Er erfðaskrá ógild ef arfleifandi sem á lögerfingja ánafnar öðrum 1/3 hluta eigna sinna og tiltekur þar að auki hluti eins og málverk og aðra verðmæta hluti?

☆☆☆

Í fyrsta lagi er rétt að benda á að það er munur á lögerfingja og skylduerfingja. Skylduerfingjar eru börn, kjörbörn og makar og það er ekki heimilt að skerða arfshluta þeirra. Lögerfingjar eiga ekki rétt á arfi en ef engir skylduerfingjar eru til staðar og ekki er til erfðaskrá gengur arfur til þeirra. Þannig að ef arfleifandi hefur ekki átt börn og maka er honum heimilt að hafa þetta eins og honum sýnist. 

Arfleifandi hefur alltaf rétt til að ráðstafa 1/3 hluta eigna sinna, jafnvel þótt hann eigi skylduerfingja. Ef hann á skylduerfingja má hann ekki ráðstafa meiru en 1/3, þannig að ef hann hefur ráðstafað verðmætum hlutum þá þarf að endurskoða það. Það merkir samt ekki endilega að erfðaskráin verði ógilt og arfi úthlutað eins og engin erfðaskrá hefði verið gerð, því við túlkun erfðaskráa er litið til vilja arfleifandans. Svipuð vandamál geta komið upp þegar arfleifandi hefur lofað tveim eða fleiri erfingjum sama hlutnum.

Hver niðurstaðan yrði á endanum ef dánarbúið yrði tekið til opinberra skipta eða mál höfðað fyrir dómi fer eftir ýmsu, t.d. því hvort arfleifandinn hefur mælt fyrir um verðmætar gjaifr til margra erfingja eða aðeins eins. Ef hann hefur ætlað mörgum verðmæta hluti úr búinu geta skipti orðið flókin. Einnig getur þurft að verðmeta hluti eins og málverk, skartgripi ofl. Skiptastjórar, og eftir atvikum dómarar, eiga þá að stefna að því að vilji hins látna verði virtur að svo miklu leyti sem það gengur ekki gegn rétti annarra.

Mynd 18017215 © Inga Dudkina | Dreamstime.com