Ég er erlendis og á ekki flug til baka fyrr en eftir viku. Systir mín er heima hjá mér og í dag kom stefnuvottur með stefnu og lét hana kvitta fyrir móttöku. Í bréfinu stendur að ég eigi að mæta fyrir dóm á fimmtudaginn því annars verði það dæmt sem útivistarmál. Ég verð ekki á landinu og það er ekki einu sinni neitt flug fyrir þennan tíma. Má neyða einhvern annan til að taka við stefnu fyrir einhvern sem getur ekki mætt? Er hægt að fá þessu frestað og hvað gerist ef ég mæti ekki?

☆☆☆

Já, það er hægt að birta stefnu fyrir öðrum en þeim stefnda og skiptir engu máli hvort hann er á landinu eða ekki. Sá sem tekur við stefnunni ber ábyrgð á því að gera þér aðvart. Það er ekki hægt að fá þinghaldi frestað en þú þarft nú samt ekki að taka einkaþotu til að komast heim fyrir fimmtudag.

Að því gefnu að þú viljir mótmæla kröfunum þarftu að hafa samband við lögmann alveg í hvelli. Það sem er að gerast á fimmtudaginn er þingfesting. Þar gerist ekkert annað en það að málið er skráð inn í kerfið. Það er engin ástæða til að þú mætir þar í eigin persónu og venjulega eru það lögmenn sem mæta fyrir umbjóðendur sína. Það er samt mjög mikilvægt að einhver mæti því ef annar aðilinn mætir ekki og sendir engan fyrir sína hönd. Það heitir „útivist“ og merkir að með því að mæta ekki hefur þú afsalað þér rétti til að taka til varna. Málið er þá dæmt út frá málatilbúnaði og gögnum sem hinn aðilinn hefur lagt fram. Einu tilvikin sem er óþarfi að mæta við þingfestingu er þegar þú veist að krafan er fullkomlega réttmæt og þú hefur ekkert þér til málsbóta.

Mynd; 98021112 © Antonio Guillem | Dreamstime.com