Viðtal við Hafþór Sævarsson, son Sævars Ciesielski

Í júlí síðastliðnum skilaði settur ríkissaksóknari, Davíð Þór Björgvinsson, áliti sínu á beiðni um endurupptöku Guðmundar og Geirfinnsmála. Niðurstaða hans var sú að rök séu fyrir endurupptöku í málum Sævars Ciesielski, Tryggva Rúnars Leifssonar, Alberts Klahn Skaftasonar og Guðjóns Skarphéðinssonar.

Forsögu málsins kannast flestir við. Um er að ræða dóma vegna tveggja mannshvarfa árin 1974 og 1975 og eru þau í daglegu tali kölluð Guðmundar- og Geirfinnsmál. Engin tengsl voru milli Guðmundar og Geirfinns, lík þeirra hafa aldrei fundist né heldur neinar sannanir fyrir því að þeir hafi verið myrtir. Engu að síður voru sex manns sakfelldir fyrir manndráp eða aðild að manndrápi.

Sævar Ciesielski lést í júlí 2011. Hann hafði þá tvívegis krafist upptöku Guðmundar- og Geirfinnsmála án árangurs og var alla tíð ósáttur við þá niðurstöðu. Að Sævari látnum ákváðu Hafþór Sævarsson og systkini hans að halda baráttunni áfram og settu sig í samband við innanríkisráðherra til þess að kanna möguleikana í stöðunni. Jafnframt óskuðu Erla Bolladóttir, Guðjón Skarphéðinsson, Albert Klahn Skaftason og aðstandendur Tryggva Rúnars Leifssonar eftir endurupptöku.

Eva Hauksdóttir ræddi við Hafþór Sævarsson um uppvöxt hans og baráttuna við kerfið.

Við þekkjum flest eitthvað til Guðmundar- og Geirfinnsmála en hvernig var pabbi þinn sem heimilisfaðir?

Ég ólst upp með pabba til 6-7 ára aldurs og á góðar minningar um hann frá þeim tíma. Hann var mikið fyrir að baka og stundum þegar ég kom heim úr skólanum angaði heimilið af nýbökuðu brauði. Hann endurraðaði húsgögnunum reglulega, mér fannst mjög skemmtilegt að koma heim á nýtt heimili. Pabbi hafði líka mikinn áhuga á að fikta í biluðum VHS tækjum og tölvum og koma þeim í lag. Ég hafði mjög gaman að því að fylgjast með þó ég hafi ekki haft þolinmæðina á þeim aldri til þess að læra af honum. Okkar helsta áhugamál var að byggja legó saman og þar hélt ég fullkominni einbeitingu. Sama má segja um PC-tölvuleikina sem við lékum okkur í.

Vissir þú alltaf að faðir þinn hafði verið sakfelldur fyrir manndráp eða manstu eftir að þér hafi verið sagt frá því?

Mér finnst ég alltaf hafa vitað að pabbi hafi orðið fyrir óréttlæti. Ég man ekki eftir neinni sérstakri stund þar sem þetta var útskýrt fyrir mér, mér finnst eins og ég hafi fæðst með þá vitneskju. Atburðarásin skýrðist eftir því sem ég öðlaðist aldur og þroska til að skilja þessi mál.

Fyrir mér var pabbi náttúrulega bara góður pabbi, en ég ólst líka upp í skugga Guðmundar- og Geirfinnsmálanna. Jafnvel þótt foreldrar mínir hefðu viljað vernda mig fyrir vitneskjunni um fortíðina hefði það ekkert verið hægt. Fyrstu árin fluttum við mikið. Við áttum oft mjög erfitt með að finna íbúð, það kom fyrir að okkur var neitað um lausar íbúðir og einu sinni ætlaði eigandinn að henda okkur út þegar hann áttaði sig á því hver pabbi var en það gekk nú ekki eftir. Hann átti líka oft erfitt með að finna vinnu. Einu sinni var hann í málningarvinnu og var rekinn þaðan eftir að veski var stolið í nágrenni við hann. Hann dó þó ekki ráðalaus og komst upp á lag með að smíða og slípa parkett.

Hafþór með foreldrum sínum, þeim Sævari Ciesielsky og Þórunni Hauksdóttur

Þórdís Hauksdóttir, ásamt Hafþóri og Sigurþóri, yngri bróður hans

Framkoma fólks hér á Íslandi gat verið grimmileg og það bitnaði á fjölskyldunni allri. Því var tekin sú ákvörðun að flytja til Boulder, Colorado í Bandaríkjunum þegar ég var fimm ára og við bjuggum þar í tæpt ár.  Við vorum mjög hamingjusöm þar. Pabbi vann sem smiður og við bræðurnir fengum smíðasett fyrir krakka sem við höfðum mikið dálæti á. Eitthvað klikkaði svo með landsvistarleyfi og því þurftum við að fara aftur heim til Íslands.

Þegar heim var komið brann helst á pabba að hreinsa nafn sitt. Hann þoldi illa að fordómar í hans garð bitnuðu á fjölskyldunni og var staðráðinn í að fá málin tekin upp aftur.

Varðst þú, sem barn, eitthvað var við þá baráttu?

Já, þessi barátta tók mjög mikið á pabba og hans aðstandendur. Hann eyddi öllum sínum kröftum í þetta mál og fékk síðan til liðs við sig Ragnar Aðalsteinsson lögmann en kerfið var ekkert að auðvelda honum þetta. Ragnar Hall, sem var settur ríkissaksóknari í Guðmundar- og Geirfinnsmálum, átti að skila umsögn til Hæstaréttar með mati á því hvort taka ætti málin upp aftur eða ekki. Hann tjáði pabba að gagnabeiðni hans væri í vinnslu og að það styttist óðum í afhendingu gagnanna. En afhendingin dróst og dróst og loks; mörgum mánuðum síðar; þóttist Ragnar Hall halda að pabbi ætti ekki rétt á að fá þessi gögn.

Ragnar var mjög jákvæður í framkomu við pabba og það gaf honum von um að hann myndi vinna fagmannlega að skýrslu til Hæstaréttar en þegar hann skilaði loks umsögninni var hún bæði mjög stutt og illa unnin. Við erum að tala um skjal sem taldi örfáar síður en innihélt samt sem áður nokkrar staðreyndavillur. Mamma og pabbi upplifðu þetta sem svo að Ragnar væri bara á launum til þess að gefa skít í þetta mál. Þessi neikvæða umsögn til Hæstaréttar varð pabba mikið áfall. Hann byrjaði að drekka meira en góðu hófi gegnir og mamma vildi ekki ala okkur bræðurna upp á þann veg, svo þau slitu samvistum.

Hvernig var sambandi þínu við föður þinn háttað eftir að foreldrar þínir slitu samvistum?

Pabbi höndlaði þennan nýja veruleika illa. En hann náði sér þó fljótt á strik aftur og hætti að drekka.  Við bræðurnir heimsóttum hann oft og við ferðuðumst saman. Það fór þó að halla undir fæti þegar Hæstiréttur hafnaði seinni endurupptökubeiðninni hans árið 1999. Næstu árin einkenndust af miklum drykkjutúrum en inn á milli fór hann í meðferð og gat stundum haldið sér edrú í dágóðan tíma.

Ég man eftir heimsóknum til pabba á meðan ég stundaði nám við MR, árið 2006 eða 2007. Ég kíkti stundum heim til hans eftir skóla og við spiluðum saman á gítar, blús eða hvað sem okkur datt í hug. Þá var pabbi í góðu standi, einbeitti sér mikið að myndlist og eldaði handa mér góðan mat. Ég man þó að hann átti mjög erfitt með svefn á þessum tíma. Hann skrifaði niður í dagbók hversu mikið hann svaf á næturnar því hann náði oftast bara nokkurra klukkutíma svefni í einu og var að leggja sig allan fram um að reyna að koma reglu á svefninn. Nokkrum árum síðar var hann búinn að missa heilsuna og orðinn heimilislaus. Hann flutti síðar til Danmerkur, þar sem hann lést árið 2011.

Hefur forsaga föður þíns einhver áhrif á líf þitt í dag?
Áreiðanlega að miklu leyti. Ég hefði sjálfsagt ekki eins mikinn áhuga á mannréttindum ef ég hefði staðið algerlega utan við þetta.

Þetta hefur vissulega tekið á, en í dag er ég búinn að takast á við tilfinningahlutann af þessu öllu, að ég held í það minnsta. Það sem eftir stendur er löngun til að stuðla að því að eitthvað gott leiði af þessu. Þetta eru ljót mál en það yrði samt fallegt ef yrði hægt að nýta mistökin til að skapa vandaðra réttarkerfi. Það er einmitt einn hvatinn að því að við systkinin ákváðum að fara fram á endurupptöku.

Sævar var listhneigður og málaði sjálfur

Nú hafði faðir þinn reynt að fá málin tekin upp án árangurs, hvað varð til þess að þið systkinin tölduð forsendur fyrir því að halda baráttunni áfram?

Þessi mál hafa lengi legið eins og mara á þjóðinni. Reiðin sem hafði verið kraumandi í samfélaginu náði eiginlega suðupunkti með fráfalli pabba, 2011. Það voru mun fleiri en við sem álitu ótækt að málið dæi bara með honum og meðal annars fór af stað undirskriftasöfnun á netinu með áskorun um endurupptöku.

Eftir að pabbi lést, sendi ég innanríkisráðherra formlegt bréf og stakk upp á að stofnuð yrði rannsóknarnefnd sem tæki ákvörðun um það hvort skilyrði væru fyrir endurupptöku. Niðurstaðan varð sú að í stað rannsóknarnefndar skipaði Ögmundur Jónasson, þáverandi innanríkisráðherra, starfshóp sem gat óskað eftir ýmsum gögnum og tekið skýrslur af þeim sem voru fúsir til að tjá sig. Við það teymi bættust síðan réttarsálfræðingar, m.a. Gísli Guðjónsson. Sú vinna varð til þess að fram komu gögn sem ekki höfðu legið fyrir áður. Og það sem mestu máĺi skiptir fyrir endurupptökuna var að þar var unnið heildstætt mat á hverjum sakborningi fyrir sig og mat lagt á hvort vitnisburðir þeirra væru marktækir. Niðurstaðan var sú að vitnisburðirnir og þar með meintar játningar væru ómarktækar.

Það hefur komið fram að aðstandendur Sævars séu ósáttir við rök Hæstaréttar fyrir höfnun, hvaða rök voru það?

Sævar og Hafþór

Pabbi fór tvisvar fram á endurupptöku og Hæstiréttur hafnaði í bæði skiptin. Endurupptöku var fyrst hafnað árið 1997, rök réttarins voru aðallega á þá leið að engin ný gögn lægju fyrir sem gætu upplýst málið. Sem er kaldhæðnislegt, þar sem faðir minn var sakfelldur án neinna sönnunargagna, fyrir utan ómarktæka vitnisburði sakborninga og nokkurra annarra. Ekkert lík, ekkert morðvopn, engin áþreifanleg sönnunargögn. Og þó var alls konar dót, hnífur, teppi, áklæði o.fl. sent til Þýskalands, til sýna fram á eitthvað vafasamt. Ekkert kom út úr þvi. Það er að segja; maður er sakfelldur án neinna eiginlegra sönnunargagna og síðan neitað um endurupptöku þar sem engin ný gögn hafi komið fram. Hæstiréttur hélt því fram að íslensk lög leyfðu ekki annað. Ragnar Aðalsteinsson færði sannfærandi rök fyrir því, m.a. út frá danskri dómaframkvæmd, að hæglega hefði Hæstiréttur getað heimilað endurupptöku; slíkt væri raunar í samræmi við almennt viðurkenndar aðferðir lögfræðinnar.

Þau ,,sönnunargögn” sem sakfellingin byggði á eru einungis vitnisburðir sem voru fengnir við afar sérstakar aðstæður, svo vægt sé til orða tekið. Pabbi var pyntaður á margvíslegan hátt. Hann var í einangrun í um tvö ár. Svo langvarandi einangrunarvist þekkist varla í vestrænum heimi. Kvalarar pabba nýttu sér veikleika hans, kaffærðu hann til dæmis í vaski þegar þeir komust að því að hann væri vatnshræddur. Þá var hann hafður í fótjárnum í einhverjar vikur, ljós logaði í pínulitla klefanum í meira en hálft ár, dag og nótt. Honum var meinaður aðgangur að skriffærum og gat því ekki skráð allt þetta niður fyrr en síðar. 

Skýrsla starfshóps innanríkisráðherra staðfestir öll þessi atriði og fleira sem er ámælisvert við meðferðina á sakborningum. Það voru líka öll formsatriði brotin. Til eru ófá dæmi þess að eftir margra klukkutíma yfirheyrslu hafi skýrsla verið skrifuð eftir á, stundum aðeins hálf blaðsíða á lengd og jafnvel ekki undirrituð af sakborningi, hvað þá að verjendur væru viðstaddir. Þetta er síðan notað sem veigamestu sönnunargögnin.

Hæstiréttur réttlætti að lög hefðu verið brotin á sakborningum með þeim rökum að þetta væri nú einu sinni stærsta sakamál lýðveldistímans. Ég vil ekki samþykkja þann mælikvarða, umfang mála getur ekki réttlætt mannréttindabrot.

Eitt atriði í rökstuðningi Hæstaréttar vakti sérstaka athygli mína. Hæstiréttur hafði gengið út frá því, í dómnum árið 1980, að pabbi hafi ekki dregið játningar sínar til baka fyrr en í byrjun árs árið 1977. Í endurupptökubeiðninni færðu pabbi og Ragnar rök fyrir því að pabbi hefði dregið meinta játningu sína til baka strax í upphafi Guðmundarmálsins. Þeir tefldu fram bréfi frá sjálfum dómarafulltrúanum, Erni Höskuldssyni, sem lagt var fram í þinghaldi í janúar árið 1976, því til stuðnings.

Í þessu bréfi Arnar til Sakadóms segir: „Sævar Marinó reyndi í þinghaldi hinn 11. janúar [árið 1976] að bera fyrir sig að hann hefði verið þvingaður til þess að játa á sig sakir í „Guðmundarmálinu“. Ég tók ekkert mark á framburði hans þar sem ég vissi betur, en ég var viðstaddur þegar hann skýrði fyrst frá og svo var einnig hans réttargæslumaður Jón Oddsson hrl. og á honum að vera manna best kunnugt um að framburður Sævars var rangur.“

Hæstiréttur taldi að ekki ætti að túlka þetta bréf Arnar á þann veg að pabbi hefði reynt að draga játningu sína til baka. Mér finnst ekki hægt að skilja bréfið öðruvísi en að pabbi hafi vissulega dregið játningu sína til baka; þegar maður segist hafa verið þvingaður til að játa á sig sakir þá er sá hinn sami að lýsa því yfir að hann gangist ekki við játningunni.

Bræðurnir Hafþór og Sigurþór með móður sinni á sambúðartíma þeirra Sævars

Árið 1999 synjaði Hæstiréttur svo annarri endurupptökubeiðni pabba en þá höfðu komið fram ýmis gögn sem gáfu ástæðu til að draga réttmæti játninga sakborninga í efa. Þar má nefna gögn sem sýndu fram á mikla lyfjagjöf, auk þess sem staðfest var að sakborningar höfðu verið beittir harðræði. Í þetta sinn vildi pabbi sýna fram á að um ómarktækar játningar hafi verið um að ræða og vísaði í fræðigreinar, m.a. um áhrif einangrunarvistunar á gildi játninga, því til stuðnings. Hæstiréttur svaraði því til að ekki hefði verið sýnt fram á að þessi meðferð hefði í raun haft áhrif á játningar, í þessu tilviki. Beiðninni var hafnað með þeim rökum að ekkert lægi fyrir varðandi pabba sérstaklega, ekkert sálfræðimat eða annað sérstakt mat á hans framburðum.

En hvað hefur breyst? Af hverju ætti Hæstiréttur að hafa aðra afstöðu í dag?

Ég vil hafa trú á þeim dómurum sem þar sitja i dag.

Hæstiréttur vill líka vera sjálfum sér samkvæmur, af augljósum ástæðum. Þess var getið, í svari við seinni endurupptökubeiðni pabba, að mat á framburðum hefði haft áhrif, en ekkert mat var til sérstaklega fyrir hann. Nú, eftir að pabbi lést og starfshópurinn var skipaður, eru komin fram gögn. Þar á ég við skýrslu réttarsálfræðinga sem greina meðferðina á pabba og annað sem viðkemur honum sérstaklega og samskonar mat hefur verið gert á fleiri sakborningum. Þannig jafnvel ef tregða væri fyrir því að taka þessi mál upp, þá yrði erfitt fyrir þá dómara sem sitja þar nú að brjóta í bága við rökstuðning fordæmis Hæstaréttar um þetta atriði.

Nú fæðist þú ekki fyrr en eftir þessa atburði en hvað með þá ættingja sem horfðu upp á sína nánustu lenda í þessum hremmingum? Er ekki sársaukafullt fyrir það fólk að rifja þetta allt saman upp?

Ég hef ekki talað við hvern og einn en ég veit að það er oft sársaukafullt ferli að koma sannleikanum upp á yfirborðið. Það er samt mikill misskilningur að það sé náðargjöf kerfisins til ættingja þolenda í þessum málum að tala sem minnst um þau. Þetta eru bara allt of áhugaverð mál til þess að þau gleymist eða verði þögguð niður og augljóslega er sárara að liggja undir rangri sök en að vera hreinsaður af henni. Orð fá því í raun ekki lýst hversu mikið þetta hefur tekið á fjölskyldur tengdum þessum málum.

Þótt ekki sé hægt að breyta fortíðinni skiptir samt máli fyrir þolendur í þessu máli og fjölskyldur þeirra að fá viðurkenningu á því að þeir voru beittir órétti. Auk þess er ósanngjarnt að neita þjóðinni um sannleikann. Það er óbærileg tilhugsun að þurfa að sætta sig við að búa í samfélagi sem umber réttarkerfi sem sakfellir menn án sannana og neitar að leiðrétta slíkt óréttlæti.

Það eru þannig tvær ástæður fyrir því að við viljum að málin verði endurskoðuð. Annarsvegar er þetta spurning um réttlæti fyrir sakborninga og fjölskyldur þeirra, sem hafa þurft þola mikið, og hinsvegar skiptir máli fyrir samfélagið að fá staðfestingu á því að við búum í réttarríki.

 

En hvað með ættingja Guðmundar og Geirfinns – heldurðu að þetta taki á þá?

Það er auðvitað sorglegt að vita af ættingjum Guðmundar og Geirfinns í sárum, en þótt nöfn þeirra séu auðkenni þessarra mála, þá snýst endurupptökubeiðnin sem slík ekki um þessi mannshvörf heldur um réttláta málsmeðferð.  Þarna voru mannshvörf misnotuð vegna óljósra hagsmuna og það má ekki viðgangast.

Geturðu skýrt það nánar?

Það eru uppi margar tilgátur um Geirfinnsmálið sem ég get ekki farið út í hér en það voru miklar pólitískar deilur uppi á þessum tímum sem margir telja að hafi haft áhrif á málsmeðferð. Það sem mér finnst mestu máli skipta er tvennt: Í fyrsta lagi að sakborningar voru sakfelldir á grundvelli ómarktækra játninga sem þeir höfðu dregið til baka og í öðru lagi að það er augljóst að einhverjir sem komu að rannsókninni hafi haft einbeittan brotavilja til að koma saklausum ungmennum í steininn. Það hefur greinilega verið litið á það sem ásættanlegan fórnarkostnað fyrir, eins og ég segi, einhverskonar óljósa hagsmuni.

Heldurðu að dómstólar hafi verið hlutdrægir?

Dómarar tilheyra annarri stétt en flestir sakborningar og margir fræðimenn telja að fordómar séu innbyggðir í kerfið. Það eitraða viðhorf að mannréttindi séu ekki fyrir alla þrífst ekkert bara á kommentakerfunum, heldur líka meðal æðstu ráðamanna og endurspeglast í ummælum á borð við þau að þessir menn hafi ekki verið neinir kórdrengir.Slík viðhorf má sjá víðar. Brynar Níelsson skrifaði t.d. grein um að pabbi hafði einhvern tíma hringt í hann í glasi og að hann hefði nú ekki sérstaklega tekið fram að hann væri saklaus af málunum, eins og að pabbi hefði þurft að taka það fram í hverju og einasta samtali. Þetta var rétt eftir fráfall pabba og var Brynjari til minnkunar. Þó skal þess getið að eftir starfshópurinn skilaði skýrslu sinni var Brynjar einn flutningsmanna að frumvarpi laga sem heimilar aðstandendum látinna dómþola að fara fram á endurupptöku í þessum málum. Við gefum stofnunum einkarétt á því að beita ofbeldi og það er mjög mikilvægt að það sé ekki geðþóttavald heldur að skýrar reglur gildi. Mannréttindi eru nefnilega fyrir alla, sama hvað almenningsálitið segir, en yfirvöld verða oft fyrir þrýstingi um að gefa afslátt af mannréttindum ,,óæskilega” fólksins. Ef við látum það viðgangast þá leyfum við stjórnvöldum.að brjóta lög og reglur sem býr til stórhættulegt fordæmi.

Ertu bjartsýnn á að krafa um endurupptöku verði samþykkt?

Já ég er bjartsýnn á endurupptöku því þrátt fyrir allt trúi ég einlæglega á að kerfið geti leiðrétt sjálft sig.

Bjartsýnin litast kannski einna helst af því hvað ég hef fundið fyrir miklum stuðningi alls staðar að úr samfélaginu. Önnur hver manneskja virðist eiga einhverja sögu af pabba og allir tengja sterkt við þessi mál. Íslendingum er greinilega umhugað um að þessi mistök verði leiðrétt, ég finn það mjög sterkt.

Þetta mál er prófraun á kerfið. Annaðhvort verður þetta fordæmi fyrir því að dómskerfið hafi getu og vilja til að takast á við erfið mál eða þá að þetta verður fordæmi fyrir því að dómstólar geti komist hjá því að horfast í augu við augljós og alvarleg mistök. Í mínum huga erum við komin á þann stað að kerfið verður að standast þetta próf.

***

(Myndirnar eru úr fjölskyldualbúmi og sýna Sævar M. Ciesielski, Þórdísi Hauksdóttur, Hafþór Sævarsson og yngri bróður hans Sigurþór Sævarsson.