Allt of oft hegða yfirmenn stofnana sér eins og upplýsingar sem varða almenning séu einkaeign stofnunarinnar eða að upplýsingagjöf sé háð geðþótta yfirmanna. Nýlegt dæmi um þetta er sú undarlega ákvörðun Páleyjar Borgþórsdóttur, lögreglustjóra í Vestmannaeyjum, að gefa fjölmiðlum engar upplýsingar um það hvort kynferðisbrot á Þjóðhátíð hafi verið tilkynnt.
Tvennskonar rök hafa verið nefnd fyrir þessari ákvörðun:
1. Að stofnanir séu bundnar þagnarskyldu.
2. Að umfjöllun sé brotaþolum þungbær.
Hvorug þessara raka halda vatni.
Sú hugmynd að það sé brot gegn þagnarskyldu að upplýsa almenning um atriði á borð við fjölda tilkynninga um kynferðisbrot, hvort upp hafi komið óvenjuleg mál, grunur um sérlega hrottalegar árásir eða mál þar sem gerendur eru margir, er ekki í neinu samræmi við það hvernig lögreglulög og lög um þagnarskyldu ríkisstarfsmanna hafa hingað til verið túlkuð. Það eru ekki einkahagsmunir brotaþola hversu mörg brot eru tilkynnt á tilteknum stað og tíma eða hvort einhver hafi verið handtekinn vegna þess, það eru hinsvegar augljósir hagsmunir almennings að fá skýra mynd af ástandinu. Eða ætlar lögreglustjórinn kannski að halda því fram að embætti hennar hafi hingað til brotið gegn þagnarskyldu um hverja einustu verslunarmannahelgi og að slík brot séu nú framin í öllum öðrum lögregluumdæmum?
Ég efast ekki um að það geti verið brotaþolum þungbært að sjá umfjöllun um kynferðisbrot í fjölmiðlum. Það sama gildir auðvitað um aðra málaflokka. Með sömu rökum ætti lögreglan því að leyna fjölmiða upplýsingum um aðrar líkamsárásir, tilraunir til manndráps og morð, þar sem fréttir af þeim yrðu aðstandendum hins látna þungbærar. Leiða má líkur að því að upplýsingar um fleiri alvarlega glæpi, svosem innbrot á heimili og vopnuð rán, geti reynst þolendum erfið, að ekki sé minnst á fíkniefnabrot. Ættu þá öll afbrot sem geta komið illa við þolendur að liggja í þagnargildi?
Ennþá freklegra er þó það tiltæki lögreglustjórans að beina þeim tilmælum til heilbrigðisstarfsfólks að gefa heldur engar upplýsingar. Það hefur ekkert staðið á starfsfólki sjúkrahúsa hingað til að að gefa upplýsingar um fjölda slasaðra og sýktra og oft fá fjölmiðlar upplýsingar um það hvort fólk sem lent hefur í slysum eða orðið fyrir hættulegum líkamsárásum sé í lífshættu eða alvarlega slasað. Ekki hafa komið fram neinar efasemdir um það fyrr að heilbrigðisstarfsfólki sé það heimilt og það er sannarlega ekki í verkahring lögreglu að skilgreina hvað felst í þagnarskyldu starfsfólks annarra stofnana, hvað þá að gefa heilbrigðisstarfsfólki slík fyrirmæli eða beina til þess tilmælum. Líklegt er að með þessum afskiptum hafi lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum farið út fyrir valdsvið sitt enda langsótt að þau falli undir almennt samstarf stofnana um löggæslu og forvarnir.
Þegar lögreglan tekur upp á því að reyna að stjórna öðrum stofnunum samfélagsins, er það í anda alræðis en ekki lýðræðis. Þótt þetta dæmi sem slíkt sé ekki merki um að lýðræðinu sé stór hætta búin, hlýtur málið að vekja spurningar um það hversu langt lögreglan megi ganga í því að túlka þau lög sem ná yfir aðrar stofnanir samfélagsins og beina til þeirra tilmælum um vinnulag eða samskipti við fjölmiðla. Það væri því áhugavert að heyra álit umboðsmanns Alþingis á þessu uppátæki.
Mynd: Nick Youngson, Creative Commons