Eins og fram kom í morgun hefur Mannréttindadómstóll Evrópu kveðið upp dóm í fyrra máli Egils Einarssonar gegn Íslandi (Fuck You Rapist Bastard málinu) og komist að þeirri niðurstöðu, með fimm atkvæðum gegn tveimur, að ríkið hafi gerst brotlegt gegn þeirri æruvernd sem felst í ákvæðum sáttmálans.

Æruvernd í réttarkerfi Mannréttindadómstólsins

Rétt er að taka fram að Mannréttindasáttmáli Evrópu felur ekki í sér neina sérstaka grein um meiðyrði. Tjáningarfrelsi eru sett þau mörk að það megi ekki ganga á rétt annarra og til þess að meta það er málið skoðað í ljósi 8. gr. sáttmálans sem fjallar um vernd einkalífs. Dómstóllinn hefur, með dómaframkvæmd sinni, sett ákveðin viðmið um æruvernd. Það skiptir t.d. máli hvort ummæli eru sönn eða hvort sá sem viðhafði þau mátti með réttu telja að svo væri, hvort umfjöllun gengur nærri einkalífi manns og/eða er til þess fallin að skaða hann samfélagslega og/eða að skaða sjálfsmynd hans. Í því sambandi skiptir töluverðu máli hver staða manns er í samfélaginu.

Rök ríksins

Rök ríkisins fyrir því að birting myndarinnar og ummælanna hafi ekki falið í sér ærumeiðingar í skilningi Sáttmálans eru, samkvæmt því sem segir í dómnum, eftirfarandi:

  • Orðin rapist bastard eru í þessu samhengi gildisdómur en ekki ásökun um afbrot. Þessi myndræna framsetning dregur úr alvarleika orðanna.
  • Þar sem Egill er opinber persóna nýtur hann minni æruverndar en meðalmaðurinn.
  • Myndin var þáttur í opinberri umræðu sem Egill tók sjálfur þátt í.
  • Egill hafði sjálfur verið ögrandi í skrifum sínum og talað um konur á niðrandi hátt, hann gat búist við að fólk myndi bregðast við því.

Úrlausn Mannréttindadómstólsins

Við úrlausn málsins horfði dómstóllinn til eftirfarandi atriða:

  • Hversu vel þekktur kærandi er á opinberum vettvangi.
  • Hvort sú tjáning sem kvartað er undan telst innlegg í umræðu sem snertir almannahagsmuni.
  • Form birtingarinnar og afleiðingar hennar, þ.m.t. hvernig sá sem ber ábyrgð á henni aflaði sér upplýsinga um sannleiksgildi hennar.
  • Efni fullyrðingarinnar sem kærandi telur ærumeiðandi.

Varðandi fyrsta atriðið féllst dómstóllinn á að tjáningarfrelsi gangi lengra gagnvart þeim sem eru áberandi á opinberum vettvangi og vísaði m.a. til dóms síns í máli Erlu Hlynsdóttur frá 10 júlí 2012. Þrátt fyrir það að við tilteknar aðstæður geti verið réttmætt að birta sannar fréttir um einkalíf stjórnmálamanna og annarra opinberra persóna, geti jafnvel frægt fólk samt vænst þess að einkalíf þess njóti einhverrar verndar.

Hvað annað atriðið varðar féllst dómurinn á að myndbirtingin hefði verið þáttur í opinberri umræðu sem snerti almannahagsmuni. Það kæmi því til skoðunar hvort ríkið hefði gætt réttar beggja aðila. (Það er reyndar alltaf þungamiðjan í málum þar sem mörkin milli tjáningarfrelsis og æruverndar eða verndar einkalífs eru til skoðunar.)

Hvað varðar form og vettvang birtingar hafði Hæstiréttur sjálfur tekið fram að birting á Instagramsvæði með 100 fylgjendur teldist opinber birting og sá Mannréttindadómstóllinn ekki ástæðu til að draga það í efa.

Varðandi efni ummælanna féllst Mannréttindadómstóllinn ekki á þá túlkun Íslenska ríkisins að gildisdómur fælist í því að kalla mann nauðgara enda væri orðið sjálft hlutlægt og lyti að staðreyndum. Dómurinn tók fram að hann útilokaði ekki að við einhverjar aðstæður væri hægt að líta á slík ummæli sem gildisdóm og að það væri fyrst og fremst á ábyrgð ríkisins að meta það.  Í ljósi þess að ummælin féllu í beinum tengslum við átakamikla umræðu um nauðgunarkæru sem hafði verið vísað frá, væri þó greinilega um að ræða staðhæfingu en ekki gildisdóm. Dómstóllinn benti á að hann hefði í fyrri dómum tekið fram að munurinn á þessu tvennu sé sá að staðhæfing sé sannanleg en gildisdómur ekki.

Tveir dómarar af sjö skiluðu séráliti. Annar þeirra féllst á það álit Íslenska ríkisins að þegar ummælin væru aðeins viðbót við mynd sem hefði greinilega verið ætluð sem viðbrögð við viðtali í tímaritinu Monitor, mætti líta á þau sem þátt í gildisdómi. Hinn dómarinn taldi að Mannréttindadómstóllinn ætti að eftirláta ríkinu mat á því hvort farið hefði verið yfir mörk tjáningarfrelsisins.


Gildisdómur eða fullyrðing

Hæstiréttur heldur því fram að hann hafi við úrlausn málsins tekið mið af ákvæðum Mannréttindasáttmála Evrópu og túlkun Mannréttindadómstóls Evrópu á þeim. Sé það rétt að dómarar hafi kynnt sér dómaframkvæmd Mannréttindadómstólsins verður túlkun Hæstaréttar að teljast í hæsta máta undarleg.

Almennt er það svo í lögum að ef ekki er sérstakt tilefni til annars skal túlka lagaákvæði samkvæmt orðanna hljóðan. Ef venjuleg notkun orðanna er lögð til grundvallar má telja með ólíkindum að Hæstiréttur hafi komist að þeirri niðurstöðu að um gildisdóm væri að ræða. Gildisdómar fela í sér skoðanir. Nauðgun er hegningarlagabrot og nauðgari er sá sem fremur nauðgun. Það er ekki smekksatriði hvort einhver hefur framið glæp eða ekki.

Nú má vera að málkennd dómaranna sé mjög léleg. Það er þó engin afsökun því í máli Lingens gegn Austurríki tók MDE fram að munurinn á gildisdómi og fullyrðingu sé sá að fullyrðing sé sannanleg.

Það er ekki hægt að fullyrða að það sé annaðhvort rétt eða rangt hvort einhver er aumingi eða drullusokkur (bastard). Það er hinsvegar mögulegt að skera úr um hvort maður sé nauðgari eða ekki.

Það verður að teljast sérkennilegt af Hæstirétti að halda því fram að hann vinni í samræmi við dóma Mannréttindadómstólsins án þess að nefna einu orði þær skýru og einföldu reglur um greinarmuninn á gildisdómi og staðhæfingu sem fram komu í máli Lingens – en það er fyrsta málið sem Mannréttindadómstóllinn dæmdi þar sem reyndi á mörkin milli tjáningarfrelsis og æruverndar. Þar sem MDE hefur í hverju málinu á fætur öðru komist að þeirri niðurstöðu að Íslenska ríkið hafi brotið gegn tjáningarfrelsisákvæði sáttmálans, hefði kannski verið við hæfi að dómarar Hæstaréttar kynntu sér framkvæmd MDE í slíkum málum.

Mynd: Endzeter, Pixabay