Þann 31. mars sl. féll í héraðsdómi Reykjaness sýknudómur í nauðgunarmáli, málsnr. S-2449/2021. Dómurinn vakti nokkra umræðu í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Einkum vakti reiði það mat dómara að þar sem ekki hefði fengist nein lýsing á því hvernig ákærði hefði fært brotaþola úr uppháum leðurbuxum væri sönnunarstaða ákæruvaldsins erfið. Reyndar taldi dómari upp fleiri atriði sem hann taldi veikja sönnun ákæruvaldins en þessi ummæli hafa vakið mesta hneykslan.

Nú hefur ákæruvaldið ákveðið að áfrýja ekki dómnum og má búast við stefkum viðbrögðum við því. Ég hef ekki fylgst með umræðunni og ekki lesið dóminn fyrr en nú. Það sem mér finnst áhugaverðast við hann er ótrúlegt klúður lögreglu í málinu.

Fatnaður sem hefur sönnunargildi hvorki lagður fram né myndaður

Í fyrsta lagi voru umræddar leðurbuxur ekki lagðar fram og ekki einu sinni mynd af þeim. Lögreglan hefur oft verið gagnrýnd fyrir að spyrja brotaþola út í klæðaburð þeirra þegar kynferðisbrot var framið, og látið að því liggja að þar með sé lögreglan að gefa til kynna að léttklæddar konur geti sjálfum sér um kennt. Sú túlkun byggist á vísvitandi viðleitni til að afvegaleiða umræðuna. Að sjálfsögðu þurfa rannsakendur að fá mynd af því hvernig verknaðurinn fór fram og það er augljóslega auðveldara að ná konu úr blúndunærbuxum en skírlífisbelti. Það réttlætir vitaskuld ekki brotið.

Þegar meta á hvernig sakborningur gæti hafa borið sig að við ofbeldisfulla nauðgun getur auðvitað skipt máli úr hvaða efni buxur brotaþola voru, hvort þær voru með rennilás eða ekki og ef svo er hvort rennilásinn er staðsettur að framan eða á hlið. Þegar um þröngar flíkur er að ræða getur teygjanleiki efnisins ráðið úrlitum um það hversu mikil átök þarf til að brotamaður komi fram vilja sínum.

Í þessu máli lýsti brotaþoli því að hún hefði verið afklædd gegn vilja sínum, hún hafi grátið og streist á móti. Þegar verknaðarlýsing er á þá leið er með ólíkindum að fatnaður skuli ekki vera meðal sönnunargagna.

Smellið hér til að skoða Facebooksíðu Hlítar

Lak úr öðru máli lagt fram sem sönnunargagn

Það sem verra er: lögreglan týndi mikilvægu sönnunargagni, þ.e. laki af rúmi sakbornings. Ekki nóg með það heldur var lagt fram sem sönnunargagn allt annað lak sem virðist tilheyra öðru máli. Í málinu lágu semsagt fyrir myndir úr herbergi sakbornings þar sem skjannahvítt lak er á rúminu en sönnunargögnin sem voru lögð fram voru snjáð og skítugt lak ásamt myndum af því sama óhreina laki. Lögreglumaður sem lagði hald á hvíta lakið taldi lakið sem lagt var fram í málinu ekki það sama og hann hafði séð en kunni engar skýringar á því hvað hefði gerst.

Ýmsar spurningar vakna og frekar óþægilegar. Er rétta lakið „sönnunargagn“ í hinu málinu? Tóku Geir og Grani rétta lakið með sér heim og þvoðu það? Var leitað að rétta lakinu meðal málsgagna þess máls sem óhreina lakið virðist tilheyra?

Vonandi hefur lögreglan gripið til ráðstafana til að koma í veg fyrir að svona klúður endurtaki sig en málið vekur óneitanega spurningu um það hversu oft þetta hafi gerst áður.

Mynd: © Picsfive | Dreamstime.com