Í síðustu viku vann blaðakonan Erla Hlynsdóttir mál gegn íslenska ríkinu fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu. Þetta er í þriðja sinn sem Erla vinnur mál sem snertir mörk tjáningarfrelsis og meiðyrða fyrir MDE og Björk Eiðsdóttir vann sambærilegt mál árið 2012.

Þetta nýjasta mál Erlu er 16. málið gegn íslenska ríkinu sem Mannréttindadómstóll Evrópu tekur til meðferðar og það 13. sem íslenska ríkið tapar. (Hér má sjá tölur frá 2014.) Tornæmi Hæstaréttar fer nú að verða dálítið þreytandi.

SÖMU DÓMARAR HVAÐ EFTIR ANNAÐ

Það vekur athygli að í þeim málum sem Hæstiréttur hefur að mati MDE brotið gegn 10. grein Mannréttindasáttmála Evrópu (sem varðar tjáningarfrelsið) hafa sömu dómarar hvað eftir annað komist að rangri niðurstöðu.

Í Strawberries-máli Bjarkar Eiðsdóttur (mars 2009) dæmdu Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson hana til greiðslu miskabóta. Það mál vann Björk svo fyrir MDE í júlí 2012. Erla fór einnig með Strawberries málið fyrir Mannréttindadómstólinn. Hún hafði tapað meiðyrðamáli í héraði 2008 en Hæstiréttur fékkst ekki einu sinni til að taka málið fyrir á þeirri forsendu að fjárhæð sektar náði ekki áfrýjunarmörkum. Fróðlegt væri að vita hver ber ábyrgð á þeirri ákvörðun að synja Erlu um áfrýjunarleyfi. Mannréttindadómstóllinn var ósammála Hæstarétti um það, eins og svo margt annað, og komst að þeirri niðurstöðu í júlí 2012 að íslenska ríkið hefði brotið gegn 10. grein Mannréttindasáttmála Evrópu.

Í Byrgismálinu (febúar 2010) voru það hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson sem töldu Erlu Hlynsdóttur seka um ærumeiðingar og dæmdu hana til greiðslu miskabóta vegna þess. Erla fór með málið fyrir MDE og féll dómur Erlu í hag í október 2014.

Í Kókaínmálinu (mars 2010) voru það svo Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson sem dæmdu Erlu Hlynsdóttur og Sigurjón Egilsson til greiðslu miskabóta, en það er þriðja málið sem Erla vinnur fyrir MDE.

SVÖR INNANRÍKISRÁÐUNEYTISINS

Í ágætu viðtali við Gunnar Inga Jóhannsson, í Vikulokunum síðasta laugardag, koma fram áhugaverðir fletir á málinu. Gunnar Ingi rak öll þessi fjögur mál fyrir MDE og í viðtalinu fjallar hann um afstöðu innanríkisráðuneytisins til þessara mála. Umfjöllunin hefst á mín 37:30.

Í viðtalinu segir Gunnar Ingi meðal annars frá því að innanríkisráðuneytið hafnaði beiðni um fjárhagslega aðstoð svo Erla Hlynsdóttir gæti sótt mál fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu. Svarið var að það væru engir peningar til. Á sama tíma var ráðuneytið að ausa fé í lögfræðiráðgjöf og almannatengla vegna lekamálsins. Má í því sambandi rifja upp að aðstoðarmaður þáverandi innanríkisráðherra krafðist fangelsisrefsingar yfir blaðamönnum vegna umfjöllunar sinnar um lekamálið. Því máli lauk þó með sátt.

Til þess að bæta enn á ömurðina hafnaði innanríkisráðuneytið sáttatilboðum með skætingi en svörin voru á þá leið að MDE myndi hvort sem er áreiðanlega dæma málin ríkinu í vil. Hér má sjá úttekt Helga Seljan á því sem fram kemur í viðtalinu við Gunnar Inga.

ER ÞÖRF Á EFTIRLITI MEÐ STÖRFUM HÆSTARÉTTAR?

Því miður er það ekki aðeins í málum sem varða tjáningarfrelsið sem Hæstiréttur á það til að dæma að eigin geðþótta. Svo sem sjá má af myndinni hér að neðan hefur Mannréttindadómstóllinn einnig átalið íslenska ríkið fyrir brot gegn persónufrelsi, réttlátri málsmeðferð, félagafrelsi og eignarrétti. Eru þá ótalin þau mál sem ríkið hefur tapað fyrir EFTA dómstólnum.

Hugmyndin um þrískiptingu ríkisvaldsins er öðrum þræði sú að handhafar valdþáttanna þriggja hafi eftirlit hver með annars störfum. Hvorki Alþingi né framkvæmdarvaldið hafa þó nein ráð til þess að hrinda rangri dómaframkvæmd Hæstaréttar. Þar að auki hefur innanríkisráðuneytið tekið að sér að verja úrskurði Hæstaréttar og það með rökum sem virðast heimatilbúin, að minnsta kosti koma þau ekki fram í dómunum sjálfum.

Þegar Mannréttindadómstóll Evrópu kemst hvað eftir annað að þeirri niðurstöðu að Hæstiréttur felli ranga dóma hljótum við að þurfa að íhuga aðrar leiðir til að veita Hæstarétti aðhald. Það eru nefnilega aðeins fá mál sem hægt er að fara með fyrir fjölþjóðlega dómstóla og við höfum enga ástæðu til að ætla að Hæstiréttur vandi sig betur í þeim málum þar sem hann hefur endanlegt úrskurðarvald.

Opnumynd: PxHere