Faðir minn lést fyrir rúmu ári og sat þá í óskiptu búi. Ég bjó heima og borgaði með mér í mat og leigu en eldri systkinin voru löngu flutt að heiman. Það eru mikil leiðindi í fjölskyldunni og nú hafa systkini mín sameinast gegn mér.

Systir mín á lykil að húsinu af því að þau voru með húsið á Airbnb þegar þau voru erlendis og hún sá þá um þrifin eftir gesti. Eftir að pabbi dó hafa systkini mín gengið inn og út eins og þeim sýnist hvort sem ég er heima eða ekki og gramsað í öllu, líka mínu persónulega dóti án þess að tlkynna komu sína eða láta vita að þau hafi verið þar. Þau afsaka þetta með því að þau eigi rétt á að fylgjast með að ég sé ekki að sóa eignum eða skemma, sem ég hef aldrei gert og þau hafa enga ástæðu til að vera með svona ásakanir. Það er ekki einu sinni eins og þetta séu nein verðmæti, aðallega bara gamalt dót. Get ég bannað þeim að koma inn á hemilið og ef þau fara ekki eftir því hvað get ég þá gert? Er það húsbrot þegar þau eru með lykil og get ég þá kært þau?

Við fengum strax leyfi til einkaskipta en skipti hafa dregist af því að við erum ekki sammála um neitt og systkini mín hafa nokkrum sinnum krafist þess að ég flytji út. Ég stefni að því að kaupa þau út og vil ekki flytja til bráðabirgða. Ég greiði leigu inn á sér bankareikning, helminginn af því sem ég borgaði heim en það var hugsað sem bæði matur og húsnæði. Ég lét þau strax vita að ég myndi gera það og finnst fáránlegt að þau séu að reyna að henda mér út því þau eru hvort sem er ekki að fara að leigja íbúðina út með öllu persónulegu dóti frá foreldrum okkar og eins ég segi þá er ekki neitt samkomulag um hvernig eigi að skipta dótinu. Ég hef gert tilboð í íbúðina en þau vilja ekki spá í það af því það kemur frá mér. Hef ég rétt til að búa í íbúðinni þar til búið er að skipta öllu eða geta þau hent mér út?

☆☆☆

1 Mega erfingjar ganga um heimili hins látna eins og það væri þeirra eigið?

Þótt systkini þín eigi tilkall til arfs þurfa þau líka að virða friðhelgi einkalífs þíns. Það er eðlilegt að erfingjar vilji hafa á hreinu hvaða eignir tilheyri búinu og það á einnig við um verðlausa hluti enda geta þeir haft tilfinningagildi. Á hinn bóginn er þetta heimili þitt og þú átt ekki að þurfa að eiga á hættu að aðrir valsi þar um í tíma og ótíma. Það er vafasamt að þú getir bannað þeim aðgang að heimilnu því þú ert væntanlega að greiða leigu fyrir eitt herbergi en ekki alla íbúðina en þú átt tvímælalaust rétt á því að fá að hafa þínar eigur og einkalíf í friði. Ég ráðlegg þér að senda þeim tölvupóst og bjóða þeim að koma á einhverjum tilteknum tíma sem hentar öllum, til að skrifa upp muni búsins og taka myndir af þeim ef þau vilja en að því loknu komi enginn nema með þínu leyfi. Ekki bara segja þetta í síma, hafðu allt skriflegt sem mögulegt er.

Strangt til tekið er það húsbrot ef einhver fer inn á heimili annarra í leyfisleysi, jafnvel þótt viðkomandi hafi greiðan aðgang að húsnæðinu og hafi einhverntíma áður átt erindi með leyfi húsráðanda. Það er samt mjög erfitt að fá lögreglu til að gera eitthvað í því þegar nánir vandamenn deila og hvað þá þegar deilan snýst um erfðamál. Ef ber engan árangur að bjóða þeim að koma á fyrirfram ákveðnum tíma þá geturðu skipt um lás, það er ekkert sem bannar það en ég myndi reyna mjúku leiðina fyrst.

Ég mæli með því að þið ljúkið skiptum sem allra fyrst. Hvert ykkar sem er getur krafist opinberra skipta. Það þýðir að utanaðkomandi skiptastjóri sér um hagsmuni búsins og stjórnar skiptunum. Þótt það sé kostnaðarsamt er það stundum eina leiðin til að ljúka skiptum.

Þú nefnir ekki hvort eru einhver föst útgjöld eða skuldir sem hvíla á búinu en ef búið er að safna upp vanskilakostnaði þá þurfið þið að grípa til ráðstafana og það strax.

2 Geta hinir erfingjarnir krafist þess að sá sem býr á heimilinu flytji?

Aðeins makar geta fengið leyfi til setu í óskiptu búi. Engu að síður hafa leigjendur rétt samkvæmt húsaleigulögum og þar sem þú hefur greitt foreldrum þínum leigu helst sá réttur á meðan þið hafið ekki óskað eftir opinberum skiptum. Systkini þín geta því ekki fylgt eftir kröfu sinni um að þú flytjir.

Ef þið óskið opinberra skipta kemur það í hlut skiptastjóra að segja upp leigunni með löglegum fyrirvara eða gera við þig formlegan samning. Líklegast er að skiptastjóri færi þá leið þar sem það eru hagsmunir búsins að fá leigutekjur. Þú getur samt reiknað með að skiptastjóri krefjist þess að þú greiðir leigu miðað við stærð og ástand íbúðarinnar en ekki eins og þú sért að borga fyrir herbergi hjá foreldrum. Það er líka skiptastjóri sem tekur endanlega afstöðu til tilboða í eignina (þótt tilboð séu að sjálfsögðu borin undir erfingja) og skiptastjóri getur ekki hlustað á rök eins og þau að systkini þín vilji ekki tilboð ef það kemur frá þér. Skiptastjóri á að hugsa um fjárhagslega hagsmuni búsins og ef þú kemur með sanngjarnt tilboð þá geta þau ekki blokkað það á þeirri forsendu.