Nokkurs misskilnings hefur gætt um réttarstöðu þeirra sem bornir eru sökum um meiðyrði, einkum var slíkur misskilningur áberandi í kringum netmiðlaherferð #metoo-hreyfingarinnar á árunum 2017-2018.

Einn afrakstur herferðarinnar var stofnun málfrelsissjóðs, sem ætlað er að styrkja þær konur sem verða dæmdar fyrir ærumeiðingar fyrir að tjá sig um kynbundið ofbeldi. Kveikjan að stofnun sjóðsins var sú að Hildur Lilliendahl Viggósdóttir og Oddný Arnarsdóttir voru dæmdar til greiðslu miskabóta vegna ummæla sinna um Hlíðamálið svokallaða.

Á undanförnum áratugum hafa sum ríki Evrópu þrengt að málfrelsinu með því að skilgreina sem  „hatursorðræðu“ tjáningu afturhaldssamra skoðana sem beinast að minnihlutahópum, jafnvel þótt tjáningin feli ekki í sér neina hvatningu til ofsókna, ofbeldis eða mismununar.

Á sama tíma hafa mörg Evrópuríki, sem og Mannréttindadómstóll Evrópu, sýnt aukið umburðarlyndi gagnvart fúkyrðum og ofstopafullri gagnrýni í garð einstaklinga, einkum opinberra persóna. Mörkin eru þó dregin við ásakanir um refsiverða háttsemi sem ekki hafa verið leiddar líkur að, og eru settar fram á opinberum vettvangi. Gildisdómar geta einnig fallið undir meiðyrði samkvæmt dómaframkvæmd MDE en þar er frelsið mun meira en þegar um er að ræða staðhæfingu sem er í eðli sínu sannanleg þótt takist ekki endilega að sanna hana í tilteknu máli.

Fullt frelsi til að tjá sig um eigin reynslu

Engin þörf er á sjóði til þess að tryggja málfrelsi kvenna sem vilja tjá sig opinberlega um ofbeldi sem þær sjálfar hafa orðið fyrir. Það er útbreiddur misskilningur að það sé refsivert eða varði skaðabótaskyldu að segja satt og rétt frá ofbeldi, áreitni, ógnunum, umsátri eða annarri hegðun sem gengur nærri öryggi þolandans og friðhelgi einkalífs hans. Hið rétta er að ekkert bannar fólki að segja reynslusögu sína á opinberum vettvangi. Það getur aftur á móti fallið undir ákvæði hegningarlaga og reglur skaðabótaréttar að halda fram sem staðreynd einhverju sem maður hefur hvorki reynslu af né sannanir fyrir og er öðrum til álitshnekkis, eða að dylgja um slíkt.

Kona sem segir frá því að sér hafi verið nauðgað og nafngreinir gerandann á ekki á hættu að vera sakfelld fyrir meiðyrði. Í íslenskum refsirétti gildir sú regla að ákæruvaldið verður að sýna fram á að sök sé hafin yfir skynsamlegan vafa. Ef kona sem segir mann hafa beitt sig kynferðisofbeldi er ákærð fyrir meiðyrði eða rangar sakargiftir stendur það ekki upp á hana að sýna fram á sakleysi sitt heldur verður ákæruvaldið að færa fram sannanir fyrir því að hún sé að ljúga. Það sama á við ef gerandinn stefnir henni til greiðslu miskabóta. Hann getur dregið hana fyrir dóm en það er þá hann sem þarf að sýna fram á að hún fari ekki með rétt mál, að öðrum kosti er málið dæmt henni í vil og hann situr uppi með málskostnaðinn.

Í praxís merkir þetta að sá sem er borinn sökum um ofbeldi og býður af því orðsporshnekki þarf að sýna fram á sakleysi sitt til þess að geta komið lögum yfir þau sem ásaka hann.

Það er kannski ekki undarlegt að þessi misskilningur hafi verið áberandi í kringum #metoo hreyfinguna því lögin eru ekki allsstaðar eins. Í Bretlandi er sönnunarbyrði í meiðyrðamálum snúið við. Þannig er  gengið er út frá því að ærumeiðandi ummæli séu röng og þá stendur upp á þann sem lét þau orð falla að sýna fram á að þau séu sönn. En þannig er það ekki á Íslandi.


Er þörf á rógsherferðarsjóði?

Það er hægt að dæma konu til greiðslu miskabóta fyrir að ljúga vísvitandi upp nauðgunum og öðru ofbeldi. Það er sjaldgæft og sönnunarbyrðin hvílir á þeim sem segir hana fara með rangt mál. Upplifun konunnar getur verið vörn í slíkum málum og frekar ólíklegt að hún verði sakfelld nema hún annaðhvort viðurkenni brotið eða fyrir liggi sönnun um ásetning. Það er varla brýn þörf á að auka málfrelsi kvenna til þess að bera menn röngum sökum af ásetningi.

Á hinn bóginn kann að vera þörf á rógsherferðasjóði til styrktar þeim konum sem trúa því í einlægni að frásögn konu sem segir karl hafa beitt sig ofbeldi sé óvéfengjanleg. Konum sem vilja fá að spúa froðufellandi ofstæki sínu yfir internetið. Konum sem vilja óáreittar geta ráðist á þá sem þær telja af einhverjum ástæðum ofbeldismenn, með svívirðingum og  ásökununum um refsiverða hegðun án þess að hafa orðið vitni að slíkum atvikum eða hafa sannanir fyrir þeim. Að sjálfsögðu með því markmiði að sannfæra sem flesta um sekt karlsins og skaða þar með félagslega stöðu hans, kærleikssambönd, stöðu á vinnumarkaði o.s.frv.

Dæmi um slík ummæli eru þau sem Hildur Lilliendahl Viggósdóttir og Oddný Arnarsdóttir létu falla í rógsherferð femínista í tengslum við Hliðamálið fyrrnefnda. Hvorug þeirra var neinn þolandi í því máli og hvorug þeirra varð vitni að neinu sem fórnarlömbum þeirra og Fréttablaðsins var gefið að sök.


Hver fær fyrstu úthlutun úr sjóðnum?

Í stjórn málfrelsissjóðs eiga sæti Helga Þórey Jónsdóttir, Elísabet Ýr Atladóttir og Sóley Tómasdóttir. Samkvæmt upplýsingum frá FB síðu sjóðsins hefur engin úthlutun farið fram enn og engar umsóknir borist enda ekkert form verið sett upp til þess en verið er að vinna að uppsetningu heimasíðu. Þar munu allar upplýsingar koma fram, þ.á.m. um það hvernig hægt sé að sækja um.

Það verður áhugavert að sjá hvaða verkefni munu hljóta styrki úr sjóðnum. Á Íslandi er nánast útilokað að fá viðurkenningu dómstóla á meiðyrðum eða röngum sakargiftum í þeim tilvikum sem orð standa gegn orði. Það er því líklegast að styrkir renni aðallega til kvenna sem hafa tjáð sig um meint ofbeldi gegn öðrum konum, af hendi karlmanna sem þær þekkja ekki og um atvik sem þær vita nákvæmlega ekkert um.

Dómaframkvæmd í málum þar sem bótakrefjandi telur sig hafa orðið fyrir ærumeiðingum eða röngum sakargiftum um kynferðisbrot er áhugaverð en ég legg það ekki á triggeraðan lýðinn að rekja þær skelfingarsögur hér og nú. Það mun ég gera þegar tilkynnt verður um fyrstu úthlutun úr sjóðnum.