Föðuramma mín dó fyrir sex árum, hún var þá löngu skilin við afa en hafði gifst aftur. Seinni makinn situr í óskiptu búi. Faðir minn lést eftir að amma dó og móðir mín situr í óskiptu búi eftir hann. Ef seinni maki ömmu deyr á undan móður minni hvað verður þá um arfinn sem faðir minn hefði fengið eftir ömmu ef hann væri á lífi?
☆☆☆
Ef dánarbúi föður þíns hefði verið skipt þegar hann dó hefði móðir þín erft þriðjung eigna hans. Þegar maki situr í óskiptu búi fellur erfðaréttur hans niður, nema að því leyti sem skammlífari makinn kann að hafa kveðið á um í erfðaskrá (sjá 2. mgr. 19. gr. erfðalaga). Makinn fer þá með eignarráð búsins í lifanda lífi en má ekki ráðstafa þeim hluta eignanna sem tilheyra skammlífari makanum. Ef langlífari makinn á börn frá öðrum samböndum hefur þetta áhrif á þau verðmæti sem þau fá í sinn hlut því þegar hið langlífara deyr, og búinu er skipt, á langlífari makinn aðeins helming búsins en ekki þann þriðjung í hlut skammlífari makans sem hann hefði annars erft.
Þar sem móðir þín situr í óskiptu búi erfir hún ekki föður þinn og þá heldur ekki hans arfshluta eftir föðurömmuna. Arfshluti föður þíns gengur þannig ekki inn í óskipta búið heldur beint til þín og annarra barna föður þíns, sbr. 2. mgr. 2. gr. erfðalaga. Ef móðir þín sæti ekki í óskiptu búi myndi þriðjungur arfsins ganga til hennar.
Mynd: © Albertshakirov | Dreamstime.com