Áslaug Björgvinsdóttir, fyrrverandi héraðsdómari í Reykjavík, gerir alvarlegar athugasemdir við nýtt frumvarp til laga um dómstóla. Í umsögn til Allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis gagnrýnir Áslaug dómstólaskipan landsins og eftirlitsleysi með dómstólum sem og óskýrar reglur um stjórnsýslu dómstólanna, sem samkvæmt nýju frumvarpi til dómstólalaga standi ekki til að breyta. Að sögn Áslaugar er frumvarpið samið „undir of sterkum áhrifum þess hluta handhafa dómsvaldsins sem vill tryggja ógagnsæja stjórnhætti og þar með vald til að stjórna af geðþótta.“

Í frumvarpinu er hvorki tekið mið af ábendingum GRECO (samtökum ríkja gegn spillingu, sem starfa á vegum Evrópuráðsins) frá árinu 2013, um hættu á hagsmunaárekstrum né vikið að ábendingum Umboðsmanns Alþingis um þá óvissu sem ríkir um eftirlit með stjórnsýslu dómstólanna.

Frumvarpið er samið undir of sterkum áhrifum þess hluta handhafa dómsvaldsins sem vill tryggja ógagnsæja stjórnhætti og þar með vald til að stjórna af geðþótta.

Hætta á spillingu innbyggð í dómskerfið

Að mati Áslaugar er ekki gert ráð fyrir nógu róttækum skipulagsbreytingum í frumvarpinu en hún segir núgildandi dómstólaskipan fela í sér „innbyggða kerfisbundna hættu á hagsmunaárekstrum og samtryggingartengslum“. Af frumvarpinu megi ráða að innanríkisráðuneytið og fagaðilar réttarkerfisins vilji viðhalda þessu ástandi. Áslaug lýsir ástandinu þannig að fámennum hópi manna sé falið að „kjósa stjórnendur dómsvaldsins einhvern veginn og hafa eftirlit með þeim einhvern veginn“ án þess að vera bundnir af málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttar eða þurfa að lúta raunhæfu eftirliti. Hún segir takmarkalaust stjórnsýsluvald dómstóla ekki samræmast lýðræðislegum stjórnháttum.

GRECO hefur gagnrýnt einmenningsdómstólaÁslaug bendir á að í því kerfi sem nú er við lýði fari 47 dómarar með einn hinna þriggja þátta ríkisvaldsins, þar af fjórir sem sitji í einmenningsdómstólum. GRECO hefur gagnrýnt  slíkt fyrirkomulag þar sem það skapi hættu á hagsmunaárekstrum, ekki síst í fámennum samfélögum. Ekki stendur til að breyta þessu.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir millidómstigi þar sem 15 dómarar muni sitja. Áslaug telur hættu á því að millidómstig verði til þess að héraðsdómstólarnir líði fyrir atgerfisskort því flestir eða allir dómendur millidómstólsins muni koma frá héraðsdómstólum.

Ekki tekið á misbeitingu valds og jafnréttislög brotin

Í áliti Áslaugar segir að samkvæmt frumvarpinu sé ekki gert ráð fyrir að rannsaka þurfi störf dómsýslunnar. Þetta leiði það m.a. af sér að starfsmenn dómstólanna búi við lakari réttarstöðu en aðrir ríkisstarfsmenn þar sem ekki sé reiknað með rétti þeirra til að kvarta undan störfum dómstjóra eða dómara. Þá bendir Áslaug á að ekki sé minnst á þörfina á að fjölga konum í dómskerfinu en í valnefnd dómara hafi aðallega setið karllögfræðingar og að störf nefndarinnar hingað til gefi ekki tilefni til að ætla að einsleitur hópur tilnefningaraðila hafi kynjajafnrétti og önnur sjónarmið um fjölbreytileika að leiðarljósi. Hún segir stjórnendur dómstólanna hafa í skjóli sjálfstæðis dómsvaldsins, „hundsað skýr ákvæði jafnréttislaga við skipan fulltrúa í valnefnd dómara frá árinu 2009“. Ennfremur segir hún það ekki samræmast markmiði um óhæði nefndar um dómarastörf að starfmenn lagadeilda háskólanna taki þátt í að tilnefna meðlimi nefndarinnar, þar sem nokkrir dómarar gegni jafnframt akademískum stöðum.

Dómskerfið er orðið eins konar vandlega lokuð sjálfseignarstofnun, sem lýtur eigin lögmálum og geðþótta, án raunhæfs eftirlits og ábyrgðar, þar sem fámennur einsleitur hópur lögfræðinga fær að ráða hverjir verða dómarar, hverjir stjórna, hvernig er stjórnað og eiga geðþóttaval um það hvort lögum er fylgt innan dómskerfisins, s.s. jafnréttislögum og málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttar. Stjórnendur dómstólanna skáka í skjóli þess að það er ekkert raunverulegt eftirlit með stjórnsýslu dómstólanna og þeir geta beitt stjórnsýslulegu valdi sínu til að gera t.d. þeim sem gagnrýna lífið leitt.

Dómarar eru ekki siðferðileg ofurmenni

Áslaug segir „það „útópískt“ að halda að íslenskir dómarar séu „Übermensch“ sem fari létt með eftirlit með kollegum.“ Hún telur frumvarpið ekki taka á þeim vanda sem leiðir af því fyrirkomulagi að dómstólar lúti engu eftirliti. Segir í umsögn hennar að samkvæmt frumvarpinu verði dómsvaldið áfram eins og lokuð regla, þrátt fyrir að Innanríkisráðuneytinu sé kunnugt um misbresti á innra eftirliti héraðsdómstólanna.

Þetta er ekki tæmandi úttekt á gagnrýni Áslaugar en helstu athugasemdir hennar er að finna á vef Alþingis.