Ég tel að lögmaður hafi bæði klúðrað fyrir mér máli með vanrækslu og ofrukkað mig. Mér finnst ég t.d. ekki eiga að borga fyrir aukafund sem þurfti að halda af því að hann var geispandi og ekkert á hlusta á mig þegar ég kom í fyrsta sinn. Mér var bent á að kæra til siðanefndar lögmanna. Maður þarf að borga fyrir það og það eru lögmenn sem sitja í þessari nefnd. Ég veit að sá sem ég vil klaga þekkir einn úr nefndinni persónulega. Þýðir eitthvað að klaga í vini og kunningja lögmannsins?

☆☆☆

Þú átt áreiðanlega við úrskurðarnefnd lögmanna. Hún starfar á vegum Lögmannafélags Íslands og sker úr um ágreining milli lögmanna og umbjóðenda um kostnað og meint brot lögmanna á starfsskyldum sínum og siðareglum.

Já það eru lögmenn sem sitja í nefndinni enda er henni ætlað að hafa eftirlit með störfum lögmanna og það er ekki raunhæft nema fyrir þá sem bæði kunna lögfræði og þekkja störf lögmanna vel. Markmiðið með því að hafa þessa nefnd er það að halda uppi góðum standard, bæði til þess að auka réttaröryggi borgaranna og líka til þess að auka traust almennings á stéttinni.

Stjórnsýslulög gilda um störf nefndarinnar og þar með vanhæfisreglur. Nefndarmaður á þannig að víkja sæti við meðferð mála þar sem borgarinn hefur réttmæta ástæðu til að óttast hlutdrægni. Nefndarmaður á þannig ekki að koma nálægt afgreiðslu mála þegar beinir samstarfsmenn, eða einhver sem hann tengist fjölskyldu- eða vinarböndum á í hlut. Það er þó útilokað, í svo litlu samfélagi að tryggja að enginn í nefndinni hafi átt nein samskipti við hinn kærða lögmann. Ef þú telur kunningsskap til staðar er sjálfsagt að þú vekir athygi á því.

Ég tel ekki ástæðu til að ætla að nefndin sé lögmönnum sérstaklega hliðholl. Hlutverk hennar er gæðaeftirlit og mörgum lögmönnum svíður það að Lögmannafélagið skuli leggja meiri áherslu á agavald yfir þeim en á hagsmuni þeirra. Ef þú skoðar úrskurði nefndarinnar sérðu að það er ekkert óalgengt að nefndin skikki lögmanninn til að slá af reikningum og finni eitthvað að störfum þeirra. Kostnaðurinn er 12.000 kr. en þú færð hann endurgreiddan ef nefndin telur kvörtun þína réttmæta.

Ef þú sendir inn kvörtun skaltu rökstyðja hana vel og leggja fram þau sönnunargögn sem mögulegt er. Þú þarft ekki að þekkja lögin vel en þú þarft að útskýra í hverju óánægja þín felst. Þú getur t.d. vísað í tímaskýrslur lögmannsins og bent á að hann hafi rukkað tvívegis fyrir upplýsingafund en að þú teljir að einn hefði nægt ef hann hefði verið almennilega vakandi og með þá athygli sem vænta mátti. Athugaðu samt að þegar umbjóðendur eru með langa og flókna sögu sem þeir kunna utan að sjálfir, þá er ekki alltaf hægt að reikna með að allt komist til skila á fyrsta fundi. Vertu því með lista yfir það sem þú telur að lögmaðurinn hefði átt að punkta hjá sér. Ef þú leggur ekki neitt fram sem styður þitt mál þá getur nefndin ekki úrskurðað þér í hag, jafnvel þótt hún trúi þér.

Mynd © Elnur | Dreamstime.com