Leikara eru dæmdar bætur vegna ólögmætrar uppsagnar og alda reiði og hneykslunar rís á samfélagsmiðlum. Hneykslunin beinist ekki gegn atvinnurekanda sem viðhefur stalínísk vinnubrögð heldur „karlveldinu“ sem dæmir karli sem missir vinnuna hærri bætur en brotaþolum í kynferðisbrotamálum. Það var að vísu kona sem kvað upp dóminn en einn kynlitnigur til eða frá ræður víst engum úrslitum um það hvort dómari gengur erinda feðraveldisins eður ei.

Réttargæslumenn skrifa grein þar sem tíndir eru til fjórir dómar, tveir sem snúast um óviðunandi framkomu atvinnurekenda og tveir sem snúast um kynferðisbrot. Af þessum fjórum dómum er dregin sú almenna ályktun að æra og persóna þeirra sem missa vinnuna vegi að mati dómstóla þyngra en þjáningar fórnarlamba kynferðisglæpamanna.

Þórdís Elva Þorvaldsdóttir fullyrðir að umræddur leikari hafi fengið hærri bætur en 17 ára stúlka sem var svipt frelsi sínu og nauðgað heila helgi. Þórdís Elva segist líka þekkja leikkonur (í fleirtölu) sem hafi verið þvingaðar á leiksvið í miðju fósturláti. Fjölmiðill hefur þessar upplýsingar eftir henni án þess að benda á dóminn sem hún virðist vera að vísa í eða afla nokkurra gagna sem styðja hina óhugnanlegu sögu um nauðung gagnvart leikkonum sem missa fóstur.

Á Pírataspjallinu (sem haldið er úti og ritstýrt af Framkvæmdaráði Pírata) fær fólk óáreitt að halda fram þeirri þvælu að bætur til brotaþola í nauðgunarmálum séu sjaldan hærri en 300 þúsund krónur. Þegar ég bendi á að þetta sé ekki rétt og pósta tenglum á dóma sem sýna hið sanna, þá er þráðurinn frystur enda ekki boðlegt að spilla góðu ofstækispartýi með gögnum sem sýna fram á þvæluna. Þráðurinn var reyndar opnaður aftur en þöggunartilburðir eru dæmigerð viðbrögð hinna rétthugsandi við málefnalegum athugasemdum.

Skaðabætur vegna fjártjóns eru ekki það sama og miskabætur

Miskabætur til brotaþola í kynferðisbrotamálum eru lágar. Miskabætur eru almennt lágar. Sú hugmynd að dómstólar séu nískari við fólk sem hefur orðið fyrir nauðgun en við aðra bótakrefjendur stenst ekki skoðun. Til þess að fá rétta mynd þurfum við í fyrsta lagi að greina á milli skaðabóta vegna fjártjóns og miskabóta sem eru greiddar þeim sem verða fyrir ólögmætri meingjörð sem hefur eyðileggjandi áhrif á líf þolandans, óháð því hvort viðkomandi varð fyrir fjártjóni vegna málsins. Í öðru lagi þarf að skoða dómaframkvæmd í mismunandi málaflokkum, bæði niðurstöður dómara og forsendur.

Í þessu umdeilda máli voru leikaranum dæmdar 5,5 milljónir vegna ólögmætrar uppsagnar. Þar af eru 4 milljónir vegna tekjumissis og annars fjártjóns. 1,5 milljón er vegna ólögmætrar meingjörðar. Dómarinn komst þannig að þeirri niðurstöðu að leikhússtjóri hafi með uppsögninni og því hvernig staðið var að henni, brotið gegn starfsmanninum á saknæman hátt. Ekki á refsiverðan hátt heldur saknæman í þeim skilningi að henni mátti vera það ljóst að málsmeðferð Leikfélags Reykjavíkur á málinu og uppsögnin sjálf hefði mikil og skaðleg áhrif á mannorð og líðan leikarans og hefði líklega neikvæðar afleiðingar til langs tíma.

Miskabætur vegna uppsagnar eru venjulega mun lægri

Miskabætur vegna ólögmætrar meingjörðar vinnuveitanda eru í langflestum tilvikum  lágar. Síðla árs 2017 fengu tveir dómarar sem gengið var framhjá við skipun Landsréttardómara hvor um sig 700 þús. kr. í  miskabætur. Miskabætur vegna ólögmætrar uppsagnar eru síður en svo rausnarlegri. Þann 1. mars sl. dæmdi Landsréttur aðstoðarskólastjóra í fjölbrautarskóla 500 þúsund kr. í miskabætur vegna ólögmætrar uppsagnar.

Í máli frá 2015 þar sem vinnuveitandi hafði sakað starfsmann um fjárdrátt og rekið hann var  miski starfsmanns metinn á 200 þúsund kr. Annar áhugaverður Hæstaréttardómur sem féll 2015 var í máli slökkviliðsmanns sem varð fyrir óögmætri uppsögn og einelti af hálfu vinnuveitanda. Þar taldi Hæstiréttur 500 þús kr. hæfilegar bætur.

Þetta er alls ekki tæmandi talning en gefur þó nokkra hugmynd um það hversu alvarlegum augum dómstólar líta ólögmæta meingjörð vinnuveitanda gagnvart starfsmanni. Rétt er að taka fram að það er ekkert gefið að þeir sem verða fyrir ólögmætri uppsögn fái miskabætur. Starfsmaður fær bara miskabætur ef vinnuveitandanum mátti vera það ljóst að hann var að brjóta gegn honum með uppsögninni. Snorri í Betel fékk t.d. engar miskabætur (bara bætur fyrir fjártjón) þegar honum var sagt upp ólöglega. Forsendur þeirrar niðurstöðu að skólastjórinn og aðrir starfsmenn Akureyrarbæjar sem komu að málinu hefðu ekki komið fram með saknæmum hætti eru óljósar. Kannski mátti þeim ekki ljóst vera að fólk með úreltar skoðanir njóti sama tjáningar- og trúfrelsis og annað fólk.

Miskabætur í nauðgunarmálum

Í kynferðisbrotamálum er brotaþolum heldur ekki sýnd nein ofrausn. Síðustu árin hafa miskabætur vegna nauðgunar í flestum tilvikum verið á bilinu 1-2 milljónir eftir því hvort brotaþoli er barn eða fullorðinn, eftir því hvort brotaþoli er í sérstaklega viðkvæmri stöðu og því hversu hrottaleg nauðgunin var.

Í sumar dæmdi Landsréttur barni sem var misnotað um langt árabil 2,5 milljónir í miskabætur. Í öðru nýlegu Landsréttarmáli voru barni sem hafði verið misnotað af afa sínum dæmdar 1.7 milljónir króna í miska. Einnig er stutt síðan maður sem hafði misnotað fatlaða konu var dæmdur til að greiða henni 2 milljónir í miskabætur.  Í júní mat Landsréttur miska fullvaxta konu vegna hrottalegrar nauðgunar sem botaþoli bar líkamlega áverka eftir á 1,8 milljónir. Í öðru máli var andlegt ástand brotaþola slæmt en ekki er getið um líkamlega áverka, í því máli voru brotaþola dæmdar miskabætur upp á 1,2 milljónir.

Þetta eru nýleg mál en árin 2014-2015, á sama tíma og Hæstiréttur dæmdi miskabætur vegna ólögmætra uppsagna upp á 200-500 þúsund, voru miskabætur til fullorðinna vegna nauðgunar á bilinu 500 þúsund til 1,2 milljónir. Í maí 2014 voru brotaþola sem bar áverka eftir nauðgun dæmdar 1,2 milljónir í miska. Í árslok 2014 staðfesti Hæstiréttur sakfellingu manns fyrir nauðgun gegn konu sem hann hitti reglulega en aðeins einn ákæruliður af mörgum taldist sannaður. Í því tilviki var miski metinn á 500 þúsund. Um hálfu ári síðar var maður sem misnotaði ölvun og svefndrunga konu til þess að nauðga henni dæmdur til að greiða henni 800 þúsund í miskabætur. Í nóvember 2015 voru karlmanni dæmdar miskabætur upp á 1 milljón vegna munnmaka sem hann var ófær um að sporna gegn vegna ölvunar og svefndrunga.

Það sem málið snýst raunverulega um

Úttektin hér að ofan er ekki ítarleg en nægir þó til að sýna fram á að staðhæfingar um að miskabætur í nauðgunarmálum séu lægri en bætur vegna ærumeiðandi uppsagna halda ekki vatni. Bæturnar í máli leikarans eru mun hærri en þolendur ólögmætra uppsagna hafa fengið hingað til. Ástæðan er væntanlega sú að þessi uppsögn er óvenju meiðandi og sóðaleg enda gekk leikhússtjóri einstaklega langt í brotum sínum gegn lögum og reglum við meðferð málsins, einmitt þeim reglum sem eiga að daga úr líkum á því að starfsmaður verði fyrir miska. Miðað við dómaframkvæmd í þessum málum hingað til kæmi þó ekki á óvart þótt miskabætur yrðu lækkaðar fyrir Landsrétti.

Ástæðan fyrir því að mál Atla Rafns gegn Leikfélagi Reykjavíkur vekur svo sterk viðbrögð með tlheyrandi rangfærslum um bætur til þolenda í nauðgunarmálum er sennilega sú að hávær hópur réttlætisriddara vill helst að hugmyndafræðin á bak við #metoo hreyfinguna fái stöðu réttarheimildar. Að vinnuveitendur fái frelsi til þess að losa sig við starfsmenn að eigin geðþótta án þess að skeyta hið minnsta um grundvallarsjónarmið réttarríkisins, án þess að virða rétt starfsmanns til æruverndar, án þess að gefa starfsmanni sjálfsagðar upplýsingar um það hvað honum er gefið að sök, hvað þá tækifæri til að svara fyrir sig.

Ég veit ekki hvort þetta fólk gerir sér grein fyrir því hvað það er að biðja um en ef það fær vilja sínum framgengt verður afleiðingin á endanum sú að starfsöryggi verður úr sögunni og konur jafnt sem karlar þurfa einfaldlega að sætta sig við atvinnumissi og mannorðshnekki vegna fantalegrar framgöngu vinnuveitenda. Sennilega er brýnni þörf á að draga úr þvi valdi sem atvinnurekendur hafa yfir starfsfóki en að auka það og nær væri að fagna háum miskabótum og nota fordæmið til að styðja kröfur um hærri bætur í öðrum málaflokkum en að grenja yfir meintu karlveldi þegar dómstólar viðurkenna rétt starfsmanna gagnvart atvinnurekendum.

Og sé það virkilega rétt að íslenskir atvinnurekendur neyði konur sem eru að missa fóstur til að ljúka vaktinni er beinlínis stórhættulegt að færa þeim meiri völd en þeir hafa nú þegar.

[Uppfært: Mér var bent á dóminn í máli 17 ára stúlkunnar, sem ÞEÞ vísar til. Þetta er dómur frá 2001. Stúlkunni var dæmd milljón í miskabætur og Hæstiréttur staðfesti þá fjárhæð og þyngdi dóminn yfir nauðgaranum. Framreiknuð til dagsins í dag er þessi bótafjárhæð 2,2 milljónir. Það er ekki mikið fyrir aðra eins meðferð. Vonandi fengi hún meira í dag en þetta er þó augljóslega meira en sú miskabótafjárhæð sem Atla Rafni var dæmd í vikunni.]

Mynd: Pefertig, Pixabay