Móðir okkar situr í óskiptu búi. Eftir að faðir okkar lést keypti hún sumarbústað fyrir lífeyri sem hún fékk eftir hann. Við höfum litið á sumarbústaðinn sem hennar séreign. Nú er hún að tala um að færa bústaðinn á nafn bróður míns. Má hún það eða á hann að tilheyra búinu?

☆☆☆

Er bústaðurinn séreign?

Ef móðir þín hefur keypt bústaðinn með peningum sem hún fékk fyrir séreign þá er hann séreign. Ef hún hefur keypt hann fyrir fé sem tilheyrir búinu þá tilheyrir hann búinu. Hér skiptir máli hvort er um að ræða makalífeyri eða viðbótarlífeyrissparnað sem rennur til bæði maka og barna.

Væntanlega er þessi lífeyrir séreign móður þinnar, því annars hefði honum verið skipt strax eftir andlát, óháð því hvort hún situr í óskiptu búið eða ekki. Þá reynir á hvort hún hefur haldið því fé aðgreindu frá fjármununm búsins. T.d. hvort hún hefur varðveitt peningana á sérstökum bankareikningi. Ef hún hefur lagt þessa peninga inn á reikning sem tilheyrir búinu og er notaður í daglegan heimilsrekstur, þá rennur eignin til búsins. Það virðist ekki vera uppi ágreiningur um það hvort bústaðurinn var keyptur fyrir lífeyrinn eða annað fé. Við göngum því út frá því að bústaðurinn sé séreign.

Arfur eða gjöf?

Ef þú átt eingöngu alsystkini skiptir litlu máli upp á arfshluta hvers og eins hvort bústaðurinn er séreign eða ekki. Móðir þín má ráðstafa þriðjungi eigna sinna með erfðaskrá. Það á bæði við um séreign hennar og hennar hluta búsins. Hún má aftur á móti ekki gefa eign úr óskiptu búi ef hún er verðmæt miðað við eign búsins.

Ef bústaðurinn tilheyrir óskipta búinu þá getur hún látið bróður þinn hafa hann sem fyrirfram greiddan arf sem kemur þá til frádráttar hans hlut við skiptin (nema hún ánafni honum búsraðinn með erfðaskrá). Ef bústaðurinn er skráður séreign hennar, verðið nemur minna en þriðjungi af eignum hennar og hún er í fullu fjöri þá getur hún gefið bróður þínum bústaðinn strax. Ef gjöfin á ekki að koma til framkvæmda fyrr en hún er látin þá er litið á hana sem dánargjöf og farið með hana eins og arf. En ef hún gefur honum bara bústaðinn strax, þá þarf hann að greiða fullan tekjuskatt af honum svo það er ekkert víst að hann sé spenntur fyrir þeirri aðferð.