Fréttablaðið segir frá framgöngu lögregluþegar kvörtun barst vegna nágrannaerja í Kjósinni um helgina. Samkvæmt lögreglu var tilkynnt um ógnandi tilburði og hættu á vopnaðri árás. Sérsveitin var umsvifalaust send á staðinn, eldri borgari handtekinn við girðingarvinnu, honum haldið í fangaklefa í 6 klst og svo hent peningalausum út af lögreglustöðinni.

Ekki stendur á skýringum lögreglu á tiltækinu:

Hann hefur sjálfsagt haft í hótunum eða eitthvað álíka og þá förum við að gát í það og tryggjum allt og alla.

Hann hefur sjálfsagt … Það er semsagt nóg að halda því fram að maður hafi orðið fyrir hótunum til þess að fá sérsveitina á staðinn, mann sem er að dunda við girðingarvinnu handtekinn og vistaðan í fangageymslu, án þess að nokkuð annað bendi til þess að ógn stafi af honum. Lögreglan ályktar þá bara að sjálfsagt sé frásögnin hafin yfir vafa og grípur til ráðstafana í samræmi við það.

Nei, það er ekki nóg. Ekki ef lögreglan fer að lögum. Þessi framganga, ef frásögnin er rétt, samræmist hvorki meðalhófsreglu, né reglunni um rökstuddan grun.

Rökstuddur grunur

Lögreglu eru auðvitað heimilt að handtaka mann ef hætta stafar af honum en ef vantar ekki eitthvað stórkostlegt í frásögn Fréttablaðsins þá benti bara ekkert til þess. Til að efni séu til handtöku í tilviki sem þessu, þ.e. þegar engin yfirvofandi hætta er fyrir hendi, þarf að liggja fyrir rökstuddur grunur um brot sem getur leitt til ákæru.

Vitaskuld ber lögreglu að fara á staðinn ef hún fær tilkynningu um líflátshótanir en ef einhliða frásögn einhvers sem á í deilum við viðkomandi flokkaðist sem rökstuddur grunur, án þess að nokkuð annað kæmi til, þá myndi það einfaldlega þýða að hver sá sem á eitthvað sökótt við nágranna, starfsfélaga, fjölskyldumeðlim eða hvern sem er annan, gæti fengið viðkomandi handtekinn bara með því að halda því fram að hann hafi ógnað sér. Það er að sjálfsögðu ekki svo slæmt að vopnað lögreglulið ráðist á hvern þann sem einhver segir að sé með hótanir.

Meðalhóf

Nú var ég ekki á staðnum og það er mögulegt að eitthvað vanti í frásögn Fréttablaðsins. En þó að við gefum okkur að lögreglan hafi haft réttmæta ástæðu til að handtaka manninn stendur eftir að honum er „sleppt“ út að skýrslutöku lokinni, í órafjarlægð frá þeim stað þar sem hann var handtekinn.

Það er í sjálfu sér undarlegt að ekki skuli vera til lagaákvæði sem skikkar lögreglu sérstaklega til að koma handteknum manni aftur á þann stað þar sem handtakan fór fram, óski hann þess. En í ljósi 2. mgr. 13. gr. lögreglulaga er enn furðulegra að það skuli ekki vera viðtekin verklagsregla hjá lögreglu.

Greinin hljóðar svo:

Handhafa lögregluvalds ber að rækja starfa sinn af kostgæfni og samviskusemi og ávallt gæta fyllstu hlutlægni og réttsýni. Þeir [svo] skulu gæta þess að mönnum verði ekki gert tjón, óhagræði eða miski framar en óhjákvæmilegt er eftir því sem á stendur. Ekki mega þeir beita sakaðan mann harðræði fram yfir það sem lög heimila og nauðsynlegt er til þess að vinna bug á mótþróa hans gegn lögmætum aðgerðum né á annan hátt beita hann ólögmætri þvingun í orði eða verki, svo sem með hótunum.

Ákvæðið felur í sér meðalhófsreglu – þ.e.a.s. þá reglu að ekki skuli beita harðari aðferðum en nauðsyn krefur eða ganga harðar fram í beitingu þeirra en nauðsynlegt er til að ná réttmætu markmiði.

Það er réttmætt markmið að taka skýrslu af manni sem sakaður er um að ógna lífi annarra. Hvort var nauðsynlegt að flytja hann á lögreglustöð og halda honum í fangaklefa í 6 klst. er aftur umdeilanlegt. Það er þó tæpast umdeilanlegt að það er óhagræði fyrir mann sem býr í Kjósarsveit að standa uppi bíllaus og peningalaus á Hlemmi. Það óhagræði er heldur ekki óhjákvæmilegt.

Vinnuregla að gera fólki óhagræði

Þessi saga rifjaði upp fyrir mér annað atvik af svipuðum toga sem átti sér stað fyrir meira en 10 árum. Lögreglan handtók þá mann sem var að rífa kjaft í miðbænum, ók honum út í Örfirisey og skildi hann þar eftir útúrdukkinn og illa klæddan. Lögreglumaðurinn sem tók þá ákvörðun var sýknaður af því að hafa farið offari gegn manninum með þessari meðferð. Hann bar því við fyrir rétti að það væri venja lögreglunnar þegar menn væru til vandræða að „skilja þá eftir í buskanum“.

Sjálfa ákvörðunina um að handtaka manninn mætti sjálfsagt reyna að afsaka með „réttmætum ótta“ um líf og limi nágrannans. En hvernig ætli sú vinnuregla að gera handteknu fólki óhagræði, þvert á lög, samræmist greiningu Shailu Dewan þeim á kerfum sem viðhalda misbeitingu lögregluvalds? Meira um það síðar.

Mynd: Wikipedia