Vinkona mín er af erlendu bergi. Hún hefur verið gift Íslendingi í 6 ár en vill skilja við hann. Eftir að þau giftust keyptu þau íbúð. Hann lét hana undirrita kaupmála um að íbúðin ætti að vera hans séreign. Hún fékk eldgamlan bíl sem séreign en ekkert annað og sá bíll er löngu afskráður. Hún undirritaði kaupmálann án þess að skilja tungumálið af því hún treysti manninum. Getur hún krafist þess að fá hlut í íbúðinni?

☆☆☆

Við hjónaskilnað á maki ekki tilkall til eignarhluta úr séreign. Það eru til reglur um ógildingu samninga svo ef vinkona þín vill fá hlut í íbúðinni þyrfti hún fyrst að fá kaupmálann ógiltan. Ef kaupmálinn stenst formkröfur, er undirritaður og löglega vottaður þá er vinkona þín í erfiðri stöðu.

Þú segir að maðurinn hafi „látið hana“ undirrita kaupmála. Ef um einhverskonar misneytingu var að ræða hefur það þýðingu en sönnunarbyrðin um það hvílir á henni. Það er ekki misneyting í skilningi laga þótt hún hafi undirritað skjal á tungumáli sem hún hefur ekki vald á enda ber lögráða fólk almennt ábyrgð á því sjálft að ganga úr skugga um efni þeirra löggerninga sem það undirritar. Ef hún ætlar að fá kaupmálanum hnekkt á grundvelli misneytingar verður hún að sýna fram á að hún hafi beinlínis verið blekkt, beitt nauðung eða verið ófær um að gefa samþykki sitt.

Það er mögulegt að fá dómstóla til að ógilda samning ef yrði talið óheiðalegt af hálfu annars aðilans að krefjast efnda á honum. Einnig ef samningurinn er augljóslega ósanngjarn. Þetta gæti átt við ef vinkona þín hefur gert íbúðarkaupin möguleg með fjárframlögum og/eða vinnuframlagi t.d. endurgjaldslausu vinnuframlagi til fyrirtækis í eigu makans eða ef hún hefur haldið heimili og alið upp börn hans. Ef hann hefur borgað kaupverð íbúðarinnar einn og verið aðal-fyrirvinna heimilisins er ólíklegt að dómur fallist á að kaupmálinn sé ósanngjarn.

Óháð því hvort hægt er að ógilda kaupmálann er mikilvægt að vinkona þín fari varlega ef telur að hún hafi verið blekkt. Hún ætti alls ekki að undirrita skilnaðarpappíra eða samning um fjárskipti nema ráðfæra sig við lögmann.

Þið gætuð haft gagn af því að lesa niðurstöðukafla héraðsdóms í Landsréttarmálinu nr. 750/2019. Þar reyndi á kröfu um að kaupmála milli hjóna yrði hnekkt á þeirri forsendu að annar maka hefði undirritað hann án þess að skilja tungumálið. Kröfunni var hafnað. Það er ekki hægt að slá því föstu að eins færi í þessu tilviki, til að meta það þarf lögmaður að skoða gögn málsins.

Mynd: © Elnur | Dreamstime.com