fé, hvað þá ef hann veldur sjálfum sér skaða með því hvernig hann ráðstafar því. Það er strangt til tekið hægt að svipta barn því takmarkaða fjárræði sem það hefur ef það ræður alls við að fara með peninga en ég veit ekki til þess að á það hafi reynt fyrir dómi.
Getur barn leitað til lögfræðings?
Þú spyrð hvort unglingur geti „kært“ foreldra sína. Þú átt sennilega við hvort unglingur geti höfðað einkamál fyrir dómi frekar en kæru til lögreglu. Það er í sjálfu sér ekkert sem bannar barni að leita sér lögfræðiaðstoðar en ef unglingur undir 18 ára aldri ætlar að höfða mál gegn foreldrum sínum getur það orðið dálítið snúið. Barn getur nefnilega hvorki gert samning við lögmann (eða neinn annan) né höfðað mál nema með milligöngu lögráðamanns og lögráðamenn eru venjulega foreldrar. Lögfræðiþjónusta er heldur ekki sjálfkrafa ókeypis fyrir börn heldur þyrfti að sækja um réttaraðstoð. Það væri því undir flestum kringumstæðum heppilegra að leita til barnaverndar og óska eftir talsmanni.
Ef unglingur í þeirri stöðu sem þú lýsir fær talsmann á vegum barnaverndar þarf hann ekki að hafa áhyggjur af kostnaði því hann er greiddur úr opinberum sjóðum. Ef kemur í ljós að foreldrarnir ráða ekki við það hlutverk sitt að vera fjárhaldsmenn barns síns er hægt að krefjast þess að barninu verði skipaður annar fjárhaldsmaður og þá myndi barnavernd sjá til þess að það fengi lögmann.
Það er alltaf hætta á því að fólk skapi fleiri vandamál en það leysir með því að fara í hart. Stundum er ekkert annað hægt að gera en áður en maður ákveður að leita til lögreglu, barnaverndar eða lögmanns gagnvart sínum nánustu getur verið gott að ræða málin við einhvern utan heimilisins og skoða hvort er hægt að komast að samkomulagi með hjálp annarra. Þetta á við hvort sem það er unglingur sem er ósáttur við foreldra sína eða fullorðið fólk sem er ósátt við fyrrverandi maka sinn eða einhvern annan nákominn.
Mynd © Scott Griessel | Dreamstime.com