Senn hefur göngu sína Brotkastþátturinn Til hlítar með Evu Hauks.

Þættirnir eru helgaðir lögum og réttarkerfi. Fjallað verður um áhugaverða dóma, lagafrumvörp og lögfræðileg álitaefni. Stundum verður fjallað um þau mál sem hæst ber í samfélagsumræðunni út frá lögfræðilegu sjónarmiði og stundum hverfum við til fortíðar og skoðum forsögu laganna og réttarfar fyrri alda.

Fyrsti þátturinn verður sendur út þann 10. febrúar og umfjöllunarefni hans er aftökur á Íslandi, þ.e.a.s aðallega framkvæmd þeirra. Gestur minn í þessum fyrsta þætti er Lára Magnúsardóttir, sagnfræðingur. Lára er sérfræðingur í kirkjusögu og þar sem kirkjan var hluti af stjórnskipan miðalda hefur Lára einnig góða innsýn í réttarkerfi fyrri alda og þróun þess.

Lára hefur m.a. rannsakað meðferð sakamanna á Íslandi og aðkomu kirkjunnar að dómsmálum og refsingum. Hún hefur einnig skoðað málsmeðferð og refsingar í veraldlega kerfinu, ekki síst aftökur og framkvæmd þeirra. Eitt af því sem greinir Láru frá öðrum sagnfræðingum er það að hún styðst ekki aðeins við ritaðar heimildir, heldur hefur hún einnig lagst yfir myndskreytingar í gömlum handritum. Ekki nóg með það heldur hefur hún endurunnið fjölda slíkra mynda, í því skyni að draga fram áhugaverð atriði sem erfitt er fyrir leikmenn að átta sig á með því að skoða myndirnar óunnar.

Myndin hér að ofan sýnir húðlát. Hún er úr Heynesbókarhandriti frá 16. öld (AM 147 4to). Ég gæti best trúað því að bareflið sem notað er sé hið sama, eða í það minnsta náskylt „tampinum“, sem Haukur Már Helgason segir frá í frábærri bók sinni „Tugthúsið“ sem kom út fyrir síðustu jól. Stóra myndin fyrir ofan færsluna er endurgerð Láru á þessari mynd.