Ég sótti um bætur til Sjúkratrygginga Íslands en beiðninni var hafnað. Í bréfinu stendur að ég geti kært ákvörðunina til úrskurðarnefndar velferðarmála. Þarf ég lögfræðing til þess og er þá hægt að fá gjafsókn til þess?

☆☆☆

Þú getur alveg sent inn inn stjórnsýslukæru án aðkomu lögfræðings. Gjafsókn er eingöngu veitt vegna dómsmála svo ef þú þarft að sækja rétt þinn á stjórnsýslustigi lendir sá kostnaður á þér. Í nokkrum tilvikum á fólk rétt á því að lögfræðiþjónusta sé greidd úr opinberum sjóðum en það á ekki við í þínu tilviki.

Ólíkt því að skrifa stefnu eða greinargerð í dómsmáli er ekkert mjög flókið að skrifa stjórnsýslukæru. Á stjórnsýslustigi eru ekki gerðar miklar formkröfur og stjórnvöld eru ekki bundin af málsástæðum (eða rökum) sem fram koma í kærunni heldur mega þau nota önnur rök til að fella stjórnvaldsákvörðun úr gildi, eins og t.d. ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands (SÍ), ákvarðanir barnaverndarnefndar o.fl. stjórnvalda. Þú átt ekki að þurfa að kunna lögfræði og úrskurðarnefndin á að benda á lagarök fyrir kröfu þinni ef þau eru til. Það er hinsvegar því miður dálítill misbrestur á því að úrskurðar- og kærunefndir leggi sig beinlínis fram um að finna lausn sem er borgaranum til hagsbóta svo ef um mikla hagsmuni er að tefla getur borgað sig að fá lögfræðing til að skrifa kæruna.

Þú getur fundið kæruform fyrir ýmsar stjórnsýslukærur á netinu. Þú skráir þig inn með rafrænum skilríkjum í gegnum island.is og þar finnur þú þetta kæruform fyrir kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála. Þarna færðu allar upplýsingar um það sem þarf að koma fram.

Vandaðu kæruna

Málsmeðferð hjá stjórnvöldum tekur oft mjög langan tíma. Þú vilt ekki þurfa að byrja upp á nýtt svo þú skalt vanda rökstuðning fyrir kröfunni. Lestu vandlega bréfið frá SÍ og áttaðu þig á því hverjar forsendurnar fyrir synjuninni eru. Þú þarft að sýna fram á að þær forsendur séu rangar, að rökum fyrir beiðni þinni hafi ekki verið svarað á fullnægjandi hátt eða að ekki hafi verið tekið tillit til þeirra gagna sem þú lagðir fram. Forðastu miklar málalengingar og haltu þig bara við það sem beiðnin til SÍ og svar þeirra snýst um. Úrskurðarnefndin getur ekki unnið út frá einhverjum atvikum sem ekki var getið um í beiðninni til SÍ.

  • Settu erindið skipulega fram, þannig að sé alveg ljóst hvað þú vilt
  • Taktu fram hversvegna þú átt rétt á því
  • Útskýrðu hvað það er sem þú telur að SÍ hafi kilkkað á
  • Segðu í stuttu máli frá því hvaða afleiðingar það hefur fyrir þig ef ákvörðun SÍ fær að standa óbreytt

Athugaðu að ef eitthvað nýtt er komið fram sem styður kröfu þína er sennilega heppilegra að óska eftir því að SÍ endurskoði ákvörðun sína í ljósi nýrra gagna. Úrskurðarnefndin tekur ekki nýja ákvörðun á nýjum grunni heldur sker aðeins úr um það hvort ákvörðun SÍ var lögmæt eða ekki. Þú vilt ekki bíða í marga mánuði eftir úrskurði bara til að fá það svar að ákvörðun SÍ hafi verið rétt miðað við þau gögn sem þá lágu fyrir en nú getir þú prófað aftur.

Mynd: 126681033 © Marcos Calvo Mesa | Dreamstime.com