Eitt þeirra ráða sem það afsprengi nazismans er kallast Útlendingastofnun hefur gripið til í því skyni að einangra flóttafólk er að banna heimsóknir á staði þar sem það er vistað. Þetta bann nær einnig til blaðamanna.

Heimsóknabannið var sett á undir því yfirskyni að með því ætti að vernda friðhelgi einkalífs þeirra sem þar dvelja. Þetta yfirskin er í meira lagi kaldhæðnislegt í ljósi þess að þeir sem gista Útlendingastofnun njóta alls ekki friðhelgi einkalífs sem þó er kveðið á um í stjórnarskrá sem og Mannréttindasáttmála Evrópu. Þvert á móti geta umsækjendur um alþjóðlega vernd átt von á því hvenær sem er að lögreglan ryðjist inn til þeirra og gramsi í eigum þeirra á grundvelli venslasektar. Leiki grunur á um að einn úr hópi hælisleitenda hafi aðhafst eitthvað misjafnt, er þvingunaraðgerðum á borð við húsleit beint að öllum – jafnvel þótt engin tengsl séu á milli þeirra önnur en þau að koma úr skelfilegum aðstæðum og hafa lagt fram umsókn um vernd. Því síður nýtur flóttafólk friðhelgi einkalífs þegar lögreglan birtist um miðjar nætur og rífur það upp úr rúmi og sendir út í óvissuna, oftast í ömurlegar aðstæður sem varla nokkur Íslendingur myndi telja mannsæmandi ef hann ætti að lifa við þær sjálfur.

Raunverulega ástæðan fyrir heimsóknarbanninu er sú að þegar almenningur í landiu vaknaði loksins til meðvitunar um að flóttafólk væri geymt í Reykjanesbæ árum saman og synjað um réttláta málsmeðferð fóru anarkistar og aðrir róttækir aðgerðasinnar að venja komur sínar þangað. Sjálfboðaliðar á vegum mannúðarsamtaka höfðu komið þangað áður en þeir voru að mati yfirvaldsins meinlausir, buðu upp á félagsskap og öxl til að gráta á en trufluðu ekki störf þeirra sem leggja metað sinn í að halda útlendingum í skefjum – með öllum ráðum. Nærvera fólks með pólitískar meiningar var eitthvað nýtt og yfirvaldinu varð á endanum ljóst að heimsóknir þeirra voru til þess fallnar að stappa stálinu í viðföng Útlendingastofnunar. Það var alls ekki nógu gott því þessi verndari hins ættgöfuga og feykiduglega íslenska kynstofns stóð þá frammi fyrir þeim skelfilegu afleiðingum að flóttafólk fór að mótmæla meðferðinni á sér, eignast íslenska vini og sýna allskyns óæskilega sjálfsbjargarviðleitni. Ekki nóg með það, heldur tóku flóttamenn upp á þeim óskunda að leita til lögmanna sem anarkistar og annað snarbrjálað fólk mælti með og nenntu að vinna. Allt jók þetta álagið á starfsfólk stofnunarinnar og gerði því erfiðara að brjóta gegn mannréttindum flóttafólks.

En nú gæti hyllt undir breytingar í þessum efnum. Fyrr í þessum mánuði komst Mannréttindadómstóll Evrópu að þeirri niðurstöðu að enda þótt ríkin hafi rúmt svigrúm til að meta þörfina á því að takmarka aðgang að flóttamannabúðum, hafi Ungverjaland brotið gegn tjáningarfrelsi blaðamanns með því að synja honum um aðgang að flóttamannabúðum. Skipti þar máli að yfirvöld gátu ekki sýnt fram á að nærvera hans ógnaði öryggi íbúanna, enda höfðu þeir sjálfir samþykkt myndatökur og viðtöl.

Nú er ekki endilega víst að íslensk stjórnvöld og dómstólar telji að sér komi skoðun Mannréttindadómstólsins neitt við. Það er góð ástæða fyrir því að íslenskir blaðamenn eru fastagestir hjá Mannréttindadómstólnum. En ég vona að einhver þeirra láti nú á það reyna.

Myndin er af vef Immiigrationimpact.com