Fyrirhugaðar breytingar á dómskerfinu hafa fengið töluverða athygli undanfarið. Einkum þó vegna þeirrar ákvörðunar dómsmálaráðherra að tilnefna í til setu í Landsrétti önnur dómaraefni en þá umsækjendur sem dómnefnd metur hæfasta.  Það hefur hinsvegar litla athygli vakið að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur nú mánuðum saman haft til skoðunar hvernig eftirliti með stjórnsýslu dómstóla er háttað.

Þann 1. janúar 2018 taka gildi ný dómstólalög. Í þeim er ekki gert ráð fyrir auknu eftirliti með dómstólum frá því sem verið hefur en það er nánast ekki neitt. Þetta eftirlitsleysi samræmist illa þeirri hugmynd um þrígreiningu ríkisvalds sem íslensk stjórnskipun byggist á. Sú hugmynd felur nefnilega ekki aðeins í sér að hver þáttur ríkisvaldsins eigi að njóta sjálfstæðis, heldur einnig að hver þáttur ríkisvaldsins eigi að veita hinum þáttunum tilsjón og taumhald. Á Íslandi virðist sá mikilvægi þáttur valdgreiningarinnar algerlega hafa gleymst gagnvart dómsvaldinu. Hæstiréttur getur í raun gert það sem honum bara sýnist og það gerir hann. Hæstiréttur hefur t.d. sjálfur úrskurðað að lög um endurupptökunefnd, sem væru einmitt til þess fallin að veita dómstólum aðhald, séu andstæð stjórnarskrá.

Vald dómstóla er gífurlegt. Hæstiréttur hefur í raun miklu meiri völd en Alþingi og vinnubrögð dómstóla fá ótrúlega sjaldan málefnalega gagnrýni á opinberum vettvangi. Á meðan staðan er slík er stórhættulegt að einn stjórnmálaflokkur hreinlega „eigi“ áfrýjunardómstól sem mun í mörgum tilvikum hafa síðasta orðið um túlkun laga og dómafordæma.

Slæmt er að dómskerfið skuli engu eftirliti sæta, hvort heldur er dómaframkvæmd eða stjórnsýsla dómstólanna. Verra yrði þó ef dómskerfi sem nýtur svo óhóflegs sjálfstæðis verður að einkaeign stjórnmálaflokks. Ég sé ekki betur en að það sé um það bil að gerast.