Margir búa í ósamþykktu húsnæði. Má það og þarf ég leyfi til að breyta bílskúr í íbúð ef það hefur engin áhrif á útlit bílskúrsins utan frá?

☆☆☆

Það er ekki bannað að búa í ósamþykktu húsnæði. Það er heldur ekki bannað að leigja það eða selja það en ef þú ætlar að skrá bílskúrinn sem íbúðarhúsnæði þá þarftu leyfi og breytingarnar þurfa að uppfylla skilyrði byggingarreglugerðar. Það getur skipt máli hvort íbúð er samþykkt eða ekki því það getur haft áhrif á fasteignamat og einni á lántökurétt þess sem vill kaupa hana. Ef mikið vantar upp á að húsnæðið uppfylli skilyrðin getur það einnig haft þau áhrif að leigjandi fái ekki húsaleigubætur.

Það hefur í sjálfu sér ekki aðrar afleiðingar þótt þú setjir klósett og eldhússinnréttingu í bílskúr við einbýlishús, svo fremi sem þær framkvæmdir hafa ekki áhrif á nágrannana. Ef þú gerir það skaltu gæta þess vel að gera grein fyrir því að íbúðin sé ósamþykkt ef þú ákveður að leigja hana eða selja, annars getur fallið á þig skaðabótaskylda.

Það er mun vafasamara að innrétta íbúð í bílskúr við fjöleignarhús. Í fjöleignarhúsum gilda stundum reglur um afnot séreigna og þú þarft að hafa í huga sjónarmið nábýlisréttar, t.d. aðgang að sorptunnum ofl. sem getur haft áhrif fyrir nágranna.