Í gær sagði ég frá helstu viðmiðum sem Mannréttindadómstóll Evrópu lagði til grundvallar í fyrra máli Egils Einarssonar gegn Íslandi. Þar kemur fram að þótt ekki hafi verið fallist á að „nauðgari“ sé gildisdómur útiloki dómstóllinn ekki að það gæti verið gildisdómur við einhverjar aðstæður og það sé þá ríkisins að meta það, 

Hvað á dómstóllinn eiginlega við með þessu? Við hvaða aðstæður gæti  það verið gildisdómur að kalla einhvern nauðgara? Til þess að átta sig á því er gott að skoða ákvörðun dómstólsins í máli Minellis gegn Sviss.

Þegar minkur gætir hænsnahúss

Minelli var þekktur lögmaður, hafði einnig starfað sem blaðamaður og tekið virkan þátt í pólitískri umræðu. Vikublað birti umfjöllun sem skilja mátti svo að hann væri ekki allur þar sem hann væri séður. Fyrirsögin á greininni var „Wenn der alte Wilderer zum Jagdaufseher wird“ eða „Þegar veiðiþjófur gerist veiðieftirlitsmaður“. Minelli taldi þessi ummæli meiðandi en varð ekkert ágengt fyrir svissnesskum dómstólum svo hann sneri sér til Mannréttindadómstóls Evrópu.

Nú er „veiðiþjófur“ hlutlægt orð og veiðþjófnaður refsivert brot. Það er ekki smekksatriði hvort maður telur mann veiðiþjóf eða ekki – ef á annað borð liggja fyrr sönnunargögn er hægt að skera úr um það. Samt sem áður héldu svissneskir dómstólar því fram að þetta væri gildisdómur. Mannréttindadómstóllinn vísaði málinu frá en engu að síður er vert að skoða rök svissneskra dómstóla fyrir því að meta fyrirsögnina sem gildisdóm.

Ástæðan er sú að „Wenn der alte Wilderer zum Jagdaufseher wird“ er fast orðatiltæki, svipað og í ensku „to let the fox guard the henhouse“. Minelli hafði ekki verið sakaður um veiðiþjófnað og þar sem um þekkt myndmál var að ræða var ekki hætta á að lesendur skildu fyrirsögnina bókstaflega. Það sem lesendur máttu skilja var að Minelli væri tvöfaldur í roðinu. Og það er gildisdómur.

Ríkin hafa svigrúm til mats en eru ekki einráð

Það er ýmislegt í menningunni sem fulltrúar ríkisvaldsins eru hæfari til að meta en alþjóðlegir dómstólar, eins og annar dómaranna sem skilaði sératkvæði í máli Egils Einarssonar bendir sérstaklega á. Til dæmis getur ríkið verið færara um að meta hverskonar skop telst móðgandi og hvaða líkur eru á að ákveðin merking sé lögð í orð. Það eru slík menningarleg atriði sem Mannréttindadómstóllinn er að vísa til þegar hann talar um að við vissar aðstæður sé ekki útilokað að ummæli um nauðgara geti verið gildisdómur og þá ríkisins að meta það.

Hvað með nauðgun eða annað kynferðisofbeldi? Er hægt að skilja það öðruvísi en bókstaflega og ætti ríkið í einhverjum tilvikum að fá að meta það?

Hvað með þetta?

(Tekið héðan)

Ef kaupmenn hefðu nú tekið upp á því að stefna Vísi fyrir að birta meiðyrði hefðu íslenskir dómstólar vonandi aftekið það með öllu að hægt væri að skilja þetta bókstaflega. Ég leyfi mér að fullyrða að MDE hefði látið ríkinu eftir að meta það.

Hversvegna lét Mannréttindadómstóllinn Íslenska ríkinu ekki eftir að meta það sjálft hvort „rapist bastard“ er gildisdómur eða ekki? Sennilega vegna þess að ríkið gat ekki fært nein trúverðug rök fyrir því mati sínu að það væri gildisdómur í þessu samhengi. Svissneskir dómstólar höfðu gefið einfalda, trúverðuga skýringu á því hversvegna ekki var hægt að líta á fyrirsögnina í málli Minellis sem meiðyrði. Íslenska ríkið hafði engin slík rök.

Mynd: Pixabay