Guðni Th. Jóhannesson, forseti lýðveldisins, hefur komist að þeirri niðurstöðu að löglega hafi verið staðið að atkvæðagreiðslu Alþingis um skipun dómara við Landsrétt. Þetta byggir hann á því að enginn þingmaður hafi mótmælt því fyrirkomulagi að kjósa um þá alla 15 í einum pakka í stað þess að kjósa um hvern fyrir sig eins og lög gera ráð fyrir.

Samkvæmt þessu er Alþingi hafið yfir lög.  Svo fremi sem er samstaða um það í þinginu – eða öllu heldur svo fremi sem enginn hreyfir andmælum, er Alþingi heimilt að hunsa lög. Þetta er alveg ný regla og vandséð á hvaða réttarheimild hún byggir. Ekki á stjórnarskrá. Ekki á settum lögum. Ekki á dómafordæmum. Ekki á venju – það er engin venja fyrir því að Alþingi megi brjóta lög þótt það megi hagræða fyrirkomulagi við afgreiðslu mála þegar engin lög mæla gegn því. Þessi regla er hvorki komin frá Alþingi né leidd af túlkun dómstóla á lögum, heldur virðist hún eiga sér uppruna í hugarheimi Helga Bernódussonar, skrifstofustjóra Alþingis.

Í yfirlýsingu sem forsetinn sendi frá sér vegna staðfestingar hans á þessari umdeildu skipun er sú skýring gefin að það sé þingvenja að taka saman marga töluliði eða margar greinar í þingskjali þegar ljóst þyki að þingmenn muni greiða atkvæði á sama veg um þá alla. Þótt slík venja hafi tíðkast í öðrum málum er til staðar skýrt lagaákvæði um verklag í þessu sérstaka tilviki. Lög eru æðri réttarheimild en venjur, það eru því lögin en ekki hefðin sem eiga að gilda í þessu máli.

Enda þótt verklagsvenjur Alþingis hefðu lagagildi væri þetta samt lögbrot því hér er bæði um að ræða sérlög um dómstóla sem hafa forgang umfram almennari lög, auk þess sem þetta eru ný lög, en ef ný lög samræmast ekki eldri lögum, þá eru það nýju lögin sem gilda.

Þegar ráðherra gerir tillögu um skipun í embætti dómara við Landsrétt í fyrsta sinn skal hann leggja tillögu sína um hverja skipun fyrir Alþingi til samþykktar. Samþykki Alþingi tillögur ráðherra skal hann senda þær forseta Íslands sem skipar í embættin, sbr. 21. gr. Samþykki Alþingi ekki tillögu ráðherra um tiltekna skipun skal ráðherra leggja nýja tillögu fyrir Alþingi til samþykktar.

Þannig hljóðar 2. mgr. IV. gr. bráðabirgðaákvæða dómstólalaga nr. 50/2016 (sem taka gildi um næstu áramót). Þetta er ekkert óskýrt. Þetta er ekkert flókið. Það er ekki við því að búast að þingmenn hafi almennt áttað sig á þessu enda ekki hægt að ætlast til þess að þeir kunni lögin utan að, en merking þessa lagaákvæðis dylst ekki þeim sem á annað borð les það.

Mynd: Cicero85, Wikimedia